Ólík samfélög.

Ég velti stundum fyrir mér fjölbreytni samfélaga smárra sem stórra. Hvað gerir samfélög ólík? Hef spáð í þetta síðan við Stína keyrðum um Evrópu árið 1983 á  FIAT UNO bílaleigubíl.    Þetta þótti nokkuð frumlegur ferðamáti þá ,en hefur sótt í sig veðrið síðan.  Allavega hérlendis.

Við lentum í Luxemburg en keyrðum síðan í  löngum rykk á einum degi til Parísar.     Það var tekið að skyggja þegar við sáum framundan ljósin í stórborginni.    Við vorum orðin nokkuð lúin eftir langan akstur á hraðbrautum (autobahn) og þeim hraða sem tíkin dró (svo við yrðum ekki ekin niður) .   Tók samt töluverðan tíma inn í ysinn því fyrst var komið í strjálbýlli úthverfi.          Loks tók byggðin að þéttast uns algleymi fólks á götum og húss við hús, tók við.      Keyrðum enn drjúga stund.

Loks vorum við alveg búin að fá nóg.  Ég gaf stefnuljós til hægri í stæði og stöðvaði bílinn.     Er við litum út fannst okkur byggingin kunnugleg sem blasti við.      Viti menn ,  fyrir augnskotsjónum og nokkrum skrefum í burtu blasti við Notre Dame dómkirkjan!     Fyrir algjöra tilviljun tókst okkur að ramba á eina frægustu byggingu borgarinnar í byrjun.    Krökkunum þótti þetta alltaf mjög skrýtið þegar við sögðum þeim þessa sögu yfir "Hringjaranum í Notre Dame" teiknimyndinni.

Við dvöldum rúma tvo daga í París en héldum síðan áleiðis til baka um fáfarnari og rólegri sveitavegi.  Það var mjög eftirminnilegt.  Þú keyrir eftir sama meginlandinu, en allt í einu ert þú kominn í annað þjóðríki.  Stíllinn og umgengni íbúanna var misjafn (og er trúlega enn).    Í Vestur-Þýskalandi var allt snyrtilegt og vandað í sveitum og bæjum.  Byggingar gjarnan hvítmálaðar.   Öðru máli gegndi í Frakkalandi.  Í sveitinni var útihurðin oft farin af annarri löminni og hékk skökk, eða sá stíllinn á hlutunum.    Fas íbúanna á sveitakránum var öðruvísi en í borginni.  Á einum stað var fullt af ungu fólki.    Þar voru innanum mótorhjóla strákar í leðurdressum líkt og í borgunum.   En sá var munurinn að allir heilsuðust  með handabandi sem hefði örugglega ekki þótt "kúl"   í borginni.

 Eins finnst mér fas, stemmning, húmor og samskipti  líka ólík milli "samfélaga" á  litla Íslandi.  Það er erfitt að skýra þetta út, en þetta hefur eflaust að gera með uppeldi, umhverfi og uppeldisstofnanir í nútímanum.    Jafnvel milli fámennra sveitahreppa má finna mun.  Stundum minnir þessi munur mig á ólíku þjóðríkin í gömlu Evrópu sem við kynntumst aðeins fyrir 26 árum síðan.  Það mun eflaust breytast og jafnast meira út hjá næstu kynslóð hér í sveitunum nú þegar búið er að sameina skólana víðast hvar í stærri einingar.    Vonandi samt  ekki of mikið því að einsleitni er ekkert spennandi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband