Þrátefli í Evrulöndum.

Vandi evrunnar og þeirra landa sem dýpst urðu fyrir kreppunni  á meginlandinu dýpkar enn.

Ástæðan í fjölda aðildarlanda ESB er sú að gengi gjaldmiðilsins er í engum takt við raunveruleikann í efnahagslífinu.  Það lengir enn tímann sem tekur að vinna sig útúr vandanum og dýpkar skuldavandann því útflutningstekjur  skila  alltof litlu.

Það er kaldhæðnislegt að kannski er von Grikklands, Spánar, Ítalíu, jafnvel Frakklands og fleiri landa um  bata -  sú að hægi á hagvexti í  Þýskalandi.      Vegna stærðar þess stóra bróður  er  gengi Evrunnar háð ástandinu í  því fjölmenna ríki.      Lækki gengið  Evrunnar fer það aðeins nær raunveruleikanum í þessum löndum.             Stóri gallinn er hinsvegar sá að Evrukreppan  mun enn lengjast.    Þetta er því hálfgert "no win situation"    sem enskurinn myndi kalla það.


Enn algjörlega ótrúlegt afrek.

Það var nú alveg nógu merkilegt að fá sjónvarp inná heimilið árið 1968.  Undrast og stara á þetta galdratæki. 

Hvað þá ári seinna að horfa á Neil Armstrong hoppa tilndilfættan og hálf svífa í níðþungum geimbúning á tunglinu í gamla svarthvíta túbutækinu inni í stofu.   

Þrátt fyrir allra handa tækniundur sem stöðugt hafa litið dagsins ljós síðustu 43 árin  er eiginlega ekkert sem toppar þetta tvennt.

Í dag væri þetta magnað afrek.     En að þetta skildi takast árið 1969  stenst engan samjöfnuð.   Hugsið ykkur hvað hefur gerst í tæknimálum.    Tölvur voru t.a.m.  afskaplega vanþróuð tæki á þessu tíma og varla komnar almennilega í notkun svo heitið gæti.


mbl.is Strax sýnt að Armstrong væri kandídatinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullorðna fólkið.

Þessi grein birtist í föstum dálki  Sunnlenska Fréttablaðsins 15 ágúst 2012. 

 

LEIÐARLJÓS OG FULLORÐIÐ FÓLK.

 

Þegar Leiðarljósið var slökkt endanlega í sjónvarpi allra landsmanna kristallaðist hve eldri þegnar þessa lands eru afllítill þrýstihópur.   Enda  yfirleitt ekki  fólk sem vælir og kvartar alla daga. 

Ég horfði aldrei á þennan endingarmikla framhaldsþátt.  Bara stöku ramma stundum þegar leitað var í textavarpið eftir nýjustu veðurspám eða fréttum.     Satt að segja höfðar efni þessa þáttar  jafn lítið til mín og endalausar morð og beinagátur  kvöldin út og inn.

  En ég kannast við hóp af  fólki sem fylgdist spennt með hverjum einasta þætti.  Sérstakleg var markhópurinn fólk í eldri kantinum  og þeir sem dveljast  á öldrunarstofnunum.     Aðdáendur þessa þáttar nema þúsundum  og það vita þeir á RÚV.  Ég er ekki í stöðu til að segja  þá sem fylgdust með kjána eða með lélegan smekk fyrir sjónvarpsefni.   Ekki frekar en Jón í næsta húsi ef hann velur að safna vasahnífum.       Stjórnendur RÚV finnst mér hins vegar taka  þann pól í hæðina.  Þeir orðuðu það beint út og sögðu komið nóg.  Sennilega hefur töffurunum sem stjórna Sjónvarpinu ekki þótt þetta efni lengur nógu töff.

Framleiðsla þessa þáttar er að vísu hætt í dag.    Samt á eftir að sýna hér á Íslandi efni sem endist heil 9 ár. Elsti hópurinn hefur greitt uppí topp fyrir  þjónustuna og afnotagjöldin allt sitt líf.  og á því alveg heimtingu á "sínu"   uppáhaldsefni.  Sem og aðrir. Margt misgáfulegt er framleitt og keypt erlendis frá í öllum miðlum undir formerkjunum afþreying.      Sjónvarpsþátturinn Leiðarljós  var ekki það versta.

 

Þetta dæmi sýnir okkur hve virðing fyrir sjónarmiðum og áhugamálum eldri borgara  er takmörkuð.  Íslensk löggjöf  stimplar hópinn út  67 til 70 ára gamlan.  Í sem stystu máli..,  “Verið þið sæl.    Þið megið fylgjast með því sem við  (á besta aldri)  gerum á hliðarlínunni ef þið endilega viljið.   En ykkur er harðbannað að vera með.”    

Það er engin tilviljun að víða á byggðu bóli njóta  hinir elstu mestrar virðingar. Þannig er það yfirleitt hjá fjölda ættbálka og þjóðflokka um allan heim. Þeir hafa safnað i reynslubankann og einstaklingar sem eru svo heppnir að halda heilsu geta miðlað visku til hinna yngri og þeirra sem ráða.

            Ég er ekki með þessum orðum að kasta rýrð á þá sem fara með málefni elstu borgara.   Sinna þeim í félagsstarfi,aðhlynningu og umönnun.  Þar gerum við Íslendingar betur en flestir og  unnið er frábært starf.  En hin alltof mikla “hólfun”  samfélagsins í aldurshópa  hefur að mínu mati gengið útí öfgar.

  

                                    Valdimar Guðjónsson

 

Færeyjar heimsóttar.

 


        Þröng,vinaleg strætin og húsasundin í elsta hluta Þórshafnar anga af sögu. Því til viðbótar fyllir vitin angan af tjöru.Sama tegund af fúavörn og notuð hefur verið á timburhúsin í mörg hundruð ár.  Íbúar Þórshafnar greinilega hæglátt og vinalegt fólk. Við höfnina er iðandi mannlíf og ógrynni smáfleytna af öllum gerðum. Uppí stórskip. Síðan rykkjast fram og til baka meðfram bryggjum og hafnargörðum fjöldi róðrabáta.  Ræðarar eru af báðum kynjum og  víðu aldursbili. Stýrimaður í skut rær sjálfur  í gráðið  fram og aftur í  takt við ræðarana og hvetur þá við hvert áratog. Styttist greinilega í Ólavsvöku

 

 

Ef metnaður venjulegs Íslendings er að eignast skika og sumarbústað  þá er kappsmál Færeyinga að eignast fleytu.  Allan skala skipa og bátaflóru má greina við flestar bryggjur sem eru margar á eyjunum. Í Þórshöfn mátti greina fiskiskip, fiskibáta,seglskip,seglbáta,urmul smábáta með færavindu,skútur, róðrabáta og skemmtisnekkjur af öllum stærðum.  Síðan birtast  risa skemmtiferðaskipin  allt í einu og umhverfið verður líkt og fíll hafi hlammað sér í býflugnabú.  Þannig eru stærðarhlutföllin.

 

Við sáum tilsýndar minnismerki um Kristján 9. Stendur nokkuð hátt uppúr byggðinni.  Unglingur kom þrammandi niður húsasund og rakleitt til okkar. Sennilega séð okkur spurul á svipinn úr fjarlægð. Óbeðinn vísaði hann okkur á gönguleið upp hellulagðann stíg.  Við tókum eftir að vönduð netgirðing var umhverfis hæðina og stöpulinn.  Nokkrar kindur sáu nefnilega um hirðingu og slátt kringum þennan ferðamannastað.  Engin mengun af sláttuorfum þar.  Ef kýr eru heilagar á Indlandi þá nálgast sauðfé þann titil í Færeyjum.  Eyjarnar standa allar undir nafni.  Meðfram öllum vegum og allsstaðar sem því verður við komið sjást kindur á beit.

 

 

Kúabóndinn sem við heimsóttum var að hefja slátt 17.júlí. Múgaði síðan upp strax í kjölfarið. Verkaði í rúllur. Sagði vorið hafa verið kalt og sumarið síðan óvenju þurrt. Var þess fullviss að tíðarfarið nú væri algjör undantekning.Enda sást hvergi fjölfætla til að snúa heyi á eyjunum.  Í morgunútvarpinu voru lesnar ítarlegar fréttir af aflabrögðum fiskiskipa.   Bæði færeyskum  og einnig mun fleiri fréttir af íslenska flotanum en heyrist nokkurn tímann orðið í heimalandinu. Það var fróðlegt og rifjaði upp heitstrengingar fréttastjóra RÚV strax eftir hrun.   Í samviskubiti með hálfsofandi og gagnrýnislitla umfjöllun um glórulaust viðskiptahátterni útrásarróna átti að bæta fréttir af undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Slíkt var fljótt að gleymast.   Kaffærðist helst í síbyljuvæli um tegund og gerð sóknar og kvótakerfis í sjávarútvegi sem engan enda ætlar að taka.

 

 

Sterk upplifun var að heimsækja Kirkjubæ.   Þetta ævaforna kirkjusetur þar sem biskupssetur var til ársins 1538.   Sama ætt hefur búið á staðnum síðan 1557.      Þarna endast híbýlin því þessi fjölskylda býr enn að hluta til í timburhúsi frá 11. öld. Er það talið elsta timburhús í heimi sem búið er í . Voldug dómkirkja sem byrjað var að reisa árið 1300 stendur enn.  Og stæði trúlega heil enn ef framkvæmdum hefði ekki verið hætt árið  1550.     Veggirnir eru gríðarþykkir og hún er öll úr grjóti.    Kölluð "Múrinn".  Nú er unnið að endurreisn og viðgerð hennar.  Aðeins varð manni hugsað  til þess hví í ósköpunum Íslendingar nýttu ekki meira grjótið til bygginga í fornöld, sem allsstaðar er nóg af nema í Landeyjum.  Það hefði allavega verið hægt við kirkjubyggingar.

   Bændur voru í heyskap í Kirkjubæ.     Baggabindivél af gömlu gerðinni batt baggana.  Þeir voru þungir.    Sem vonlegt var því trúlega var túnið slegið um morguninn, eða daginn áður. í mesta lagi 30% þurrkun.  En við túnjaðarinn stóð minnsta rúllupökkunarvél sem ég hef augum litið.   Þar voru litlu baggarnir bundnir í plast.   Lyktin afheyinu var ágæt, en ilmaði allt öðruvísi en íslenskt hey.  Af því var líkt og  kryddkeimur.  Það sem þurrast var virtist hálf molna.   Hugsanlega var það skýringin á þessari aðferð við heyverkun.Kunni ekki skil á grastegundinni þarna, en hún var framandi fyrir Flóamenn.

 

 

Snyrtimennska virðist almenn.   Jafnvel bæjarróninn í Þórshöfn sem hafði fengið sér vel af kranabjórnum niður við höfn, beið við rusladallinn til að geta drepið í og hent sígarettustubbnum.  Horfði rangeygður á stubbinn reykjast inn að filter.  Steig í allar áttir til að halda jafnvægi.    Svona hugsun mættu meðal og magndrykkjumenn áfengis á Íslandi gera.En það skal tekið fram að á 5. og síðasta degi heimsóknarinnar sáum við fyrst lögreglubíl á Eyjunum.   Yfir laganna vörðum var rólegt yfirbragð . Einnig íbúum.

 

Valdimar Guðjónsson.

 

 

 

Þrándur í Götu var þversum.  Sem og minnisvarðinn á sama stað.

 

Þrándur í Götu var þversum.  Sem og minnisvarðinn á sama stað.


Gagnleg viska.

Ég bý ekki á höfuðborgarsvæðinu. Keyrði fyrir nokkrum árum úr Bláfjöllum gegnum Hafnarfjörðinn. Þá var að byrja uppbygging í "nýjasta" hrauninu. Varð hálf hissa að sjá undurbúning bygginga á dökku úfnu hraunsvæði sem varla hefur náð að verða almennilega mosavaxið. Svo stutt er síðan það rann.
Í þessu fróðlega viðtali minnist Haraldur ekki á stöðvarhús Hellisheiðarvirkjunar. Húsið var reist við blá brún Svínahraunsins sem rann fyrir örfáum sekúndum jarðsögulega séð.

Vissulega búum við á eldfjallaeyju. Á sumum stöðum líkt og íVestmannaeyjum er lítið svigrúm. En í sumum tilvikum blasir við óþarfa áhætta. Eins og Haraldur segir, því meira nýrunnið hraun. Því meiri áhætta að reisa mannvirki ofan á því, af öllum stöðum.


mbl.is Byggð reist á hættusvæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfið.

Þessi grein var birt í föstum dálki Sunnlenska Fréttablaðsins  þann 29.júní  2012.

  Ég skil  ekki alltaf áherslur og það sem mest brennur á því ágæta fólki sem hefur gert umhverfismál að ljósi lífs síns.     Það er án efa mitt vandamál að hluta til . Þó vel sé meint er ljóst að margt í þeim málaflokki orkar  tvímælis þegar framkvæmt er, ritað, hugsað og síðast en ekki síst staðhæft.

            Mannanna áhrif á umhverfi sitt blasa við hvarvetna.  Spurningin um að líka það betur eða verr  er snúin.  Það er að vísu til fólk sem er algjörlega heilt í afstöðu sinni. Í þessum málaflokki ber ég mesta virðingu fyrir þjóðflokkum í Suður-Ameríku, Afríku, Asíu og víðar.   Til er nefnilega enn fólk sem hafnar algjörlega vestrænum lifnaðarháttum bæði í lífsstíl og neyslu.  Það kýs að lifa af og í náttúrunni nákvæmlega eins of forfeður þeirra hafa gert í þúsundir ára.   Að mínu mati er það  heilsteypt og heiðarleg umhverfisvernd.  Ég tæki húfu mína ofan fyrir hópi þessa fólks ef ég væri nálægt þeim að mótmæla iðnríkjunum sem stundum sést.  Ekkert okkar hérna megin á hnettinum, sem ástundum  lífsmáta vesturlandabúa getum nefnilega í samanburði talist  “sjálfbærir”  neytendur hvað varðar áhrif á umhverfi. Alveg sama hver hugsjón okkar annars er. Flestöll í botnlausri neyslu. Mismikilli þó.  Bæði sjónrænt með mannvirkjagerð, notkun jarðefni með  mengun og raski á hinni upphaflegu náttúru þessa lands og annara.Einnig með ræktun og fleiru..     Kannski gæti Gísli heitinn á Uppsölum talist síðasta íslenska náttúrubarnið.  Lítt háður öðrum.  Heyi í kindurnar náð með slætti á þúfnakollum líkt og okkar forfeður gerðu.

            Enn ein hliðin  á umhverfisvernd og sú sem ég get alveg kvittað undir er að koma í veg fyrir sóðaskap í öllu formi og óþarfa rask.  Einnig  þegar slæmar afleiðingar gjörða manna eru augljósar.    Dæmi.       Frá Hellisheiðarvirkjun er blásið og púað uppí loftið eitruðu brennisteinsvetni. Þeir sem draga andann í Hveragerði og á höfuðborgarsvæðinu  finna fyrir því.     Akstur utan slóða á viðkvæmum svæðum er mikill.  Myndir sem birtust nýlega í Morgunblaðinu teknar úr lofti voru sláandi. Einnig hafa sést fréttir af slíku í sjónvarpi. Viðkæmur gróður og graslendi var þakið örum séð úr lofti.  Fréttin vakti lítil viðbrögð svo ég sæi. Einnig afar lítil, ef nokkur frá  til þess bærum ráðuneytum. Ég er hugsi yfir því. 

            Skilt er að þakka sem vel  er gert.  Nú síðast alþingismönnum fyrir tímamóta skref á vorþinginu.  Samþykkt þeirra um að fella niður virðisaukasatt af rafbílum mun valda byltingu í nýtingu alíslenskrar orku á bílana okkar.

           

 


Leiðarljós, hvers vegna að slökkva?

Áhorf á efni RÚV skiptist í markhópa.    Stjórnendur hljóta að hafa orðið varir við slíkt.

Yngstu áhorfendur frá 0 til 12  fá  sitt efni.   Barnaefnið er í stöðugri framleiðslu og á sitt pláss á hverjum einasta degi.

Unglingarnir með sitt.   Stöðug framleiðsla.  Bíómyndir, framhaldsþættir og margt fleira.

Yngri foreldrar og hópurinn fram að miðjum aldri með allan pakkann.  Krimmaþættir.   Endalausar morð og beinagátur.   Allt með mismiklu blóði eftir smekk hvers og eins.   Snyrtilegir breskir þættir líka í boði.  Allskyns skemmtiefni  "samtímafólks"  í öllu formi.

Eldri borgarar. Fólk á dvalarheimilum og fleiri.      Nú bráðum ekkert í boði fyrir þann "markhóp".  Leiðarljós á förum.    Þá eru bara eftir fréttir  og kannski ein fróðleg heimildarmynd   á jóladag eða annan í jólum.  Punktur.

Það fer í taugarnar á mér hvernig fjölmiðlamenn  hæðast þessa dagana að þeim sem hafa fylgst með Leiðarljósi og gera enn.  Þúsundir áhorfenda bíða spenntir eftir næsta þætti. 
Nú síðast ritar hinn annars bráðskemmtilega og skarpa Kolbrún Bergþórsdóttir fjölmiðlapistil í Moggann  þar sem hún fagnar ákvörðun RÚV.  Vottar vægast sagt fyrir háði í garð þeirra sem halda uppá Leiðarljósið.

Ég hef aldrei sjálfur séð nema nokkra ramma af þessum þætti.  Álveg áhugalaus, tek það fram.  En ég veit um fullt af fólki sem fylgist spennt með hverjum þætti.   Má það ekki eða?

Hví þarf að umvanda fyrir öðrum og smekk þeirra er mér hulið.   RÚV er fyrir áhorfendur.  Elsti hópurinn hefur alveg greitt uppí topp fyrir  þjónustuna allt sitt líf.  og á því alveg heimtingu á "sínu"  efni uppáhaldsefni.  Sem og aðrir.


mbl.is Endalok Leiðarljóss ákveðið áfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tærandi gufur.

Galvaneseruð  (ryðvarin)  rafmagnsmöstur  eru orðin mökkryðguð á Hellisheiðinni  og einnig sést það í nágrenni við Hveragerði.      Það hefur snarversnað síðan Hellisheiðarvirkjun fór af stað.

Þetta segir ýmislegt.   Má morgunljóst vera að gufur sem valda tæringu sem þessari eru vart hollar við innöndun ofan í lungu.

Hitt skil ég ekki hvers vegna  fjölmiðlaumfjöllun snýr nær eingöngu að íbúum  Hveragerðis.  Íbúar þar eru að vísu nær, en vindar blása úr öllum áttum á  Íslandi.   Þetta andrúmsloft leikur því líka um höfðborgarsvæðið.

Ætlar enginn að spyrja Jón Gnarr ???  , um hans álit.


mbl.is Fólkið verði ekki tilraunadýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki frétt.

Almenningi kemur það ekki nokkurn skapaðan hlut við hvernig vinnutima alþingismanna er háttað. Bæði daglega og í tímabilum.

Í guðanna bænum hættið að gera slíkt að máli málanna sífellt. Óskandi væri að fjölmiðlar hætti að apa eftir grenj sumra þingmanna og ráðherra  um sama mál. Nær væri ad vitna í ummæli þeirra og framgang nefnda og þingumræðna.

Þingfréttamaður RÚV og fleiri miðlar gera slag í slag jafn ófréttnæman hlut og vinnutíma heilbrigðs vinnandi fólks að máli málanna.


mbl.is Árangurslausir fundir um þinglok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamennska í umdeildum málum.

Ég mun skrifa stutta pistla í Sunnlenska fréttablaðið nú á næstunni ef mér endist andagift.   Þeir munu birtast á nokkurra vikna fresti með fleiri skrifurum.        Eftirfarandi birtist í blaðinu 27.maí 2012.

                              Blaðamennska í umdeildum málum.

 

Það er galli á íslenskum fjölmiðlum á landsvísu hve sjálfsgagnrýnin virðist oft víðs fjarri þegar fjallað er um umdeild mál.     Allt er að verða læst í ákveðin hólf þar sem þú velur eftir þínum skoðunum þinn miðil.  Að setja sig í annara spor virðist óyfirstíganlegt verkefni.

            Að sumu leyti minnir þetta á tíma flokksblaðanna.  Ákveðin “málgögn” voru við lýði á dagblaðamarkaði.  Tíminn lýsti sannleik og heimssýn Framsóknar og samvinnumanna. Alþýðublaðið útfrá sjónarhól Kratanna og Alþýðuflokksins.    Morgunblaðið sýn Sjálfstæðisflokksins og hægri manna.  Þjóðviljinn málgagn kommanna og ystu vinstri mann í Alþýðubandalaginu.     Ég man einu sinni eftir að lesa sjónvarpsdagskránna í gamla Þjóðviljanum fyrir margt löngu.  Það er yfirleitt mjög stöðluð kynning.  En manni til skemmtunar var hnýtt aftan við lýsingu á amerískri bíómynd þá helgina vandlætingu blaðsins á amerískum menningaráhrifum um allan heim.    Svona blaðamennska féll ekki í kramið enda hætti blaðið, en að sumu leiti var þetta kannski bara heiðarlegt.

            Í dag eru hinsvegar margir miðlar í öllu formi sem gefa sig út fyrir opinn faðm hlutlausrar blaðmennsku, vettvang margvíslegra skoðana og úttekta í umdeildum málum.   Síðan þegar til kastanna kemur  er grímlaust öll fréttaumfjöllun á sínum ákveðna pól hvort sem hann er plús eða mínus.   Svo ég taki dæmi þá sjást ekki  greinar í Fréttablaðinu sem draga í efa alla kosti þess að ganga í ESB.   Morgunblaðið undir stjórn Matthíasar og Styrmis var  opnað fyrir öllum skoðunum í umfjöllun og aðsendu efni.   Það tókst þeim jafnvel þó þeir hefðu ákveðna línu í ritstjórnargreinum.   En á hinn vegin eru þar í dag  fáar greinar  og umfjallanir   sem sjá kosti þess að ganga inn i þetta sama ESB.   Þá eru nú fá dagblöð eftir sem eru opin fyrir víðsýnni umræðu.  Mörgum þykir líka RÚV hafa þarna ákveðna slagsíðu þó lögum samkvæmt eigi svo ekki að vera.

            Hvernig fréttir eru  “matreiddar”  skiptir máli.  Við sáum dæmi um slíkt í góðærinu þegar viðskiptaflétturnar voru dásamaðar á Stöð 2 og  víðar, svo vel og gagnrýnislaust að heil þjóð var blekkt.  Kunningi minn lýsti þessu á þann veg að í eina tíð var sagt hvað gerst hafði.    Síðan kom tímabil þar sem margir miðlar  (svosem Morgunblaðið , DV og fleiri um tíma)   urðu  opnir fyrir skoðanaskiptum.     Í dag  líta stærstu fjölmiðlar á hlutverk sitt  að “móta” umræðuna.     Það má taka undir þetta sjónarmið.   Stundum  er þetta ljóst .  Verra  þegar það er leynt.

 

Valdimar Guðjónsson.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband