11.4.2009 | 00:24
Flugdrekahlauparinn.
Sjaldséðar góðar bíómyndir í sjónvarpi nú á dögum. Hvílíkt rusl upp til hópa sem boðið er uppá.
Og það batnar ekkert þó sjónvarpsstöðvunum fjölgi. Það finnst mér mest skrýtið. Samt eru enn framleiddar góðar myndir. Þeim er samt ekki ýtt fram af þeim sem auglýsa og véla um allar kynningar og "trailera" sem almenningur sér.
Var að horfa á myndina "flugdrekahlauparinn" sem var dásamlega mikið öðruvísi en hin sorglega einsleita Hollywood fjöldaframleiðsla.
Við kynntumst lífi ungra drengja í Afganistan stuttu fyrir innrás Sovétmanna árið 1979. Þar virtist þokkalega heilbrigt samfélag í sérstöku, harðbýlu og frekar lítt grónu landi. Þar sem brúnleitt grjótið, leirinn og klettótt landslagið virðist yfirþyrmandi. Hýbýlin lágreist og hvert öðru lík. En allt breytist við fyrrgreinda innrás og ekki minna þegar Talibanar komast til valda með ótrúlegri grimmd og sérvisku.
En fyrst og síðast kynnumst við öðrum menningarheimi. Öðru umhverfi. Öðruvísi hugsandi fólki. Öðruvísi kringumstæðum. Öðruvísi en "dælt" er inní stofur íbúa nánast um allan heim í krafti iðnaðar í Bandaríkjunum sem ekki einu sinni verstu heimskreppur geta slegið á. Ég er hér að meina 60 til 80% efnis bíómynda og framhaldsflokka í sjónvarpi. Efnið; morð. Punktur. Semsagt þetta þjóðfélagsmein. Þessu "innanhúsmeini" Bandarísks samfélags er troðið uppá aðrar þjóðir sem afþreyingar efni. Aðrir taka þetta síðan upp. Jafnvel við Íslendingar þó morð séu ekki vandamál hér sem betur fer.
Ég viðurkenni þó að þetta "konsept" þetta efni getur auðvitað virkað sem spennandi plott. En guð minn góður. Það má nú öllu ofgera.
Þessvegna eru svona öðruvísi sögur og bíómyndir gerðar útfrá þeim gullmolar. Saga Khaled Hosseini er eftirminnileg. Ameríkönum er reyndar ekki allsvarnað því bókin var sú mest selda árið 2005 í USA.
Athugasemdir
Var einnig að horfa á þessa mynd... MJÖG góð... er tiltölulega nýbúinn að sjá aðra "ekki" Hollywoodmynd... Slumdog Millionaire... svakalega góð mynd líka... mæli með henni ef þú hefur ekki séð hana... það eru svona myndir sem að skilja eitthvað eftir...
Brattur, 11.4.2009 kl. 01:02
Já satt segir þú. Verð að sjá þessa mynd Slumdog...
Jafnmikið og ég dáist að mörgu frá Kananum og afrekum þeirra í gegnum tíðina.., Þá er á einhverjum tímapunkti hægt að fá nóg af svo góðu.
En sumir virðast bara aldrei fá nóg af endalausu "teknisku", stöðluðu og oft á tíðum hugmyndasnauðu efni. Það er líkt og saðning í formi franskra kartaflna alla daga allt árið. Í öll mál.
P.Valdimar Guðjónsson, 11.4.2009 kl. 10:47
Með aldrinum lærir maður að velja úr... maður nennir ekki að láta allt vaða yfir sig... það er svo mikið drasl í boði...
Brattur, 11.4.2009 kl. 10:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.