6.4.2020 | 17:51
Ótíð, brælur, baráttan við Ægi og pestir.
Í endalausri ótíð,skítabrælum og gæftaleysi (á gamlan mælikvarða) nú í vetur - hef ég stundum hugsað til þeirra sem stunduðu á vetrarvertíð sjóróðra frá Loftsstöðum, Tunguós og Baugsstöðum suður í Flóanum. Páll Guðmundsson á Baugsstöðum segir (Bókaflokkurinn Suðri 1970) ; það var ekki fyrir neinn undirmálsmann að vera formaður á þessum brimsundum. Það þurfti stundum snilli til að skjótast milli skers og báru.
Fá sjóslys urðu hér frá söndunum gegnum aldirnar og þótti það til merkis um klóka og útsjónarsama formenn (skipstjóra). En afli samt oft drjúgur.
Lýsingar Einars Guðnasonar starfandi skipstjóra (Jón á Hofi ÁR) um fiskigengd í dag á þessum slóðum, virðast sambærilegar við þessi gullaldarár. Til eru sögur um 24 skip sem réru samtímis frá Loftsstöðum. Þar stóð útgerð 30 40 ár í mestum blóma. Það hefur verið líf og fjör, þá jafnvel kringum 200 karlmenn við róðra á þessum slóðum á sama tíma. Flest voru skipináttróin með níu manna áhöfn.
Er frægt máltæki upprunnið í gamla Gaulverjabæjarhrepp ( nú Flóahrepp) ? Páll segir frá þekktum förumönnum sem voru á ferð á hverjum vetri. Einn af þeim var Bréfa- Runki . Skaftfellingur fæddur 1830. Fór víða og m.a. með bréf og önnur skilaboð milli verstöðva. Internet þeirra tíma til að fá fréttir. Vomurnar voru verstar ,segir Páll, sbr sögnin að vomast yfir einhverju. Hér getur orðið stórbrim í besta veðri, (líkt og við þekkjum Bæhreppingar) sundin fyrir opnu hafi, og jafnvel landlegur af þeim sökum svo dögum skipti. Við þannig aðstæður birtist Rúnki eitt sinn. Var strax spurður fiskifrétta af sjómönnum í landi.
Þeir fiska sem róa, svaraði hann um hæl. Lúmskt skot á karlana að róa ekki. Varð það haft fyrir máltæki síðan, sagði Páll. En afli á land varð samt oft ágætur. Kom sér þá að stutt var á miðin og mest komust kappsamir menn, fimm sinnum á sjó sama daginn! Þrjú til fjögur skipti algengt.
Nú á tímum Covid 19 pestar sem skekur heiminn, er merkilegt að Páll minnist á influensuvertíðina 1894. Þá voru ógæftir og brælur fram um marzlok. Þá kom inflúensan sem lagði flesta í rúmið. Lítið sem ekkert hægt að róa fyrir mannleysi (loksins þegar gaf) . Þessi flensa var skæð um allt land og lýsing á einkennum pestarinnar í annálum virðast ótrúlega líkar og í dag. Börnin sluppu að mestu en fólk í eldri kantinum varð veikast. Þessi vetur virðist nánast kópí peist núverandi ástands 2020. Þ.e. með tíðarfar og pestir.
Árið 1895 seint í mars, komust Þykkvbæingar ekki til baka í land. Brimaði snögglega, og lending ómöguleg. Freistuðu þeir þess að fara til baka vestur yfir Þjórsárós. Tvö stór skip 30 menn alls, yngsti 15 ára og elsti 80 ára. Komu að Loftsstaðasundi undir kvöld. Ekki var skárra í sjóinn þar. Eldur var kveiktur á Loftsstaðahól. Vissu þeir þá að tekið var eftir þeim. Enn var stórbrim næsta morgun, en skipin tvö sáust enn fyrir utan. Gísli Jónsson á Eystri Loftsstöðum og Jón sonur hans freistuðu þess þá að róa út til þeirra. Þeir sögðust ekki geta skipað neinum að koma með, svo illt var útlit. En allir buðust til og gátu þeir valið úr þeirra öflugustu mönnum með árina. Biðu lengi eftir sjólagi, og Jón stýrði. Komust loks út fyrir brimgarð í hvissandi ölduróti. "Þeir náðu mönnunum og röðuðu þeim endilöngum niður í skipið eins og fiskur væri Komust þeir í land. Var þá mál manna að aldrei hefði verið farið um Loftsstaðasund í öðru eins brimi. Enn herti vind og sjó. Sást ekkert eftir af bátum þeirra daginn eftir.
Páll segir að eftir 1900 hafi fiskgegnd farið að minnka, sérstaklega ýsan. Ástæðan m.a. sú að bresku togararnir voru komnir alveg hér upp undir fjöru og toguðu þar á bestu miðunum. Eftir þetta fækkaði skipum mjög. Áfram var þó róið með minna sniði. Jón fyrrum bóndi á Syðra -Velli
í Flóa, er í hópi þeirra síðustu núlifandi sem réru frá Loftsstöðum.
Loftsstaðahóll. Mynd Páll Bjarnason.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.