23.4.2010 | 21:23
Hin lamandi hönd.
Ég átti fróðlegt spjall við mann úr atvinnulífinu fyrir stuttu. Atvinnurekanda með lítið fyrirtæki sem hann hefur byggt upp af dugnaði. Þessi maður hafði sýnar skoðanir á atvinnumálum,en var ekkert fastur í neinum kreddum eða hjólförum líkt og sumir. Horfði yfir sviðið af yfirvegun og raunsæi að mér fannst.
Við vorum sammála um seinheppni og hálfgerða lamandi hönd þessarar ríkisstjórnar í atvinnumálum. Ástæðan er að hluta sú að ráðherrar hafa varla kynnst atvinnuleysi á eigin skinni né í sinni fjölskyldu. Mestan part "stofnanafólk" úr opinbera geiranum þar sem atvinnan og tekjurnar malla stöðugt og áhyggjulaust inn. Ólífsreynt fólk.
Þessi maður setti fram einfalt reikningsdæmi. Hver einstaklingur sem fengi atvinnu þýddi viðsnúning fyrir ríkið uppá 5 milljónir króna. Hann gat þess einnig sem dæmi hvernig óljósar hugmyndir um fyrningu kvóta í sjávarútvegi lömuðu greinina og væru farnar að minnka umsvif í hans fyrirtæki. Viðhald fiskiskipa væri af þeim sökum dottið niður í algjört lágmark. Bara slíkt þýddi atvinnumissi fyrir fjölda fólks víða um land.
Kröftugt atvinnulíf og fjárfesting er drifkraftur góðra lífskjara og hagvaxtar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2010 | 11:05
Svona lítur viðbjóðurinn út.
Þessar myndir úr gervihnetti Nasa og teknar laugardaginn 17.apríl 2010.
Nú skil ég betur töluna 750 tonn gosefnis á sekúndu !
Síðan getur hver og einn snúið stróknum í höfuðáttir og mælt við sjálfan sig. Hér ræður vindáttin öllu og þeir eru heppnir sem sleppa. Ég sé ekki neinn landshluta sem getur talið sig á fríum sjó miðað við mökkinn. En auðvitað er þetta verst hjá þeim sem næst
gosstöðvum búa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2010 | 10:40
Vilja ráðamenn þjóðarinnar tjá sig?
Ekki myndi nú skaða neinn þó smá hughreystingar orð myndu heyrast frá ráðamönnum og konum landsins við þessar aðstæður.
Bara til að íbúar hamfarasvæða skynji að hugur landsmanna og fulltrúa þeirra sé hjá þeim við þessar ótrúlegu aðstæður og álag sem þessu fylgir.
Nei, þessi í stað er grátið með gamlar búksorgir á bakinu í fréttatímum. Jú, kannski þurfti þess, en íbúar höfuðborgarsvæðisins gætu nú alveg haft það í huga að þar gæti verið gríðarlegt öskufall stæðu vindar þannig. Hefði farið svo þessa helgi hefði syndagrátur ekki verið fréttaefni sjónvarpsstöðvanna heldur grátur af öðrum orsökum.Nefnilega ertandi ryks og ösku.
Við erum snortin af svörum Vigdísar Finnbogadóttur á áttræðisafmæli sínu. Fréttamaður spurði hana hvað væri henni efst í huga á þessum miklu tímamótum. Í stað þess að telja upp eigin afrek á ótrúlegri æfi (eins og flestir hefðu gert) var svarið stutt og skýrt. "Hugurinn er hjá bændunum sem þurfa að sinna dýrum sínum við þessar ótrúlegu aðstæður". Þetta svar segir meira en mörg orð um hana sjálfa og hvers vegna hún er elskuð af fólkinu.
![]() |
Fólk flýr öskufallið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2010 | 22:10
Erfiður jökull í öllu tilliti.
Ótrúlega fyndið.
Þetta er ekki einleikið hvernig þessi jökull leikur álfuna. (Og þulina)
![]() |
Framburðarglíman við Aye-ya-fyah-dla-jow-kudl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2010 | 13:41
Vorkenni Alþingi.
Hver fellur eiginlega á hvaða prófi spyr ég.
Mér sýnist þingmaðurinn Vigdís Hauksdóttir færa sannfærandi rök fyrir sínu máli og geri það á vel siðaðan hátt.
Hvers vegna forseti Alþingis viðhefur þau orð að málflutningur Vigdísar sé henni ekki til sóma er óskiljanlegt.
Það er ekki hægt annað en vorkenna Alþingismönnum að sitja uppi með þennan forseta og verkstjórnanda. Í raun grátlegt að ekki tókst betur til þar á umbrotatímum. Forsetar Alþingis hafa síðustu áratugi verið blessunarlega lausir við smásálar kíting og umvandanir við einstaka þingmenn. Einnig endurspeglar málflutningur Vigdísar það sem m.a. Samfylkingin hélt sjálf fram í stjórnarandstöðu. Semsagt það að öll viðameiri lagafrumvörp kæmu niðursoðin og tilbúin beint úr ráðuneytum.
![]() |
Sagði þingmann hafa fallið á prófi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2010 | 16:10
Sláum skjaldborg um heiðvirða fréttamenn.
Fjölmiðlamenn eru misjafnir líkt og fólk er flest. Fjölmiðlar eru einnig misvandir að virðingu sinn og það er ekkert öðruvísi hérlendis en annarsstaðar. Þar standa spjót á þeim sem stjórna og ritstýra.
Ég met fjölmiðla eftir virðingu sinni og ferli. Hljómar kannski háfleygt, en ég hlýt að meiga má útbúa mína eigin gæðaröð í því sem öðru.
Þá met ég hverjir eru trúverðugir, trúanlegir og ábyrgir í fréttaflutningi. Hver ferill manna og kvenna er í því.
Ég hef ástæðu til að treysta fréttamönnum ríkisútvarpsins. Ferill þeirra segir mér það. Alveg er mér slétt sama hvað Pálma í Fons (og fleiri pappírsspunafyrirtækjum) finnst um einstaka menn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2010 | 10:53
Fækkun ríkisstofnana.
Jóhanna boðar mikla fækkun ríkisstofnana.
Það væri í mínum augum gott og blessað ef um væri að ræða kostnaðarlegt málefni og niðurskurð á ríkisútgjöldum sem við nöturlega stöndum frammi fyrir. En það getur ekki verið ástæðan. Þau boð hafa jafnframt verið látin út ganga að um uppsagnir starfsfólks verði ekki að ræða.
Staðreyndin er sú að útgjöld þessara þjónustustofnana eru 70% launakostnaður. Restin er síðan kostnaður við að halda uppi starfsemi. Sá kostnaður hlýtur að verða til áfram að mestu ,jafnvel þó sameining verði við aðrar stofnanir. Þess vegna skil ég ekki alveg heildardæmið.
Vel má eflaust taka til, þarna sem víðar. En einn af höfuðkostum þess að búa á Íslandi hefur til þessa verið talið auðvelt aðgengi að stjórnsýslu og þjónustustofnunum ríkisins. Ég hef heyrt erlenda íbúa og nýbúa hrósa þessu og einnig Sendiherrum sem hér hafa starfað. Miðað við það sem gengur og gerist víða erlendis. Þetta aðgengi mun flækjast og stirðna ef myndu verða "bákn" og stærri stofnanir miðað við íslenska höfðatölu.
Að öllu samanlögðu er hér án efa aðlögun að "Brusselvaldinu". Ríkið er einfaldlega að herða sín ráðandi tök.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2010 | 14:36
Að breyta lífi fólks.
Sannarlega maður sem breytti lífsaðferðum fólks og fyrirtækja. Eins og oft er um slíka menn, gerði hann sér það eflaust ekki fullkomlega ljóst sjálfur í upphafi hvað var að gerast.
Síðan urðu áfangar áfram á leiðinni þegar "apparatið" var orðið til. Forritin. Alnetið. Tölvupósturinn. Ótrúlegar breytingar á ekki löngum tíma.
![]() |
Faðir einkatölvunnar látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2010 | 13:37
Ótrúlegar myndir.
Aldrei í mannkynssögunni hefur verið tekið meira af myndum.
Ætli hafi nokkurn tímann verið myndað meira eldgos á Íslandi? Allir eru með myndavélar í dag og enginn þarf að spara filmuna lengur.
Þessi mynd finnst mér ótrúlega flott. Hún birtist í breska vef Guardian nú á skírdag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.3.2010 | 21:44
Yfir farinn veg.
Þessi grein birtist í Sunnlenska Fréttablaðin nú fyrir páskana.;
Að búa í Flóahreppi.
Með samstöðu íbúanna og vilja sveitarstjórna hefur vel gengið að sameina þrjá hreppa í einn sem heitir Flóahreppur. Þar skipti máli að byrjað var á réttum endum. Skólar voru sameinaðir í einn miðlægan Flóaskóla fyrir sameiningu. Skólamálin sem stundum verða snúin, voru því að baki þegar byrjað var að móta nýtt sveitarfélag fyrir fjórum árum. Einnig hjálpaði að hér voru líkir dreifbýlishreppar með sömu hagsmuni. Á sömu stöðum með samstarf og ekkert sveitarfélagið mjög skuldsett. Eini gallinn sem ég sé í dag, sem þó hefur ekki háð sameiningu, er að mínum dómi hve gömlu hrepparnir Gaulverjabæjar,Hraungerðis og Villingaholts eru félagslega aðgreindir. Það tekur tíma að breyta því og þýðir ekkert að gera með gassagangi. Verkefnin hafa því verið ærin síðasta kjörtímabil við að staðbinda í nýja einingu þau fjölbreyttu stjórnsýsluverkefni og skyldur sem einu sveitarfélagi ber að sinna lögum samkvæmt. Allir sjö fulltrúar af tveimur listum hafa á kjörtímabilinu unnið samstætt og saman að fjölbreyttum verkefnum með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi. Verið blessunarlega laus við karp og þann gagnslausa meting sem stundum fylgir tíkinni kenndri við póli. Af verkefnum má nefna skipan skólamála til framtíðar. Þar var niðurstaðan að taka unglingastigið inn í skólann frá 8.bekk. Er nú í framhaldi af því unnið að stækkun skólahúsnæðis Flóaskóla. Frumkvæði á landsvísu með Stykkishólmsbæ um fulla flokkun sorps. Flokkun sem fullnægir framtíðarmarkmiðum margra margra Evrópulanda, en er óviða komið til framkvæmda. Næst þar nú þegar spörun á rándýrum urðunarskostnaði. Hefur þátttaka íbúa verið framar öllum vonum.Skipulags og byggingarmál í samstarfi með öðrum dreifbýlissveitarfélögum í Árnessýslu og fagfólki. Ekkert er óumdeilt, en í heild hefur samtarfið gengið vel. Bæði sem faglegur bakhjarl og einnig kostnaðarlega að mestu. Einnig eru félags og velferðarmál í nefndum og samstarfi með uppsveitum. Fjárhagsstaða Flóahrepps er sterk. Eins og fyrr greinir var skuldastaða hreppanna fyrir sameiningu svipuð. Handbært fé Gaulverjabæjarhrepps var þó mest, sem náðst hefur að ávaxta án þess að tapa nokkru í bankahruninu. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins síðasta árs var jákvæð um 32.5 milljónir króna. Handbært fé í árslok var rúmar 170 milljónir. Fjármunatekjur voru umfram fjármagnsgjöld, sem er afar fágæt staða hjá sveitarfélagi í dag. Mest hefur þó verið í umræðunni aðalskipulag fyrrum Villingaholtshrepps síðasta kjörtímabil. Það skipulag, eftir gífurlega vinnu, er nú sagnfræði eftir synjun umhverfisráðherrra. Sveitarfélagið getur hinsvegar ekki verið án fulls aðalskipulags og er nýtt ferli í gangi frá núllreit. Á skipulagsferlinu hafa hafa andstæðingar Urriðafossvirkjunar getað komið sínum sjónarmiðum á framfæri með ýmsu móti og náð árangri. Til dæmis hafa lónstæði verið minnkuð og lækkuð um gríðarlegt vatnsmagn. Sem þýðir að Þjórsá í Flóahreppi verður nánast eingöngu í farvegi sínum. Þó hækkar aðeins uppistaða ofan við Þjótanda og Þjórsártún. Af skiljanlegum ástæðum því stórvirkjun er ekki hagkvæm nema násist fall og hraði á vatni. Mannvirki eru öll neðanjarðar . Mulið efni úr jarðgöngum nægir til efnisnotkunar. Einnig náðust samningar um að dýrmætt efnið verði nýtt til vegagerðar gjörónýtra vegkafla í sveitarfélaginu sem annars yrði haugssett eða jafnað út engum til gagns. Samið var einnig við Landsvirkjun um mótvægisaðgerðir vegna vatnsmála og óvissu um vatnsból sveitarfélagsins. Það var sérkennilegt að lesa í einni blaðagrein af mörgum beinlínis gagnrýni á þessa samninga yfirleitt og gjörðir sveitarstjórnar. Síðar í sömu grein vonbrigði með hve lítið fé fékkst frá Landsvirkjun vegna fórna! Hvernig á að taka mark á svona málflutningi? Það sitja í mér ummæli eins bónda sem hefur upplifað færslu bæjarstæðis á Þjórsárbökkum og þekkt sögu þess gegnum aldirnar.. Eingöngu sökum landbrots bakkanna og vegna ágangs íss og íshranna Þjórsár. Þær íshrannir munu verða úr sögunni með virkjun svo dæmi sé tekið og einnig aurfok eftir ís. Þessi maður spurði hvers vegna ætti ég að vera á móti þessu? Ég set þessa upprifjun hér til fróðleiks. Ég geri ekki lítið úr gagnrýni á framkvæmdina. En áróður hefur vægast sagt verið einhliða. Og ástæða þess að sveitarstjórnarmenn hafa ekki og geta ekki varið sig er sú að þeir sem taka lokaákvarðanir gera sjálfa sig vanhæfa með því. Ráðuneyti hefur hinsvegar úrskurðað að sveitarfélagið var í fullum rétti að gera þennan samning um mótvægisaðgerðir. Ég hef setið í Hreppsnefnd Gaulverjabæjarhrepps og síðar Flóahrepps í 20 ár. Það hefur verið lærdómsríkt starf í góðu samfélagi. Vegna ágæts samstarfs og lítils málefnaágreinings hafa fulltrúar og frambjóðendur á E og Þ listum ákveðið að bjóða fram sameiginlegan lista í sveitarstjórnarkosningunum nú í lok maí. Ég hyggst ekki gefa kost á mér til framboðs næsta kjörtímabil. Óska ég sveitarstjórnarmönnum í Flóahreppi velfarnaðar í störfum sínum.
Valdimar GuðjónssonGaulverjabæ.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)