31.8.2008 | 11:34
MAMMA MIA og Abba frænka.
Sama kvöld og sýnt var í sjónvarpinu frá komu íslenska landsliðins í handknattleik til Fróns frá Kína, var á Stöð 2 heimildarmynd um gerð myndarinnar Mamma Mia sem sýnd hefur verið í bíó við metaðsókn nú í sumar.
Ólíkir hlutir hér á ferð og allt það. En þetta tvennt er tvímælalaust búið að gleðja landann mikið þetta indælissumar 2008.
Ég er ásamt (án efa) þúsundum annarra búinn að lofa svo og hrósa landsliðnu i handbolta svo mikið, að varla er á það bætandi. Móttökurnar og fálkaorðurnar voru fyllilega verðskuldaðar.
Við Stína erum búin að fara tvisvar á Mamma Mia í bíó. Í seinna skiptið tókst okkur að fá unglinginn á heimilinu með gamla settinu. Dóttirin tók þessu fálega í fyrstu. Fannst afar hæpið að hún fengi eitthvað útúr því að sjá gamla leikara flytja eldgömul seventís lög. Glætan.! Lét þó tilleiðast.
Eins og við manninn mælt. Hún kom skælbrosandi útúr bíó , líkt og aðrir gestir, sem vel að merkja eru skemmtilega mikið á öllum aldri.
Abba og lögin þeirra voru í uppáhaldi hjá mér á árum áður. Það þótti nú ekki "kúl" á þessum tima hjá mörgum unglingum og karlmönnum. Ég gleymdi seint svipnum á Dóra skólabróður mínum og félaga í MH forðum daga. Við vorum eitthvað að sendast í bænum á mínum bíl og kassetta með Abba var í tækinu. Svipurinn sem kom á hann þegar ég ýtti spólunni inn. Síðan upphófust miklar rökræður um þess músik. Með og á móti. Sjálfur sótti Halldór þessi félagi minn Borgina á þessum árum kringum 1980 og þar var nú annars konar tónlist leikin. Oft nýbylgja og pönk svo dæmi sé tekið.
Ég er afskaplega latur að hlusta á diska og hlaðvörp (mp3) kann ég ekkert á enn sem komið er. Hlustun mín á þessar gömlu melódíur Öbbu frænku (eins og þau voru stundum kölluð) hafði því alveg legið í salti tæp 30 ár. Nema stöku spilun í útvarpi, sem var nánast hætt að heyrast.
Það var því mikil skemmtun að sjá þessa geysilega vinsælu mynd og sumarsmell 2008. Rifja upp þessi melódísku og skemmtilegu lög. Myndin er einfaldlega frábær skemmtun og galdur hennar er að hún ætlar sér ekkert annað. Það er engin byssa, enginn drepinn, engin sérstök spenna, bara gleði og skemmtileg tónlist. Það finnst mér alveg nóg endrum og sinnum. Þessi mynd verður algjör klassik. Fer í flokk með Grease, Saturday night Fever, Sound of Musik og öðrum misjafnlega miklum hallærisheitum, en samt skemmtilegheitum í bland.
Þeir félagar Björn og Benny eru frábærir lagasmiðir, það verður ekki frá þeim tekið. Þeir voru samt auðvitað mistækir eins og afkastamiklir tónlistarmenn menn eru stundum. Skemmtilegast finnst mér kringum vinsældir myndarinnar hvað yngri kynslóðir kveikja strax á þessum lögum.
Ég hafði samt sem áður ekki pælt í því fyrr en ég sá fyrrgreinda heimildarmynd hvað þau í Abba voru í raun frekar hallærisleg á sviði. Ástæðan er einföld. Engin af þeim er töffari. Enginn er með stæla og ef þau reyndu það varð það bara hálf púkó. Allra síst var síðan nokkur af þeim dansari. Samt virkaði þetta allt saman. Galdurinn var auðvitað skemmtileg og melódísk tónlist. Ekki spillti heldur að stelpurnar voru sætar og vel vaxnar. "Sexiest bottom in Europe" var sagt um ljóskuna Agnetha Faltskog er hún dillaði sér þröngu hvítu buxunum forðum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.