20.4.2008 | 22:30
Að koma miklu í verk.
Mér verður stundum hugsað til hennar ömmu minnar í móðurætt, Guðfinnu Þorsteinsdóttur. Að fæða,klæða,þrífa og hugsa um níu börn þætti bara ærinn starfi í dag. Jafnvel þó þau færu níu mánaða á leikskóla eins og tíðkast nú til dags.
Hvað þá í afskekktri sveit austur á Vopnafirði og aðstæður í byrjun búskapar þær sömu og þúsund árum fyrr í íslenskum dal. Þetta eitt og sér hefði nú dugað flestum. En bókhneigð hennar var ótrúleg. Með sjálfsnámi lærði hún mörg tungumál og var mikilvirk í þýðingum og eigin skáldskap. Þó taldi skólagangan aðeins einn vetur. Hún tók sér skáldkonu nafnið Erla sem síðar varð mikið notað mannanafn.
Auðvitað er maður ekki til þess bær að rita gagnrýnið um svo náinn ættingja. En ég dáist æ meir að henni, hennar verkum og hve miklu hún afkastaði.
Það er líkt og sumir nái valdi yfir tímanum. Nái að teygja hann, toga og nýta á óútskýranlegan hátt. Meira en eðlisfræðin og líffræðin gerir eiginlega ráð fyrir.
Fann gamla ritgerð úr menntaskóla sem ég gerði árið 1981. Læt hana fylgja hér.
Eldri ljóðskáld ERLA. Guðfinna Þorsteinsdóttir var fædd á Skjögrastöðum í Fljótsdal 26.júní 1891. Hún var hjá foreldrum sínum til 6 ára aldurs, en fór þá frá þeim og var sett í fóstur að Krossavík í Vopnafirði. Slíkt var eigi óalgengt á þeim tíma og þótti ekkert tiltökumál. Eflaust hafa þó þeir þó fundið fyrir því sem í lentu, eins og nærri má geta. En þetta varð að gerast og ástæðan var yfirleitt mikil fátækt og of margir munnar að fæða. Strax í æsku gerðis Guðfinna mjög bókhneigð og ljóðelsk. Ung að árum tók hún til við að yrkja. Öll hennar skólaganga var einn vetur í unglingaskóla á Vopnafirði. Þessa undirstöðumenntun nýtti hún sér til hins ýtrasta og voru tungumálin henni sérlega hugleikin. Sýndi hún snemma af sér mikla kunnáttu og næmleika. Tók hún seinna til við þýðingar og þýddi m.a. úr dönsku, sænsku, norsku, færeysku og ensku. Hún þýddi bæði bundið og óbundið mál. Eitt síðasta verk hennar á því sviði var Slagur vindhörpunnar , eftir William Heinesen. Spillemenderne. Haustið 1917 giftist hún Pétri Valdimari Jóhannessyni og settust þau hjón að í Brunahvammi í Vopnafirði. Ári seinna áttu þau fyrsta barnið og var það hið kunna skáld Þorsteinn Valdimarsson sem margir kannast við. Þau bjuggu þó lengstum að bænum Teigi í sömu sveit. Guðfinna bjó líkt og annað alþýðufólk á þessum tíma við kröpp kjör og erfitt heimilislíf. Börnin urðu alls 9, þannig að laus tími til að fást við skriftir hefur varla alltaf verið mikill.
Aftur myndi ylna lund,
óma þögul harpa,
ef ég mætti skamma stund
annafargi varpa.
Guðfinna gaf út fyrstu ljóðabókina 1937 þegar heldur fór að hægjast um í heimili og tók sér skáldkonunafnið Erla. Þetta var ljóðabókin Hélublóm. Árið 1945 kemur út bókin Fífulogar (ljóð). Síðan 1957 Völuskjóða (sögur og ævintýri). Ævintýri dagsins leit dagsins ljós 1958 og voru það þulur og barnaljóð. Aftur árið 1959 var það bókin Vogrek sem voru frásagnarþættir um ýmis efni. Bækurnar Hélublóm / Fífulogar ;Ljóðin bera öll vott um nægjusemi og sáttfýsi við tilveruna. Rómantíkin er mjög mikil. Má segja að þetta eigi jafnt við um þema þessarar ritgerðar ( þ.e. viðhorf til stöðu kvenna) jafnt og aðra bæði veraldlega og andlega hluti. Ekki tel ég hægt að herma neinar jafnréttishugsjónir uppá ljóð Erlu enda sú barátta barnsskónum ( sérstaklega hér á landi) er hún yrkir ljóð sín. En etv. má segja að iðja hennar út af fyrir sig sé mikil uppreisn gegn hefð, því þó ekki sé lengra liðið var tíðarandinn ekki sá að það þætti við hæfi að konur fengjust við skriftir. Hvað þá í sveitinni þar sem bústörfin voru nú alveg nóg. Margt fær umfjöllun hjá Erlu, og má nefna árstíðirnar hverja um sig, gróðurinn, blómin og dýrin en auðséð er að hún var mikill dýravinur. Einnig má nefna kveðjur til vina og nágranna bæði látinna og lifandi. Lífsviðhorf Erlu í víðu samhengi, jafnt til stöðu kvenna sem annars er nokkuð ljóst við lestur verka hennar. Sem áður segir er þar bjartsýni og nægjusemi algerlega í fyrirrúmi og mikið um lífsreglur ýmiskonar, hvernig hver og einn á að temja sér sem mesta lífshamingju. Eftirfarandi mætti kannski að nokkru líkja við Heilræðavísur Hallgríms;
Vertu sanngjarn.
Vertu mildur.
Vægðu þeim, er mót þér braut.
Biddu guð um hreinna hjarta,
Hjálp í lífsins vanda´ og þraut.
Eftirfarandi erindi eru mjög táknræn. Ekki aðeins fyrir skáldskapinn því hann er fjölbreyttari, heldur afstaðan til lífsins og tilverunnar og sannast þá kannski sem að framan er rakið.
Lífsreglur
Vertu alltaf hress í huga,
hvað sem kann að mæta þér.
Lát ei sorg né böl þig buga,
baggi margra þungur er.
Treystu því, að þér á herðar
þyngri byrði´ ei varpað er
en þú hefur afl að bera.
Orka blundar næg í þér
Fyrr en harða fellir dóma,
fara skaltu´ í sjálfs þín barm.
Margur dregst með djúpar undir
dylur margan sáran harm.
Dæmdu vægt þíns bróður bresti;
breyskum verður sitthvað á.
Mannúðlega´ og milda dóma
muntu sjálfur kjósa að fá.
En glettnin er líka til staðar og hátíðleikanum er hér gefið frí;
Maður kemur manns í stað
Maður kemur manns í stað,
mjög til ásta frekur.
Fyrr en varir öðrum að
ekkjan hallast tekur.
Fúllyndi
Sjaldan ertu´ á svipinn hýr,
sífelld illska í geði.
Óánægjan í þér býr.
Áttu' ei neina gleði? Um skáld
Hlátrar glettu´ í hendingum.
Hreyft er nett við strengjunum,
stiklað létt á stuðlunum,
staka rétt að ljóðvinum.
Erla var mikill aðdáandi bæði þeirra skálda og þeirra rómantísku kvæða sem voru undanfari og fylgdu í kjölfar þess að við fengum okkar sjálfstæði. Um margt má kannski líkja skáldskap Erlu við þá sem við köllum þjóðskáld okkar í dag, hún yrkir í sama stíl og eflaust undir áhrifum margra. En þar skilur þó á milli að Erla er mjög persónuleg og heldur sig við sitt nánasta umhverfi. Það umhverfi sem stendur næst hverjum manni og hún reynir ekki að tala um Ísland í víðu samhengi og hvað sé því fyrir bestu eða verstu.. Hins vegar, ef djúpt er kafað, telst boðskapurinn eflaust sá sami og hjá flestum öðrum á þessum tíma, þ.e. umhyggja fyrir landinu, náttúrunni og þjóðinni.
Málsins kjarni
Almættishöndin eftir vexti sníður
örlagastakkinn hverju foldarbarni.
Annar er þröngur; hinn er vænn og víður;
víst er um það, en hitt er málsins kjarni
að bera með snilld, uns snauðri æfi lýkur
snjáðar og þröngar örlaganna flíkur.
Eins og að framan er rakið hlýtur að vera erfitt að finna ádeiluna í verkum Erlu. Hér er ekkert verið að skammast út í neinn hlut, hvorki á beinan hátt né táknrænan. Hið eina væri kannski að að fólk liti aðeins bjartari augum á lífið, nóg er um úrtölurnar alsstaðar. Heimildir: Um skáldið munnlegar. VG.
Athugasemdir
Gaman að lesa þetta Valdimar. Snillingur hún amma þín. Þetta reif upp gamlar minningar. Við systkinin áttum bókina Ævintýri Dagsins og hún er snjáð og slitin eftir mikinn lestur. Minnistæðust mér er Sauðburðarþulan og Hænsnaræktin, og allt er þetta hrein snilld. Og oft fór mamma með vísuna : Einu sinni var karl og kerling --- kella fór að sjóða velling o.s.frv. Einnig er Völuskjóða til hér á bæ , en ég hef ekki lesið hana. Kveðja Ásta
Ásta Þorbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 23:13
Sæl Ásta.
Ánægjulegt að vita af þessu. Við þurfum að ræða þetta betur í góðu tómi.Þessar bækur og ljóðin hafa farið víðar en ég hélt,eða vissi. Greinilega víðar en á austurlandið allavega.
Kveðja Valdimar.
P.Valdimar Guðjónsson, 24.4.2008 kl. 21:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.