27.2.2009 | 11:24
Lítil kreppa í Gaulverjabæjarhreppi.
Eldhúsglugginn hérna snýr í norður. Líka glugginn í mjólkurhúsinu. Við blasir tígulegur fjallahringurinn.Selvogsheiði,Heiðin há,Meitillinn,Geitafell,Bláfjöll, Hellisheiðin, Skálafellið, Ingólfsfjall,Búrfell í Grímsnesi,Botnssúlur í Hvalfirði, Hestfjall,Laugardalsfjöllin . Sé litið austar Heklan,Vatnafjöll, Þríhyrningur, skalli Eyjafjallajökuls og Seljalandsheiðin. Auk þessa ótal fleiri sem vel má sjá alla leið innundir miðhálendi við víðan sjóndeildarhring. Svo heyrum við það oft að engin fjöll séu i Flóanum ! Ég held því fram að þau séu hvergi fleiri, sem er reyndar staðfest.
Sé litið nær er sem betur fer iðandi mannlíf, atvinnulíf og jafnvel umsvif. Svo mikil að það gleymist um sinn síkreppt og krappara krepputalið sem stöðugt er klifað á. Hér í Gaulverjabæjarhreppi (nú staðarheiti líkt og Stokkseyri, Eyrarbakki og svo framvegis) er unnið að viðhaldi og endurbótum á húsnæði Gaulverjaskóla innan sem utandyra, þar sem opnað verður gistiheimili í vor og er þegar búið að bóka fjölda gistinótta.Í gær voru steypubílar á ferðinni í allar áttir. Verið var að steypa undirstöður undir nýja reiðhöll í Syðri- Gegnishólum. Auk þess er verið að steypa einbýlishús við Gaulverjabæjarveginn á landskika úr jörðinni Rútsstaðir, svo eitthvað sé nefnt.
Því miður er samt nokkurt atvinnuleysi í Flóahreppi sem hittir vinnufúsar hendur hér sem annarsstaðar. Þar spilar stærst byggingargargeirinn. Það gat auðvitað með engu móti orðið framtíðaratvinnuvegur þjóðarinnar að byggja sífellt íbúðir og sumarhús langt umfram íbúafjölda og þarfir. Svo harkalegt sem það hljómar var þar líka um nauðsynlega leiðréttingu að ræða sem þurfti að koma til fyrr eða síðar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.