1.4.2010 | 13:37
Ótrúlegar myndir.
Aldrei í mannkynssögunni hefur verið tekið meira af myndum.
Ætli hafi nokkurn tímann verið myndað meira eldgos á Íslandi? Allir eru með myndavélar í dag og enginn þarf að spara filmuna lengur.
Þessi mynd finnst mér ótrúlega flott. Hún birtist í breska vef Guardian nú á skírdag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.3.2010 | 21:44
Yfir farinn veg.
Þessi grein birtist í Sunnlenska Fréttablaðin nú fyrir páskana.;
Að búa í Flóahreppi.
Með samstöðu íbúanna og vilja sveitarstjórna hefur vel gengið að sameina þrjá hreppa í einn sem heitir Flóahreppur. Þar skipti máli að byrjað var á réttum endum. Skólar voru sameinaðir í einn miðlægan Flóaskóla fyrir sameiningu. Skólamálin sem stundum verða snúin, voru því að baki þegar byrjað var að móta nýtt sveitarfélag fyrir fjórum árum. Einnig hjálpaði að hér voru líkir dreifbýlishreppar með sömu hagsmuni. Á sömu stöðum með samstarf og ekkert sveitarfélagið mjög skuldsett. Eini gallinn sem ég sé í dag, sem þó hefur ekki háð sameiningu, er að mínum dómi hve gömlu hrepparnir Gaulverjabæjar,Hraungerðis og Villingaholts eru félagslega aðgreindir. Það tekur tíma að breyta því og þýðir ekkert að gera með gassagangi. Verkefnin hafa því verið ærin síðasta kjörtímabil við að staðbinda í nýja einingu þau fjölbreyttu stjórnsýsluverkefni og skyldur sem einu sveitarfélagi ber að sinna lögum samkvæmt. Allir sjö fulltrúar af tveimur listum hafa á kjörtímabilinu unnið samstætt og saman að fjölbreyttum verkefnum með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi. Verið blessunarlega laus við karp og þann gagnslausa meting sem stundum fylgir tíkinni kenndri við póli. Af verkefnum má nefna skipan skólamála til framtíðar. Þar var niðurstaðan að taka unglingastigið inn í skólann frá 8.bekk. Er nú í framhaldi af því unnið að stækkun skólahúsnæðis Flóaskóla. Frumkvæði á landsvísu með Stykkishólmsbæ um fulla flokkun sorps. Flokkun sem fullnægir framtíðarmarkmiðum margra margra Evrópulanda, en er óviða komið til framkvæmda. Næst þar nú þegar spörun á rándýrum urðunarskostnaði. Hefur þátttaka íbúa verið framar öllum vonum.Skipulags og byggingarmál í samstarfi með öðrum dreifbýlissveitarfélögum í Árnessýslu og fagfólki. Ekkert er óumdeilt, en í heild hefur samtarfið gengið vel. Bæði sem faglegur bakhjarl og einnig kostnaðarlega að mestu. Einnig eru félags og velferðarmál í nefndum og samstarfi með uppsveitum. Fjárhagsstaða Flóahrepps er sterk. Eins og fyrr greinir var skuldastaða hreppanna fyrir sameiningu svipuð. Handbært fé Gaulverjabæjarhrepps var þó mest, sem náðst hefur að ávaxta án þess að tapa nokkru í bankahruninu. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins síðasta árs var jákvæð um 32.5 milljónir króna. Handbært fé í árslok var rúmar 170 milljónir. Fjármunatekjur voru umfram fjármagnsgjöld, sem er afar fágæt staða hjá sveitarfélagi í dag. Mest hefur þó verið í umræðunni aðalskipulag fyrrum Villingaholtshrepps síðasta kjörtímabil. Það skipulag, eftir gífurlega vinnu, er nú sagnfræði eftir synjun umhverfisráðherrra. Sveitarfélagið getur hinsvegar ekki verið án fulls aðalskipulags og er nýtt ferli í gangi frá núllreit. Á skipulagsferlinu hafa hafa andstæðingar Urriðafossvirkjunar getað komið sínum sjónarmiðum á framfæri með ýmsu móti og náð árangri. Til dæmis hafa lónstæði verið minnkuð og lækkuð um gríðarlegt vatnsmagn. Sem þýðir að Þjórsá í Flóahreppi verður nánast eingöngu í farvegi sínum. Þó hækkar aðeins uppistaða ofan við Þjótanda og Þjórsártún. Af skiljanlegum ástæðum því stórvirkjun er ekki hagkvæm nema násist fall og hraði á vatni. Mannvirki eru öll neðanjarðar . Mulið efni úr jarðgöngum nægir til efnisnotkunar. Einnig náðust samningar um að dýrmætt efnið verði nýtt til vegagerðar gjörónýtra vegkafla í sveitarfélaginu sem annars yrði haugssett eða jafnað út engum til gagns. Samið var einnig við Landsvirkjun um mótvægisaðgerðir vegna vatnsmála og óvissu um vatnsból sveitarfélagsins. Það var sérkennilegt að lesa í einni blaðagrein af mörgum beinlínis gagnrýni á þessa samninga yfirleitt og gjörðir sveitarstjórnar. Síðar í sömu grein vonbrigði með hve lítið fé fékkst frá Landsvirkjun vegna fórna! Hvernig á að taka mark á svona málflutningi? Það sitja í mér ummæli eins bónda sem hefur upplifað færslu bæjarstæðis á Þjórsárbökkum og þekkt sögu þess gegnum aldirnar.. Eingöngu sökum landbrots bakkanna og vegna ágangs íss og íshranna Þjórsár. Þær íshrannir munu verða úr sögunni með virkjun svo dæmi sé tekið og einnig aurfok eftir ís. Þessi maður spurði “hvers vegna ætti ég að vera á móti þessu?” Ég set þessa upprifjun hér til fróðleiks. Ég geri ekki lítið úr gagnrýni á framkvæmdina. En áróður hefur vægast sagt verið einhliða. Og ástæða þess að sveitarstjórnarmenn hafa ekki og geta ekki varið sig er sú að þeir sem taka lokaákvarðanir gera sjálfa sig vanhæfa með því. Ráðuneyti hefur hinsvegar úrskurðað að sveitarfélagið var í fullum rétti að gera þennan samning um mótvægisaðgerðir. Ég hef setið í Hreppsnefnd Gaulverjabæjarhrepps og síðar Flóahrepps í 20 ár. Það hefur verið lærdómsríkt starf í góðu samfélagi. Vegna ágæts samstarfs og lítils málefnaágreinings hafa fulltrúar og frambjóðendur á E og Þ listum ákveðið að bjóða fram sameiginlegan lista í sveitarstjórnarkosningunum nú í lok maí. Ég hyggst ekki gefa kost á mér til framboðs næsta kjörtímabil. Óska ég sveitarstjórnarmönnum í Flóahreppi velfarnaðar í störfum sínum.
Valdimar GuðjónssonGaulverjabæ.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2010 | 11:59
Viðurkenningu til framsýns fólks.
Mér detta í hug þrjú nöfn á framsýnu fólki. Þetta ágæta fólk gat ráðið í bullið meðan hrunadans góðærisins var í algleymi. Það gerðu að vísu margir fleiri, en þetta ágæta fólk kom sínum sjónarmiðum á skýrt á framfæri við almenning í fjölmiðlum.
Vilhjálmur Bjarnason, Jónína Benediktsdóttir og Ragnar Önundarson. Allt ólíkar persónur á alla lund. Eiga það samt sameiginlegt að vara við. Áður en allt fór til fj... Á þau var bara lítið hlustað. Þið öll sem alltaf eruð að verðlauna nánast alla daga einhversstaðar fyrir vægast sagt mismerkilega hluti. Veitið þessu fólki viðurkenningu af einhverju tagi.
Það á að heiðra þetta fólk. Nóg er til af eftirávitringum sem hafa slegið sér upp síðasta eitt og hálfa árið. Sumt í málflutningi að vísu vel brúklegt til framtíðar. En margt af þessu fólki hefur snúist líkt og vindhanar eftir að vindurinn og landslagið breyttist. Mun fleiri en forseti vor gengust bullinu á hönd og trúðu fagurgala lánsóðra græðgifíkla.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2010 | 21:30
Hrunafell.
Ætli þetta verði ekki meira fell heldur en fjall, en þó veit enginn enn. Hugleiddi fyrst nafnið Kreppufell. En nafngiftin Kreppufell væril líklega hálfgerð móðgun við fátæka forfeður okkar. En þá kæmi "Hrunafell" líka til greina og vísar líka í örnefni í kring.
Ég gekk Fimmvörðuhálsinn fyrir nokkrum árum. Ekki hugleiddi maður þá frekar en aðrir eldgos nákvæmlega á þessum stað. Enda þúsundir ára síðan þarna gaus síðast. Það leiðir hugann að líkindareikningi fyrir eldgosum hérlendis.
Það eru miklu meiri líkur á eldgosi á Hellisheiði og norðvestur af henni heldur en uppi á Fimmvörðuhálsi. Samt er á fyrrnefndum stað fjölfarin þjóðleið. Þar rísa líka rándýr virkjanamannvirki hvert af öðru. Það fyrsta Hellisheiðarvirkjun staðsett í hraunjaðrinum sem rann fram fyrir örstuttu síðan, jarðfræðilega séð (f.1000 árum). Á höfuðborgarsvæðinu eru líka reist íbúðarhverfi á nýlegu hrauni. Svosem í Hafnarfirði og víðar.
Þegar kristni var lögtekin á Þingvöllum árið 1000 þurftu þeir sem riðu til þings að vestan að leggja krók á leið sína. Jú, ástæðan var eldsumbrot og læti. Svínahraunið mjatlaðist fram í austurátt. "Hverju reiddust goðin" og svo framvegis.
Með fyrrnefndum líkindareikningi má slá fram að það er mun minni áhætta að reisa mannvirki í Vestmannaeyjum heldur en uppi á Hellisheiði. Þrátt fyrir að stutt sé síðan að gaus í Eyjum. Það líður bara miklu lengra á milli eldgosa á Heimaey.
Hin hliðin er sú að við búum á Íslandi. Og getum átt von á hverju sem er. En hvers vegna sum stór mannvirki vorum (og eru) talin á hættulegum stað, vegna einhvers sem gerðist fyrir tugþúsundum ára, fæ ég ekki skilið.
![]() |
Óbreytt staða í gosinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 25.3.2010 kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2010 | 15:05
Eftir þjóðaratkvæði.
Aldrei hefur íslenskum stjórnmálamönnum reynst mögulegt að greina stöðu sína raunsætt að loknum kosningum. Þetta á sérstaklega við þá sem standa höllum fæti frá borði.
Ekki á þetta síður við nú eftir fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu frá árinu 1944.
Ríkisstjórnin fékk hýðingu frá þjóðinni á beran afturendann svo að sveið. En allt kom fyrir ekki. Tækifærið með stóð alþjóðlegra fjölmiðlamanna tvístígandi hér var ekki nýtt. Þá meina ég að þjóðin gaf dýrmæt skilaboð með afstöðu sinni. Bæði til hinnar íslensku ríkisstjórnar og út í heim. Skilaboð sem mikill skilningur virðist vera fyrir um allan heim.
Stutt og laggott komment frá Jóhönnu um að þetta væri skýr krafa frá þjóðinni um sanngjarnari samning við Breta og Hollendinga hefði hjálpað.
Samt var með þóttasvip og nefið út til hliðar þessum kosningum gefið langt nef og þær hunsaðar af forystumönnum stjórnarflokkanna.
Ég var þrátt fyrir þetta allt nú að hlusta á Guðfríði Lilju halda því fram að samningsstaða okkar væri nú miklu betri. Hvers vegna skyldi það nú vera?
Á sama hátt mun nú, ef samningar takast á næstu dögum við Breta og Hollendinga, ríkisstjórnin þakka sér. Og eigna sér heiðurinn. Ég get á vissan hátt skilið stjórnarandstöðuna að vera hugsi yfir því. En hégómi stjórnarandstöðunnar má samt ekki verða slíkur, að sá leikur að slá pólitíska keilu þann daginn, hamli lausn þessa vandræðamáls.
Á vissan hátt er vandamálið að búa við stjórnvöld sem geta ekki hugsað um nema eitt í einu. Fjármagnið flæðir útúr bönkunum segir fjármálaráðherrann sjálfur. Og það þrátt fyrir Icesave. Nú ríður á að koma þessu fjármagni í umferð til nytsamlegra verka. Lífga við doðaeinkennin í fjárfestingu. Lækka vexti hratt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2010 | 21:00
VG.Hvar eigum við að vera?
Íslenskur almenningur og kjósendur eru í erfiðri stöðu. Í ljósi nærliggjandi fortíðar meta margir enn við Vinstri - Græna hvernig þeir stóðu í lappirnar síðustu ár hins meinta góðæris. Hvernig þeir allan tímann fyrir hrun átöldu græðgina, aðferðir við einkavæðingu og fleira. Fyrst og fremst af þeim sökum áttu þeir í síðustu kosningum ( og eiga enn ) fylgi útfyrir hóp genetískra sósíalista og síöfgatrúarbragða í umhverfismálum. Sem er hinn harði kjarni og lífssýn sem allt byggist á. Að líkindum er þetta fastafylgi á bilinu sex til tólf prósent við allar eðlilegar aðstæður.
En hér hafa ekki ríkt eðlilegar aðstæður síðustu ár. Allir hljóta að viðurkenna hagstjórnarmistök ríkisstjórna síðustu 10 árin. En ekki síður sofandahátt þeirra sem vinna þess eið að setja landinu lög og regluverk. Þar gátu þau staðið sig betur sem við Austurvöllinn sitja sem og sofandi eftirlitsstofnanir.
Af þessum ástæðum náði vg þessu fylgi.
Nú renna aftur á móti tvær grímur á suma. Haldið er hressilega aftur af hverju tækifærinu á fætur öðru. Tækifærum til atvinnuuppbyggingar og orkunýtingar. Og það er ekki bara verið að tala um ál.
Ég bara skil ekki í hvaða landi þetta fólk lifir. Dettur helst i hug Eve Online eða öðrum heillandi sýndarveruleik.
Eða er þetta meðvituð aðlögun að ESB? Lýðurinn skal vaninn við 10 til 12% atvinnuleysi standard. Sem er mjög algengt hlutfall víða á meginalandinu og hærri tölur sjást einnig.
Þrátt fyrir góð tækifæri sem gengisstaðan veitir, grósku í hönnun og nýsköpun þá er það bara ekki nóg. Vel að merkja ef við viljum veita börnum okkar tækifæri í nánustu framtíð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2010 | 21:46
Já, en...honum þótti hin góð líka.
Ég skil ekki hvers vegna RUV talar áfram við sömu álitsgjafana. Eru þeir á föstum mánaðarlaunum hjá ríkisútvarpinu?
Þórólfur er einn af þeim sem hafa algjörlega málað sig út í horn í þessum málflutningi. Honum þóttu hin tilboð Breta og Hollendinga vel aðgengileg líka.
Nú hefur vegna andmæla almennings, stjórnarandstöðu og gjörða Bessastaðaíbúans;,Icesave peninga hrollvekjan batnað fyrir okkur skattþegna svo nemur tugum milljarða samkvæmt nýjustu fréttum. Samt er þetta sami maður og blessaði fyrri gjörðir samninganefndarinnar. Hann taldi okkur ráða létt við þessar risafúlgur. Hann er fenginn til að meta áfram hlutina.Vegna fyrri skoðana er hann óhæfur. En vel að merkja er auðvitað ósamið enn.
Hvers vegna eru íslenskir fjölmiðlar svona ótrúlega hólfaðir og þröngsýnir? Vaxandi útvarpsstöð sem ég hlusta stundum á og hélt að væri ofboðslega frjáls, er jafnvel svona líka. Útvarp Saga er alltaf með sama fólkið og álitsgjafana sem hamra á sömu klisjunum. Og sömu fimm hlustendur hringja inn og þylja sömu skoðanirnar.
Endalaus viðtöl við Þórólf Matthíasson eru sama marki brennd.
Samt er til fullt af menntuðu og jafnvel víðsýnu fólki með margvíslegar skoðanir enn búandi hér.
![]() |
Þórólfur ekki ósáttur við Icesave-tilboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.2.2010 | 14:00
Veik verkalýðshreyfing.
Ég heyrði orðið verkalýðsrekendur fyrir stuttu. Kannski er það lýsandi fyrir stöðu forkólfa verkalýðsins í dag.
Virka ekki á mann sem hið beitta afl til að snúa við stöðunni í þjóðfélaginu. Eða leiðandi verjandi afl hins venjulega launamanns sem rúinn er jafnvel tekjum, atvinnu og eignum vegna gjörða fáeinna gróðapunga.
Verkalýðshreyfingin á við þessar aðstæður, ef allt virkaði rétt. að vera beinn málsvari hins vinnandi manns. Svo er ekki og sem dæmi uppskar forseti ASÍ pú hljóð almúgans við 1. maí ávarp sitt árið 2009. Það segir ýmislegt.
Hitt er hinsvegar mikilvægt að samstarf sé um að halda niðri verðbólgu með öllum ráðum. En eins og útlitið er í kortunum verður sú bólga vart vandamál þegar doði og deyfð einkennir þá sem halda um stjórnartauma og berja niður hugmyndir um nýfjárfestingu eða nýtingu innlendra auðlinda.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2010 | 17:01
Hársbreidd frá útrás.
Þessi grein birtist í Sunnlenska fréttablaðinu stuttu fyrir síðustu jól.
Þá hafði verið greint frá því í blaðinu að fyrrum forstjóri MS hafði mikinn hug á því 2007 að félagið færi útí fjárfestingar allskyns. Einungis til að ávaxta enn betur sjóði félagsins sem þá voru til. Varla hefði nú þurft að spyrja að leikslokum hefði fyrirtæki sem þetta "spilað með".
Þetta er svona dæmi um að hvergi nokkursstaðar var nokkurt fyrirtæki eða sjóður óhultur með sitt. Dæmin þekkjum við í dag alltof mörg um mergsog innanfrá í allskyns bull og pappírsvafninga.
Að höndla mjólkuriðnað 2007.
Ekki hefði ég neitt á móti því að Björn vinur minn Harðarson stórbóndi í Holti yrði sleginn til riddara. Þó þykir mér það fullmikil einföldun á síðari tíma sögu að hann einn hafi bjargað MS frá því að fara í útrás. Slíkt mátti lesa í fyrirsögn Sunnlenska hinn 10. desember sl. Haustfundur fulltrúaráðs árið 2007 var haldinn í fjármálaborginni miklu Reykjavík sem þá var. Erindi Guðbrandar Sigurðssonar þáverandi forstjóra bar sterkan keim af þeim tíðaranda sem þá ríkti. Látið var að því liggja að stóru tölurnar væru ekki lengur í veltu og eignareikningum mjólkuriðnaðarins. Vel að merkja miðað við þær ógnartölur sem sæjust á “markaðnum”.Bændur eru flestir jarðbundið fólk. Það liggur í eðli starfsins. Við vorum því nokkrir slíkir bændur sem lýstum strax andstöðu okkar við gælur Guðbrandar við fjármálamarkaðinn. Ég lýsti þeirri skoðun minni að kannski væri gróðavon mikil en MS hefði engan rétt til að “gambla”, taka áhættur með eigið fé fyrirtækis í eigu fjölda bænda. Fleiri tóku undir þetta og ég veit ekki hvort að neinn snéri neinum. Stjórnarmenn fengu hinsvegar baklandið alveg morgunljóst.
Í raun átti þetta sér lengri aðdraganda. Rúmu ári áður ákvað stjórn og forstjóri uppá sitt eindæmi að kaupa hlut í Fóðurblöndunni. Rökin þau að þessar ákvarðanir yrði að taka hratt á markaðnum. Hljómaði mjög kunnuglega þá, þegar margir lifðu hratt með afleiðingum sem allir þekkja. Þarna var fetað nýja slóð og mættu þessi kaup mikilli andstöðu í fulltrúaráðinu og virtist það koma sumum stjórnarmönnum í opna skjöldu. Óumdeilt er að styrkur gamla MBF fólgst í skýrri sýn og að ekki var grautast í alls óskyldum rekstri í stórum stíl. Það freistaði því ekki margra að takan annan kúrs þó í sameinuðu fyrirtæki væri. Einn fulltrúi orðaði það þannig að hann vildi ekki stofna nýtt kaupfélag. Forstjórinn hafði samt náð að selja öllum stjórnarmönnum nema einum þessa hugmynd.
Þessu ágæta fyrirtæki var forðað frá stórfelldum fjárfestinga loftfimleikum. Auðhumla og dótturfyrirtækið MS hefur því miður samt tapað fullt af peningum síðustu ár. Ástæðan er að hluta viðleitni og fórnarkostnaður við að halda niðri vöruverði á mjólkurvörum til neytenda. Árangurinn eru nú verð sem standast allan samjöfnuð við nágrannalöndin og gott betur. Einnig sem hlutfall af matarútgjöldum heimilanna. Því er lítt flíkað, enda hentar slíkt eflaust ekki í áróðursstríðinu sem framundan er gagnvart inngöngu í báknið mikla, ESB.
Valdimar Guðjónsson,kúabóndi Gaulverjabæ.
Dægurmál | Breytt 7.2.2010 kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2010 | 12:49
Yfirklór Svandísar.
Synjun Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra á staðfestingu aðalskipulags hluta Flóahrepps er furðuleg. Rökin eru algjörlega óskiljanleg og stangast á við hefð og jafnræði sveitarfélaga í landinu.
Við nánari skoðun virðast þessi afstaða ráðherra aðallega byggjast á bréfasambandi við einn aðila en þau bréfasamskipti fara fram löngu eftir að frestur til athugasemda vegna þessa máls rann út.
Við í sveitarstjórn Flóahrepps höfum unnið faglega að allri þessari skipulagsvinnu og í samkvæmt þeim lögum sem gilda. Með þessi mannvirki inni, fylgir mikil aukavinna og kostnaður sem af sjálfu leiðir. 'I engu var farið öðruvísi að Landsvirkjun gagnvart skipulagskostnaði en einstaklingum og öðrum fyrirtækjum. Af einskærri "hlýðni" greiddi sveitarfélagið samt framkvæmdaðila kostnaðargreiðslu til baka, svo að allt yrði hafið yfir vafa. En það dugði ekki til.
Andstaða flokks Svandísar Vinstri-grænna við að virkja og beisla innlenda orku er ljós og dylst engum.Allt í lagi með það.
Hér er hinsvegar ekki um að ræða fyrstu vatnsaflsvirkjun í dreyfbýli á Íslandi undir þessum skipulagslögum.Það yfirklór sem Umhverfisráðherra notar hinsvegar og týnir til sem röksemd fyrir synjun þessa aðalskipulags er fráleitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)