12.10.2008 | 23:53
Nú byltist allt og breytist.
Nú byltist allt og breytist.
(The Times They Are A-changin')
Bob Dylan
Þýðing Þorsteinn Valdimarsson.
Þér sofendur, vaknið!
Sjó, voðinn er beinn,
Hina vaxandi flóðbylgju
stenst eigi neinn;
og kannist hver við,
að hans kostur er einn
og knappur sá frestur, sem veitist
að læra að synda-
eða sökkva´eins og steinn,-
því nú byltist allt og breytist.
Þér skáld og þér sjáendur,
sjáið nú glöggt,
því seint er að spá,
þegar ljósið er slökk;
og tólfunum kastar
í taflinu snöggt,
þar sem teningur veltist og þeytist;
hið klökkna mun harðna,
hið harða er stökkt,-
því nú byltist allt og breytist.
Þér þingmenn og landsdrottnar,
lítið á rök,
en læsið ei dyrum,-
þér standið í vök,
þar sem orrusta geisar:
og sannur að sök
verður sá er gegn réttlæti beitist;
það sprengir hans múra,
það molar hans þök,-
því nú byltist allt og breytist
Þér mæður og feður,
nei, fellið ei dóm
á forsendum vanans
né páfans í Róm,
þó að börn yðar vaxi
upp úr brekum og skóm
um það bil er þér eldist og þreytist.
Látið þau hlýða kalli,
þótt þér heyrið ei hljóm,-
því nú byltist allt og breytist.
Sjá línan er dregin
og fordæming felld;
það er frostinu vígt,
sem nú bakast við eld;
öll þau djásn verða gefins,
er dýrst eru seld,-
allt það dýrast er ókeypis veitist;
þeim sem hreyknastir tróna,
lærist hógværð í kveld,-
því nú byltist allt og breytist.
- - -
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.