28.10.2009 | 23:56
Meðvirknisfíklar.
Íslenska þjóðin er býsna meðvirk. Líkt og villifé með þaulræktaða forystukind sem leiðtoga lífs síns. Gallinn er bara sá að þessi ær stígur ekki alltaf í vitið.
Stór hluti þjóðarinnar trúði fagurgala þess efnis að við værum rík og gætum veitt okkur flest. En ástæðan var mest sú að auðvelt var að fá lán. Bankarnir gátu tekið lán til að endurlána hver öðrum og einstaklingum. Sveitarfélög slógu lán hægri vinstri og sem og Jón og Gunna. Allir þekkja söguna í dag. Of margir eltu aurinn. (Og sumir milljarðana) Með skelfilegum afleiðingum. En vel að merkja ekki allir.
Enn erum við meðvirk. Eltum og trúum þessari forystukind sem teymir lýðinn í dag.
Við höfum það svo skítt! Aumingja við. Grátkórinn hækkar.
Vissulega er það því miður svo í mörgum tilfellum. En það á sér stað uppgjör sem er hollt. Sem var nauðsynlegt.
Nýleg könnun um að börnum og unglingum líði betur nú en í góðærinu segir samt ýmislegt. Þeim sé betur sinnt af foreldrum. Fái meiri tíma og svo framvegis. Það eru bestu fréttir lengi.
Fátt er svo með öllu illt ... , líkt og hann Fúsi söng forðum daga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.