Sjósókn, sorgir, hreystimenni og búðalífið.

 

Páll á Baugsstöðum minnist á um verstöðina á Loftsstöðum að sjóslys hefðu ekki verið mörg gegnum aldir. Miðar þá við mikla sókn á sjó. Mannfjölda og tölu skipa. Þau voru samt staðreynd líkt og allsstaðar kringum landið. Þau stærstu árið 1640 þá fórust 7 menn og aðrir sjö í sjóslysi 1810. Síðasta var 2. apríl 1908. Þá voru fimm skip á sjó, gott veður norðan kaldi og sólskin. Seinnipart fóru snögglega að koma stór ólög. Bátur Jóns Erlendssonar á Eystri – Loftsstöðum lendir í þremur slíkum á leið inn. Það síðasta hvolfir bátnum . Guðmundur í Tungu og hans menn nýlega komnir í land, sjá þetta allt. Samþykktu allir að halda strax út og freista björgunar. „Renndu skipinu á flot á augabragði“ (Páll á Baugsstöðum. Suðri 1970) Tókst við illan leik að bjarga meirihluta áhafnar, þar af tveimur á kili. Þrír létust. Þeir voru frá Galtastöðum, Skógsnesi og Háfi í Holtum. „Mátti nú ekki tæpara standa, að þeir kæmust inn fyrir skerjaklasann, áður en næsta heljar ólag æddi upp að ströndinni“ Taldi Páll þessum fimm mönnum hafa orðið til lífs, hve Guðmundur brást fljótt við og hafði góða menn.

 

Þau sem heima voru.

Ef þú ferð með stafrófið kemur a og síðan fylgir b. Á sama hátt má segja þegar bændur og yngri menn fóru á vetrarvertíð fyrr á öldum var varð eitt augljóst. Einhver varð að sjá um búin á meðan. Páll orðar þetta þannig að …“nútíð mun fyrir naumast óra“ hve útróðrar bændanna komu niður á konunum. Þær urðu að taka að sér fénaðarhirðinguna, og þá án efa með börnum sínum sem gátu létt undir.

Lífið í búðunum.

Í landlegum var margt sér til gamans gert. Söngmenn voru ágætir og stundum mikið sungið. Jafnvel spilað á harmoniku, helst á góðveðurskvöldum þegar út á leið og dag tók að lengja, eða gestir komu. Vel má hugsa sér Skaftfellinga og Rangæinga á göngu, eða með hest á leið austur Vellandkötlu. Nýkomnir frá kaupmönnum á Eyrarbakka, jafnvel enn pínulítið kenndir eftir ferðina í kaupsstaðinn. Heyra þar óm frá verbúðum á sandinum og þeir kíkja við.

Stundum fóru frískir menn í bændaglímu, höfrungahlaup, ganga á kagga (grútar eða tjörutunnur) , ríða til páfans, sækja smér í strokk, rjúfa skjaldborgina og þræða nál á flösku. Drykkjuskapur var ekki mikill, en þó kom það fyrir… „ef menn fóru út á Bakka, að þeir urðu dálítið kátir er heim kom“, að sögn Páls. „ …komu þeir þá jafnvel saman í einni búðinni, fóru í krók, bóndabeygju og hryggspennu.“

Hreystimenni

Halldór Einarsson í Klængsseli var meira en meðalmaður á hæð. Kýttur vel og samanrekinn, „vel sterkur og afbragsræðari“. Hann var einn af hásetum Jóns í Meðalholtum. Virðist af lýsingum hafa verið ljúfmenni, þó rammur af afli væri. Í hryggspennu varð Jón formaður eitt sinn nokkuð halloka í viðureign. Þá sagði Dóri „ ég get ekki séð það með berum augum, að formaðurinn liggi undir“. Lét ekki þar við sitja. Tók hann þá báða upp í einu ! Vakti það mikla kátínu. Halldór þessi réri eitt sinn í annari verstöð með öðrum formanni. Sá var nokkuð drykkfelldur og eitt skipti kenndur á sjó. Var samt við stýrið og… „stórveltu brim og lítið um lög“. Leist hásetum ekki á, og vildu að einn af þeim stýrði frekar við þessar aðstæður . Hann neitaði því. Sagðist ekki fara að láta einhvern „strák titt“ stýra undir sér. „ Þá sagði Dóri , ef þú ferð ekki frá stýrinu, tek ég þig bara með höndunum mínum.“

Ekki hefur honum þótt Halldór í Klængsseli árennilegur né handleggir hans. Færði hann sig þá hið snarasta. Hásetinn tók við og allt gekk vel í land.

Öðruvísi björgun.

Róður Guðmundar í Tungu og hans manna þann 19.mars 1911 varð að sumu leyti nokkuð táknrænn. Þeir hugðust leggja net og línu um leið. Tíu voru á skipinu. Veður var bjart, norðankaldi brimlítið en dökkur bakki í suðri. Fóru þeir út Tunguós. Réru þeir að Loftsstaðasundi. Stuttu síðar var komið brim. Maður gekk þá í sandinum með veifu, vestur ölduna. Það þýddi að ófært væri orðið sundið með öllu. Eina í stöðunni nú var að róa alla leið til Þorlákshafnar og freista lendingar þar. Tveir breskir togarar voru hinsvegar skammt utan og leist Guðmundi betur á að róa til þeirra. Er þeir voru komnir að honum sem var nær, settu þeir á fulla ferð til hafs! Kaldar kveðjur það. Máttu þeir vel vita og sjá hvernig brimaldan skall orðið á ströndina. Skipverjar gefast ekki upp við það heldur réru að hinum sem var utar. Hann var að toga. Hvort það var þeim til happs eður ei, þá kemur Íslendingur að borðstokknum og kallar til þeirra að bíða. Sá var ættaður frá Sjólyst í Vestmannaeyjum. Er þeir ensku höfðu tekið inn vörpuna, fóru allir um borð og tæmdu bát sinn og afla í togarann. „Englendingarnir fóru vel með gesti sína, létu þá sofa í rúmum sínum en sváfu sjálfir á bekkjunum.“

Þeir létu reka um nóttina móts við Selvog en sigldu daginn eftir austur á móts við Stokkseyri. Enn brimaði þar illa. Þaðan kom samt Jón Sturlaugsson og sótti alla. Báturinn varð hinsvegar ónýtur aftan í togaranum.

Tímarnir voru að breytast á söndunum. Skipunum fækkaði í takt við breytta tíma. Vélaöld var gengin í garð. Þarna varð þó áfram um skeið hlunnindi og búbót fyrir bændur og búalið með strandlengjunni , samt allt með minna sniði en áður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband