27.1.2009 | 11:53
Samfylkingin fór á taugum.
Göran Persson lagði áherslu á það í heimsókn sinni fyrir stuttu að leiðtogar ættu að tala út í kreppu. Ekki liggja á upplýsingum og áformum. Þar talaði maður með reynslu frá kreppunni í Svíþjóð fyrir rúmum áratug. Það þjónar engum hagsmunum lengur að liggja á upplýsingum eða áformum. Allavega þarf ekki að hræðast hrun hlutbréfa eða bankakerfis hér á Fróni. Slíkt er þegar orðið.
Fráfarandi ríkisstjórn féll á þessu prófi einnig því að skipta ekki um í brúnni. Um áramót þraut þolinmæði þorra almennings hvað það varðar.
Ég kaupi hins vegar alveg þá skýringu Geirs Haarde að til stóð að endurskipuleggja alla stjórn og skipulag Seðlabankans. Með því hefði að sjálfsögðu öllum stjórnendum verið sagt upp. Fjármálaeftirlitið lagt niður og það fært inní Seðlabankann.
Samfylkingin fór á taugum við skoðanakönnun fyrir nokkrum dögum. Á augabragði var stærð flokksins á pari við Framsókn. Eftir það og með háværum mótmælum almennings við Alþingishúsið var einungis leitað að tilefni til að slíta stjórasamstarfinu. Sem er í raun óskiljanlegt því búið var að boða kosningadag í vor.
Sú upplausn í fjármálum þjóðarinnar sem nú ríkir hefur virkjað marga og undir kraumar. Það er fínt. Vitund skáldanna blossar til dæmis líkt og fyrir 120 árum. Einnig almennra borgara sem hafa með nútíma tækni betri möguleika að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Allt tal um nýja stjórnarskrá og stjórnskipan var hinsvegar í einhverri pattstöðu síðustu árin vegna þess hve forsetinn er pólitískur sem nú situr á Bessastöðum. Hann sleit friðinn í fjölmiðlamálinu og allar nýjar hugmyndir síðan hafa verið álitnar sem bein árás á hann persónulega af sumum.
Nýtt lýðveldi og ný stjórnskipun ein og sér leysir hinsvegar ekki núverandi vandmál og skuldsetningu þjóðarinnar. Þarna þarf því að greina á milli. Hitt er framtíðarsinfónía.
Hér ríkir neyðarástand og því er fyrirkvíðanlegt að ekki komi allt framkvæmdavaldið að krísustjórn næstu mánuði að mínu mati.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.