15.5.2024 | 22:41
Í stuði með Allah.
Það er sumarnótt árið 1978.
Sigöldu virkjun á lokametrunum og stefnan hjá Landsvirkjun næst sett á nýja virkjun við Hrauneyjafoss. Stór verkstæðisbraggi þjónar ekki lengur hlutverki sínu og best að hann sé staðsettur sem næst risa vinnuvélum á fullu gasi. Jarðýtum, búkollum, gröfum,borum og fleiri tækjum.
Ákveðið var að flytja hann í heilu lagi inn í Hrauneyjar. Eflaust hafa reiknimeistarar Landsvirkjunar reiknað hagkvæmni þess nálægt lagi, en það var meira en að segja það. Enginn flutningavagn hjá GG (voru þá nær einráðir í stórum flutningum) reyndist ná máli í lengd. Var þá gripið til þess ráðs að lengja einn vagn með rafsuðu og stálbita að vopni.
Með allra stærstu flutningum að umfangi á þessum tíma, en að sjálfsögðu var vigtin ekkert mikil.
Loks var lengingu vagnsins og stífingum í botni braggans lokið. Góður stubbur (næturvinna) framundan hjá vinnuflokknum og um kvöldið var langur og breiður bragginn hífður á vagninn með tveimur krönum. All svagur til hliðanna því vagninn var einungis í venjulegri breidd, en treyst á gott jafnvægi og veghefilsstjórinn látinn vanda sig að hefla þvottabrettin á malarvegi sem var um 6 km leið.
Allt var klárt. Búið að festa eins og hægt var. Álags horn hreinlega rafsoðin föst við vagninn, ef ég man rétt.
Var látinn halda í einhverja spotta ásamt fleirum við upphífingu, en að því loknu bauð bílstjórinn mér að sitja í . Hann var þaulvanur reynslubolti sem hafði ýmsa fjöruna sopið. Hress og ræðinn. Allt gekk að óskum og samviskusamlega keyrði hann á miðjum vegi, enda ekki annað í boði uppá plássið.
Útvarpið í bílnum var í gangi. Að vísu ekki ríkisútvarpið, það var sofnað þann daginn en vel mátti ná Radio Luxemburg eða BBC á langbylgju.
Allt í einu snarhækkaði í útvarpinu. Við tóku tónar frá framandi slóðum sem nálgaðist ærandi hávaða. Ættað frá Arabíu og löngu síðar heyrði ég samskonar tóna í sjónvarpinu og áttaði mig, þetta voru semsagt tilbeiðslur úr bænaturnum.
Bílstjórinn kveikti um leið á perunni. Snarstöðvaði bílinn og skipaði mér ekki að snerta neitt. Alls ekki járnmælaborðið í Scania og hafa fæturna á mottunni ! Sjálfur stóð hann kúplingunni og bremsunni. Tók ekki einu sinni áhættuna að snerta gírstöngina og taka úr gír.
Nokkru áður hafði Landsvirkjun fest kaup á dælupramma sem fékk nafnið Trölli. Hann dældi eðju uppúr lónum og var upphaflega knúinn 300 ha dísilvél. Vegna hækkandi olíuverðs og gnægðar af orku á þessum slóðum var aflinu breytt í stóran rafmótor. Lögð var lína frá Sigöldu sem á var um 1 megavatt hvorki meira né minna. Af henni fékk Trölli sitt afl í kapli og kunnugur á staðnum fullyrti að slíkt væri einsdæmi í heiminum á þessum tíma þe fyrir tæpum 50 árum.
Við vorum ískyggilega nærri þessari línu líkt og vitað var og menn höfðu mælt samviskusamlega. Grunur okkar var staðfestur þegar einn úr flokknum slengdi hendi sinni nálægt stuðara trukksins og nánast flaug í burtu. Enginn meiddist við þessa uppákomu og þessvegna segir ég nú frá þessu ævintýri.
Á gafli braggans voru rörastífur sem stóðu út fyrir breiddina til hliðanna ætlaðar fyrir rennihurð. Gleymst hafði að gera ráð fyrir þeim, eða kippa þeim af.
Þetta olli því að við vorum komnir í rafmagns geislann. Ekki í beina snertingu, því þá er ekkert víst að við værum til frásagnar.
Gummi Arnolds rafvirki í Búrfelli var því ræstur út með hraði og við biðum á meðan í bílnum. Algjörlega absurd tími með tvo í bílnum eins og myndastyttur nánast með Allah í eyrunum. Sem betur fer datt þó líka inn skemmtilegra útvarpsefni með góðri tónlist, enda loftnetið fádæma gott og nánast heimurinn undir. Margra kílómetra rafmagnslína og engar truflanir hvernig sem á því stóð.
Loks kom rafvirkinn og hafði slegið út línunni í Trölla. Skilaboðin frá honum voru nú einföld, en því miður allt eftirá séð. Hefðu bara verið dregnar fram snjókeðjurnar og látnar hanga aftur úr bílnum þá var jörðin komin og línan hefði slegið út sjálfkrafa.
En sjaldan verið í jafnmiklu stuði. Og í þetta skipti var það með þessum guði.
Athugasemdir
Takk fyrir söguna!
Ljómandi skemmtileg!
Skúli Jakobsson, 16.5.2024 kl. 15:42
Þakka þér innlitið Skúli.
kv. Valdimar
P.Valdimar Guðjónsson, 16.5.2024 kl. 21:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.