Atvinnumálin .

Efnahagsstaða ríkisins er mesta furða eftir öll ósköpin sem á hafa dunið.  Þá meina ég ganginn frá degi til dags.   Vöruskiptajöfnuður er hagstæður, og framleiðsla hér bæði skapar dýrmætan gjaldeyri og sparar hann.     Í fyrra dæminu má nefna fiskinn, stóriðjuna og ferðamannabransann.  Í seinna dæminu má nefna landbúnaðinn og aðra innlenda iðnframleiðslu.

Allt þetta skiptir máli fyrir öflugt þjóðfélag og alvöru tekjumyndun.  

En ef að ekki tekst að efla fjárfestingu og fleiri sprota í atvinnumyndun þá festist hér í sessi 10 til 15% atvinnuleysi.   Það er algjörlega óásættanlegt.

      Atvinnuleysið er staðreynd vegna þess að mun færri hendur þarf í öfluga framleiðslu nú, heldur en fyrir 20 til 40 árum síðan. Allt vegna nútíma tækni, sérhæfingar og í sumum tilvikum hagræðingar þrátt fyrir allt.  Einnig kallar aukin menntun síðustu áratuga á sérhæfingu.  Hún veldur því að fólk þiggur ekki þá vinnu sem býðst.    Ég get nefnt sem dæmi að þá gistum við hjónin á geysilega flottu nýju hóteli hér á landsbyggðinni fyrir nokkrum mánuðum. Það vakti athygli okkar að  meirihluti þjónanna var pólskur og annað starfsfólk flest frá fyrrum austantjalds löndum að sjá.

Við eigum gnótt tækifæra.   Það er sótt í fjárfestingu hér erlendis frá.  Ég vil ekki sleppa hér öllu lausu.  Öll þjóðin er brennd af því. En hættum að þverskallast með krónísku flækjustigi gegn þeim tækifærum sem þó bjóðast.


Jafn hissa sigurvegarar.

Það var mjög líkt að fylgjast með sigurvegurum kosninganna í Reykjavík og þýsku stúlkunni Lenu í Evrovision keppninni.      

Hissa á svipinn og hugsandi yfir hinni nýju stöðu.    Sá var þó eini munurinn að Jón Gnarr og félagar höfðu haft nokkra daga til að meðtaka þetta með vísbendingum skoðanakannana.

Það þurfti ekki landsmálin til í Reykjavík.  Kjósendur höfðu ærnar ástæður til að refsa frambjóðendum eftir farsakennd fjögur ár með ótal borgarstjórum.   En mér þykja fáir minnast á kjósendur án atvinnu.  Sá hópur telur brátt tvo tugi þúsunda.   Þeir leiðtogar sveitarfélaga sem hafa barist fyrir fleiri fyrirtækjum, erlendri fjárfestingu  og atvinnutækifærum fengu blússandi kosningu.   Ríkisstjórnarflokkunum er refsað fyrir ósamstöðu fyrst og fremst.  Tala út og suður um þau mál sem brenna á fólkinu. 

Skemmtilega líkt hve þessir sigurvegarar sigruðu á sömu forsendum.  Kæruleysislegri framkomu og einlægni.

Einar úr Sykurmolunum fyrrum skólabróðir og sessunautur var góður í morgunútvarpinu. Komin í borgarstjórn fyrir Besta flokkinn.  Mjög líkur sjálfum sér, sem er gott.


mbl.is „Pólitískur landskjálfti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þurfa hús að kosta?

Hönnun opinberra bygginga var líkt og margt annað komin útúr öllu korti í "góðærinu".  Við sitjum mörg uppi með húsnæði sem varð alltof dýrt.    Ekki af nauðsyn heldur skrýtnu samblandi af bulli og snobbi ef nota má slíkt orðfæri.  En mér kemur ekkert annað í hug.

Á Stokkseyri stendur nýbygging grunnskólans nánast tilbúin. Mig minnir að framkvæmdir hafi byrjað 2007. Vegna deilna við verktaka hefur dregist að taka húsnæðið í notkun, en til þess máls þekki ég ekki.   Kostnaður við þetta hús stefnir í að verða krónur 100 milljónir á hverja kennslustofu.     Það þykir mér dýrt.

Hér í Flóahreppi er stækkun grunnskólans sem heitir Flóaskóli í gangi.   Þar er byggt núna í kreppunni miðri og vorum við í sveitarstjórn að sjálfsögðu hugsandi um að hefja framkvæmdir þegar allt byggingarefni hafði nánast tvöfaldast í verði á einni hélunótt.  Haft var hinsvegar að leiðarljósi að hanna bygginguna á einfaldan hátt.      Byggingakostnaður þessa húss sem uppfyllir alla staðla og kröfur um opinberar byggingar, stefnir í að verða um 10 milljónir á hverja kennslustofu.     Það þykir mér ódýrt.

Svo getur hver og einn reiknað í huganum.   Til dæmis tónlistarhúsið.  Hvað hefði það getað kostað með jarðbundinni og "eðlilegri" hönnun ?     Örugglega eitthvað álíka í hlutfalli og þessi fyrrgreindu dæmi.  Hugsanlega hefði það ekki orðið eins "sérstakt" í útliti en ég held samt að flestum liði betur í dag með ódýrara hús.

 


Brúðkaupsgestirnir.

Hér er settleg myndataka af brúðkaupsgestum á óvenjulegum stað.

Óvæntur endir óneitanlega.LoL

http://www.youtube.com/watch?v=j0cyvKpWTmU


Sparnaðarráð. ESB og Harpa út.

 

Ef rétt er að kostnaður við ESB umsókn gæti farið í 6 milljarða. (Segjum 2 milljarðar ef hitt er yfirskot).

Og að tónlistarhúsið stefni í 30 þúsund milljónir., m.ö.o.  30 milljarða.  Ef rétt er, þá finnst mér þetta allt að því glæpsamleg eyðsla og sóun í kreppunni.

Þegar kemur að alvörunni allri í fjárlögum næsta haust mun koma í ljós að þetta er fáránleg eyðsla og vita gagnslaus.  Þá (og nú í fjárlagavinnunni)  verður einfaldlega horft í hverja krónu.  Nánast hvern þúsundkall vegna þess  að engir peningar eru til. Svo einfalt er það.

Fáránlegt vegna þess að til er húsnæði til flutnings tónlistar út um alla borg.  Glöggir segja 90% allra tónleika með áheyrendur á bilinu 100 til 200 manns.   Þeir væru hálf týndir í 1.800 manna tónleikasal. Illskiljanlegt því að þessi "fjárfesting" mun aldrei skila sér til baka.  Ergo, þetta er munaður.   Mér er hinsvegar ljós að það þarf að klára þetta snobbhús vegna þess hve þetta er komið langt.    Nú er bara fráleitt rétti tíminn til þess.    Með fullri virðingu fyrir atvinnuástandi í Kína og reyndar hjá þónokkrum Íslendingum.  En þeir hefðu mátt fá arðbærari verkefni.

ESB ferlið er sóun því að enginn talar fyrir umsókn.  Þjóðin vill ekki sjá þetta samkvæmt könnunum.  Til hvers og fyrir hvern er þá barist og tilheyrandi kostnaði fyrir ríkið?    


Á eldfjallaeyjunni.

Mér þykir þessi mynd sem birtist í Fréttablaðinu 8. maí 2010 segja ótrúlega sögu.  Sögu sem sýnir á áþreifanlegan hátt á hvernig landi við lifum.

Meðan á meginlandinu má telja árhringi á þversniði stórra trjábola höfum við sögu okkar í jarðlögum.  Þar má greina gosvirkni fyrri alda með mismiklu öskufalli.    Öskufall er ólíkt að magni og gerð milli tegunda gosa.    En hverjir verða fyrir því á vindasömu landi eins og  Íslandi byggist á heppni og vindátt útfrá eldstöð.

Ef gosinu fer að slota nú eru afleiðingarnar eftir.  Fjúk og sandbyljir er fyrirkvíðanlegir víða.  En alltaf hafa Íslendingar komið standandi undan hamförum sem þessum.  Og haldið áfram að nýta frjósemi landsins.  Einnig á tímabilum örbirgðar og harðinda sem nútímamaður fær vart skilið.     Við verðum að hafa slíkt í huga, jafnvel þó við köllum núverandi ástand kreppu.Ekki skal ég gera lítið úr því. En höfum í huga lífsumhverfi forfeðra okkar.    (Hægt er að tvísmella með músinni til að stækka)

Allt tekur enda.scan0001.jpg


mbl.is Verulega dregið úr kvikuflæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á gossvæði.

Við keyrðum að Skógum kvöldið 9.maí.   Kvöldsólin var á austurleið eins og kastljós á gosstöðvar og sjónarspilið var einstakt.  Hreint og skýjalaust á Eyjafjallajökul.   Öskumökkurinn upplýstur og ólýsanlegur.  Af og til skipti hann litum og dökkur mökkur kom úr neðra.  Hraðinn upp var þvílíkur að vel mátti fylgjast með því á keyrslu.

Með Eyjafjöllunum sjálfum sést lítið til gosstöðva, en drunur heyrast öðru hvoru og merkin um öskufallið sjást víða.   Þessi grónu fjöll eru steingrá og ummerkin blasa við.  Á bæjum kemur grasið upp milli misþykks öskulags.  Lítur þokkalega vel út að sjá, en þar sem verst er sést vel hve allt er gisið enn sem komið er og grámi yfir öllu sem ekki er búið að skola með vatni .

Er við beygðum til vinstri heim að Skógum blasti gosið aftur við, frá nýjum og austlægari sjónarhól.  Það er ótrúlegt útsýni til gosstöðva  frá þessum stað.     Vindátt var þannig að dökkan mökkinn lagði beint yfir Skóga.   Krafturinn upp var hinsvegar þvílíkur að  lítið sem ekkert kom niður sem öskufall.   Við sáum á eftir mökkunum í suðuausturátt, enda voru þarna slæmir dagar í Vík hvað öskuna varðar.  Einnig barst þetta greinilega í háloftin sem Evrópubúar og flakkandi flugfarþegar hafa mátt reyna.   Gífurlegt magn  hlýtur einnig að fara í sjóinn með þessari vindátt sem enginn grætur.

Vandamálið er að þessu virðist hvergi nærri lokið og eiga bændur á þessum svæðum minn skilning og samhug við ótrúlegar aðstæður.


Feimin en örugg söngkona.

Þarna kom fram ný söngstjarna 1. maí sl. á Bretlandseyjum. Það er alltaf gaman að svona litlum öskubuskuæfintýrum.  Hér kemur á svið feimin 14 ára stelpa. Óörugg þar til hún hefur upp raust sína.   Þá breytist hún í örugga söngkonu með þessa líka fínu rödd. Olivia Archbold heitir hún og heillaði dómara jafnt sem áheyrendur. Það vill flestu verða ofgert í sjónvarpi sem gengur vel í áhorfendur.  Líka  “idol” keppnum allskyns.   En mér finnst samt virðingarverð hugmyndin sem  býr að baki.. Maðurinn og konan beint af götunni eða  úr sveitinni (hin nú heimsfræga söngkona Carrie Underwood átti heima á kúabúi)  eiga möguleika að sanna sína hæfileika. 

Hér er Olivia að syngja í fyrsta sinn;

http://www.youtube.com/watch?v=hWBoyoaIuAE&feature=fvst


Kjarkmaður.

Þessi yfirlýsing fréttastjóra Stöðvar tvö sem beinist að fréttaumfjöllun um Jón Ásgeir eiganda er athylisverð.        Þetta er mikill kjarkmaður og ég tæki sannarlega hatt minn ofan fyrir honum, gengi ég með hann.   Bara fyrir að birta þessa frétt.

Í raun hef ég aldrei síðustu ár séð neitt sambærilegt gerast.   Hvað þá að neinn fjölmiðlamaður hefði kjark, gagnrýni, víðsýni eða fjarlægð síðustu ár á tímum hins meinta góðæris.   Þá bugtuðu sig allir og beygðu, ógagnrýnir, fyrir mönnum á kafi í krosseigna braski.     Afleiðingarnar þarf ekkert að ræða.  Að ná 440 millum að láni í miðri kreppunni hlýtur að teljast nokkuð afrek hinsvegar.

 

- Stendur við fréttina

Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Stöðvar 2

Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Stöðvar 2

Fréttastjóri Stöðvar 2 segir ástæðulaust annað en að standa við frétt fréttastofunnar frá því í gærkvöld um skuldamál stórra eigenda sjónvarpsstöðvarinnar, hjónanna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur. Gagnrýni Jóns Ásgeirs í Pressunni væri svo rýr í roðinu og tæki ekki á neinum efnisatriðum.

Málið snýst um meira en óánægju kaupsýslumanna úti í bæ með eina frétt í fjölmiðli í miðju bankahrunsuppgjöri. Jón Ásgeir og Ingibjörg eru stóreigendur 365 miðla sem reka Stöð 2 og sú síðarnefnda stjórnarformaður félagsins.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Stöðvar 2, sagði við Pressuna í morgun að honum hefði verið vel kunnugt um óánægju hjónanna Jóns Ásgeirs og Ingibjargar áður en frétt um nýleg kúlulán þeirra var send út.
Ég fagna því að Jón Ásgeir skuli greina frá því í Pressunni um hvað þessi viðskiptagjörningur snýst því að eftir sólarhringssamskipti við hann og  Ingibjörgu Pálmadóttur fengum við ekkert efnislega um hann sem við  máttum hafa eftir þeim.
Í frétt Stöðvar 2 sagði að Jón Ásgeir hefði fengið tvö tíu ára kúlulán frá óþekktum aðila í apríl, samtals upp á 440 milljónir króna. Lánin væru með veði í tveimur nú yfirveðsettum fasteignum í eigu Ingibjargar Pálmadóttur í Reykjavík.

Jón Ásgeir sagði við Pressuna að hann vissi ekki hver fréttin væri.

Við hjónin stöndum í skuldauppgjöri við Landsbanka Íslands sem er okkar einkamál. Ingibjörg ákvað að láta hús sín að veði þannig það yrði framkvæmanlegt. Það losna engir nýir peningar, bankinn er aðeins að fá betri tryggingar. [...] Það þykir kannski cool hjá einhverjum á Stöð 2  að bera á borð lygafréttir um eiganda sinn og fá klapp í DV á morgun fyrir það. Kannski snýst fréttamennskan um það í dag hjá einhverjum á Stöð 2.

 

 

Óskar Hrafn segir að málið snúist ekki um að vera kaldur karl heldur að flytja fréttir.
Það væri fínt ef hann benti á hverjar lygarnar væru. Hann gerir engar efnislegar athugasemdir við fréttina. Yfirlýsingar, sem eru uppfullar af upphrópunum og fúkyrðaflaumi, eru varla sæmandi manni í hans stöðu.

Ógn gossins.

Á þessari slóð   http://www.boston.com/bigpicture/2010/04/more_from_eyjafjallajokull.html      má sjá hreint ótrúlegar myndir af því þegar verst lét í toppgíg Eyjafjallajökuls.   Það er einnig athyglisvert að lesa ummæli við þessar myndir.  Fólk af ýmsu erlendu bergi brotið á vart lýsingarorð til að lýsa þessu sjónarspili.       Einnig er djúp samúð með fólkinu og skepnunum sem í þessu lenda.  Samúð sem íslenskir ráðamenn hafa ekki enn komið á framfæri opinberlega þó ótrúlegt sé.  Ég veit að fyrrgreindir ráðamenn vilja vel. Ekkert er uppá það neyðartryggingarkerfi sem við höfum  að klaga.

En mér finnst enn illskiljanlegt að hæstráðendur  þessa lands skyldu ekki opinberlega senda fólkinu baráttukveðjur, strax og ósköpin dundu yfir.

Sumir í fjölmennu "kommenta" kerfinu með þessum myndum, virðast halda að megnið af íslensku þjóðinni glími við öskufallið og afleiðingar þess.  Það hlýtur að vera nauðsynlegt að leiðrétta þann misskilning fljótt ef ferðamennskan á áfram að trekkja og stækka líkt og síðustu ár.

Hinu má svo alveg halda til haga hversu heppin við í nágrenni eldstöðvanna vorum að vindar blésu í þessar áttir.  Reyndar var öskufallið enn verra á þessari línu undir Eyjaföllum vegna þess hversu lygnt var. Aðeins gola sem feykt þessu rólega í suður og suðaustur.    Hefði þetta snúið öðruvísi gætu stór landsvæði verið að glíma við afleiðingarnar í dag.

En á þessum myndum sést ógnvænlegast "öskubakki" allra tíma.  Á ég þar við kolsvart öskuskýið sem náðist að mynda.  Ég segi eins og Guðni Ágústsson af öðru tilefni.  "Í heiminum og þó víðar væri leitað".


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband