Jón Ólafsson á Kirkjulæk.

 (Minningargrein birt í Morgunblaðinu 3.júlí 2008)

Það vantar ekki á þig „skemmti-leguna“, heyrði ég eitt sinn þakklátan áhorfanda segja við Jón Ólafsson á Kirkjulæk að loknu einu atriði af mörgum á hans ferli. Íslenskur alþýðuhúmor. Alveg í anda Jóns sem var sjálfur glúrinn og grínsamur orðasmiður, hagyrðingur og tónlistarmaður. Hann var auk þessa verkmaður ágætur og hugmaður í búskap meðan slíkt var atvinnan.

 Eftirminnilegir menn klæða hversdaginn uppí sérstöðu. Sjá alltaf nýjan flöt á hverjum hlut og þannig næmni hafði Jón til að bera á allt umhverfi sitt. Stöðug glettni og mannlegur vinkill á lífið, fólkið og tilveruna gerði hann vinamargan og hrók alls fagnaðar í hverjum hópi. Feimni háði honum aldrei og að sjálfsögðu bjó hann sjálfur til orð um það. Sagðist vera „framhleypa“, sem var rétt. Heyrði einhvers staðar þá skilgreiningu að áhuginn á ættfræði byrji þegar hárin byrja að vaxa útúr eyrum og nefi á körlum. Nokkurn veginn þannig var það hjá Jóni. Áhuginn meiri á sveitaböllum og slíku á yngri árum líkt og tilheyrði. Seinna lyftist á flug áhuginn á forfeðrum, formæðrum og merkri sögu þeirra. Líkt og Jón Lárusson afi hans fór Nonni að kveða á rammíslenskan hátt og fórst það vel. Trúlega teygðist taug ættföðurins frá Bólu alla leið til Jóns og sumt var þeim líkt gefið. Áhuginn á verkmennt fyrri alda var ekki síðri. Krafturinn og útsjónarsemin við að reisa Meyjarhofið stuttu fyrir veikindin var aðdáunarverð.

 Það er lognkyrr Jónsmessunótt. Roðagyllt rönd innrömmuð af Eyjafjallajökli, Þríhyrningi og Tindfjöllum. Dalalæðan vefur sig mjúklega ofan í hverja laut og Dímon stendur álengdar. Á slíkri stundu í náttlausri íslenskri veröld kvaddi Jón Ólafsson á Kirkjulæk. Slíkra manna er saknað. Því vantar stórt uppá sanngirni lífsins gangs í þetta skiptið. Við getum samt ekkert nema reynt að brosa í gegnum tárin, því minning um glettinn, hlýjan og litríkan samferðamann yljar.

 Rangæingar kveðja því nú einn af sínum mætari sonum í nútímanum. Sannan sýslung sem var stoltur af héraði sínu, sögu þess og umhverfi. Unni því ekki einungis með hugsunum, heldur orðum, gjörðum, söng, tónlistarflutning, kveðskap og eigin framkvæmdum. Kæra María, Inga og fjölskylda. Samúðarkveðjur til ykkar allra. Valdimar Guðjónsson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband