1.8.2012 | 23:31
Færeyjar heimsóttar.
Þröng,vinaleg strætin og húsasundin í elsta hluta Þórshafnar anga af sögu. Því til viðbótar fyllir vitin angan af tjöru.Sama tegund af fúavörn og notuð hefur verið á timburhúsin í mörg hundruð ár. Íbúar Þórshafnar greinilega hæglátt og vinalegt fólk. Við höfnina er iðandi mannlíf og ógrynni smáfleytna af öllum gerðum. Uppí stórskip. Síðan rykkjast fram og til baka meðfram bryggjum og hafnargörðum fjöldi róðrabáta. Ræðarar eru af báðum kynjum og víðu aldursbili. Stýrimaður í skut rær sjálfur í gráðið fram og aftur í takt við ræðarana og hvetur þá við hvert áratog. Styttist greinilega í Ólavsvöku
Ef metnaður venjulegs Íslendings er að eignast skika og sumarbústað þá er kappsmál Færeyinga að eignast fleytu. Allan skala skipa og bátaflóru má greina við flestar bryggjur sem eru margar á eyjunum. Í Þórshöfn mátti greina fiskiskip, fiskibáta,seglskip,seglbáta,urmul smábáta með færavindu,skútur, róðrabáta og skemmtisnekkjur af öllum stærðum. Síðan birtast risa skemmtiferðaskipin allt í einu og umhverfið verður líkt og fíll hafi hlammað sér í býflugnabú. Þannig eru stærðarhlutföllin.
Við sáum tilsýndar minnismerki um Kristján 9. Stendur nokkuð hátt uppúr byggðinni. Unglingur kom þrammandi niður húsasund og rakleitt til okkar. Sennilega séð okkur spurul á svipinn úr fjarlægð. Óbeðinn vísaði hann okkur á gönguleið upp hellulagðann stíg. Við tókum eftir að vönduð netgirðing var umhverfis hæðina og stöpulinn. Nokkrar kindur sáu nefnilega um hirðingu og slátt kringum þennan ferðamannastað. Engin mengun af sláttuorfum þar. Ef kýr eru heilagar á Indlandi þá nálgast sauðfé þann titil í Færeyjum. Eyjarnar standa allar undir nafni. Meðfram öllum vegum og allsstaðar sem því verður við komið sjást kindur á beit.
Kúabóndinn sem við heimsóttum var að hefja slátt 17.júlí. Múgaði síðan upp strax í kjölfarið. Verkaði í rúllur. Sagði vorið hafa verið kalt og sumarið síðan óvenju þurrt. Var þess fullviss að tíðarfarið nú væri algjör undantekning.Enda sást hvergi fjölfætla til að snúa heyi á eyjunum. Í morgunútvarpinu voru lesnar ítarlegar fréttir af aflabrögðum fiskiskipa. Bæði færeyskum og einnig mun fleiri fréttir af íslenska flotanum en heyrist nokkurn tímann orðið í heimalandinu. Það var fróðlegt og rifjaði upp heitstrengingar fréttastjóra RÚV strax eftir hrun. Í samviskubiti með hálfsofandi og gagnrýnislitla umfjöllun um glórulaust viðskiptahátterni útrásarróna átti að bæta fréttir af undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Slíkt var fljótt að gleymast. Kaffærðist helst í síbyljuvæli um tegund og gerð sóknar og kvótakerfis í sjávarútvegi sem engan enda ætlar að taka.
Sterk upplifun var að heimsækja Kirkjubæ. Þetta ævaforna kirkjusetur þar sem biskupssetur var til ársins 1538. Sama ætt hefur búið á staðnum síðan 1557. Þarna endast híbýlin því þessi fjölskylda býr enn að hluta til í timburhúsi frá 11. öld. Er það talið elsta timburhús í heimi sem búið er í . Voldug dómkirkja sem byrjað var að reisa árið 1300 stendur enn. Og stæði trúlega heil enn ef framkvæmdum hefði ekki verið hætt árið 1550. Veggirnir eru gríðarþykkir og hún er öll úr grjóti. Kölluð "Múrinn". Nú er unnið að endurreisn og viðgerð hennar. Aðeins varð manni hugsað til þess hví í ósköpunum Íslendingar nýttu ekki meira grjótið til bygginga í fornöld, sem allsstaðar er nóg af nema í Landeyjum. Það hefði allavega verið hægt við kirkjubyggingar.
Bændur voru í heyskap í Kirkjubæ. Baggabindivél af gömlu gerðinni batt baggana. Þeir voru þungir. Sem vonlegt var því trúlega var túnið slegið um morguninn, eða daginn áður. í mesta lagi 30% þurrkun. En við túnjaðarinn stóð minnsta rúllupökkunarvél sem ég hef augum litið. Þar voru litlu baggarnir bundnir í plast. Lyktin afheyinu var ágæt, en ilmaði allt öðruvísi en íslenskt hey. Af því var líkt og kryddkeimur. Það sem þurrast var virtist hálf molna. Hugsanlega var það skýringin á þessari aðferð við heyverkun.Kunni ekki skil á grastegundinni þarna, en hún var framandi fyrir Flóamenn.
Snyrtimennska virðist almenn. Jafnvel bæjarróninn í Þórshöfn sem hafði fengið sér vel af kranabjórnum niður við höfn, beið við rusladallinn til að geta drepið í og hent sígarettustubbnum. Horfði rangeygður á stubbinn reykjast inn að filter. Steig í allar áttir til að halda jafnvægi. Svona hugsun mættu meðal og magndrykkjumenn áfengis á Íslandi gera.En það skal tekið fram að á 5. og síðasta degi heimsóknarinnar sáum við fyrst lögreglubíl á Eyjunum. Yfir laganna vörðum var rólegt yfirbragð . Einnig íbúum.
Valdimar Guðjónsson.
Þrándur í Götu var þversum. Sem og minnisvarðinn á sama stað.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.