Vinna, skóli, eldgos.

Ég var fenginn til að halda erindi hjá góðum hópi fólks á Selfossi fyrir stuttu síðan. Mjög vinalegar móttökur og enginn sofnaði að ég held.
Smelli þessu hér inn. Aðvörun ; sjálfhverft að hluta.

Komið þið sæl. Ég vil byrja á að þakka fyrir boðið að koma hingað og spjalla við ykkur.
Skipti þessu þannig upp - að segja örlítið frá sjálfum mér. Síðan í seinni hlutanum frá atburðum og veruleika sem er á flestra vörum þessa dagana.
Fæddur er ég hér á Selfossi 1961 og á þann vafasama heiður (var mér sagt af móður minni) að vera fyrsta „klukkubarnið“ á sjúkrahúsinu. Ég var nokkuð stór við fæðingu og þurfti því að notast við svokallaða sogklukku á höfuðið að ég held - til að geta togað almennilega í krakkann. Stærðin hélt sér í hlutföllum fram eftir aldri líkt og sennilega sést á mér…

Ágætur vinnufélagi minn við störf inni á hálendi fyrir 45 árum fullyrti að ég væri af svokölluðu vaðfuglakyni. Hár til hnésins og með stóra fætur. Það kæmi sér vel í blautum Flóanum. Í vinalegum skotum okkar á milli kallaða ég hann, sem var frekar lágvaxinn, Þúfutittling úr Þingeyjarsýslu svo staðan var alveg 1 – 1 og hallaði ekki á neinn. Allt í góðu og hann Rabbi var skemmtilegur maður að vinna með. Tek það fram.
En ég sagði líka við hann trúlega væri bara heilmikið til í þessu. Ætli það kallist ekki þróun tegundanna, líkt og við þekkjum í fræðsluþáttunum hjá Attenborough í sjónvarpinu. Í raun fékk ég sönnun á þessu eitt sinn í spjalli við afgreiðslukonurnar í skódeild KÁ í gamla daga. Konan fullyrti að á Suðurlandi seldust stærri skónúmerin mun betur en á Austurlandi. Það gekk svo langt að deildin í KÁ versluninni hefði skipti við Kaupfélag Héraðsbúa ! Stærstu númerin voru send suður og minni stærðir austur. Þetta er auðvitað rökrétt ef maður hugsar það. Minni þörf á stórum fót við göngur á fjöllum og í skriðum 🙂
Telst nánast borinn og berfættur á kirkjuhlaði. Er því vanur að hafa kirkju og kirkjugarð í nágrenni heima í Gaulverjabæ þar sem ég ólst upp. Ég er yngstur af fjórum systkinum og heima var líflegt heimilislíf. Það kom til af miðstöð sveitarinnar í Gaulverjabæjarhreppi ef svo má segja. Ætli það kallist ekki að búa í miðbænum ef ég væri í bæ eða borg. Á hlaðinu var
1) Umferðamiðstöð. Bíll frá Bjarna í Túni kom í föstum ferðum 1x eða 2x sinnum í viku. Kom með rekstrarvörur til bænda og tók í staðinn kartöflur, rófur, gulrætur i , egg og margt fleira til Reykjavíkur ( sem bændur komu með á staðinn) .
2) Bensínstöð
3) Símstöð
4) Hreppsskrifstofu ( faðir minn var oddviti hreppsins)
5) Vélaleigu . Búnaðarfélag átti tæki
6) Kirkja og skrúðhús.
7) Til viðbótar hefðbundið íslenskt sveitaheimili og húsdýr. Hjá okkur voru það Kýr ,kindur, hross og einnig svínabú.

Auk þessa er stutt í félagsheimilð Félagslund og Gaulverjaskóla sem starfaði til 2006. Líf og fjör hjá börnum og ungu fólki sem stunduðu sveitaböllin í þá daga. Kliður og köll beggja hópa bárust heim á hlað við ólík tækifæri.

Frá eldri systkinum bárust ýmis áhrif. Bítlarnir. „ She loves you je, je, je. Varð uppáhaldslag er ég var nokkurra ára. Barst frá plötuspilara systur minnar. Haukur sá elsti var hinsvegar Rolling Stones maður frá fyrstu plötu þeirra félaga. Þessi tónlist smaug inn í mann. Allir þekkja þátt tónlistarinnar í lífi margra. Hve sumir Alzheimer sjúklingar tengja lengi við tónlist – þó flest annað sé farið, segir manni margt.

Ég og kona mín Kristín Ólafsdóttir ættuð frá Kirkjulæk í Fljótshlíð tókum við búi í Gaulverjabæ ung árið 1984 og erum enn við þau störf og rekum kúabú.

Á menntaskólaárum í borginni tók ég tvo jarðfræði áfanga sem val og hafði gaman af. Jarðfræðingur hefði ég hinsvegar seint orðið því stærðfræði og eðlisfræði voru ekkert í sérstöku uppáhaldi sem námsgreinar. Ég vann við byggingu Sigöldu (undir lokin) og Hrauneyjafossvirkjana uppi á hálendi sem sumarvinnu og einnig hálfan vetur er ég tók frí eina önn í skóla. Vinnan var ágæt og launin einnig , en umhverfið heillaði mig ekkert sérstaklega. Gróðurlaust með öllu, svartir sandar, möl og grjót. Í Flóanum var ég vanur á sumrin að vera umvafinn grasi , gróðri og lífi. „Mig langar heim… já austur í Flóa“. Samdi textasmiðurinn Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur í þekktu lagi með Savanna Tríóinu. Hugsaði líkt í þá daga. En það er gjörbreytt í dag og gróður hefur lifnað mjög þarna uppfrá. Verið sáð og ræktað mikið.

17 ágúst 1980 er ég var heima í helgarfrí, kom símtal. Heklugos var hafið, sökum nálægðar yrðu vinnuflokkar ekki sendir upp á hálendi til vinnu fyrst um sinn. Á öðrum eða þriðja degi kom kallið og rútan fór með vinnuflokkinn upp Þjórsárdalinn, síðan framhjá Búrfelli á blússandi siglingu. Heklan býsna nálæg. Vegurinn uppúr var sem eggslétt hraðbraut í stað holóttra þvottabretta og malarvega. Öskufallið jafnt yfir allt hafði semsagt stórbætti vegina, en ekki stóð það nú lengi.

Ætli neðanverður Flóinn teljist ekki stúkusæti til að fylgjast með eldgosum í fjarska hér sunnanlands. Við töldum einhvern tímann vel á annan tug gosa sem sést hafa að heiman síðustu áratugi.
Mig rámar í Surtsey 1967 ( hófst 1963). Upphaf Heklugossins 1970 man ég hinsvegar vel. Við vorum stödd inn í símstöðvarherbergi sem snéri beint í austur. Tómas þáverandi oddviti á Fljótshólum var staddur heima og síhækkandi mökkurinn yfir Heklu blasti við útum gluggann. En það voru eldingarnar í boga yfir fjallið sem sitja fastast í minni. Þær voru afleiðingar eldsumbrotanna því þurr dagur var.

Enn á ný lifum við gostímabil og hugurinn er hjá Grindvíkingum þessa dagana. Eldgosin eru samofin sögu okkar og þau „flækjast“ víða fyrir þegar grant er skoðað.

Bara spurning hvar á að byrja, en við getum brugðið okkur til Þingvalla árið 1000 . Heiðnir höfðingjar og goð flykkjast suður yfir heiðar. Takast skal þar á um hvort heiðinn siður skuli víkja fyrir hinum kristna. Þá byrjar jarðeldur í miðju hrauninu milli Bláfjalla og Lambafells. Það má ímynda sér að Vestlendingar, Kjósverjar og fleiri hafa þurft að leggja lykkju á leið sína á leið til Þingvalla. Ýmist kallað Kristnitökuhraunið eða Svínahraun.
Tekist var á með orðsins gandi á Völlunum. Gissur og Hjalti luku máli sínu á Lögbergi af svo mikilli orðakyngi að ótti greip andstæðinga og enginn lagði í að andmæla þeim. Kristnir menn og heiðnir slitu friðinn í framhaldinu. Var þetta allt að klúðrast ?
Í því kom móður maður hlaupandi og sagði stundarhátt að liti úr sem hraunið myndi „hlaupa á bæ Þórodds goða“… í Ölfusi. (Ekki alveg vitað hvort hann bjó á Hjalla, eða Þóroddstöðum)
Þvínæst lögðu báðir aðilar sitt til málanna útfrá þessari ógn. Orðaskiptin fleyg. Fullyrt var ; „Eigi er undur að að goðin reiðist tölum slíkum:“
Orð Snorra goða sem svar, var líkast lopavettling uppí viðkomandi. „ Um hvað reiddust goðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á.“ Ég sé þetta jafngilda meiningunni ; Eru jarðeldar eitthvað nýtt á Íslandi? Líttu niður, hvað gekk á í umhverfinu hér á Þingvöllum áður fyrr?
Þetta magnaði sviðið á þessum stóru tímamótum, þarna tókust á góð og ill öfl, ekki bara manna heldur tilverunnar og náttúrunnar. Munnmæli og sögur tengd þessum einstaka viðburði gegnum árhundruð hittu á magnaðan tíma (eldgos) en ekki einstakan.

Hraunfoss steinrunninn sést steypast fram stutt frá Hjalla . Svokallað Þurárhraun. ( Á leiðinni milli Hveragerðis og Þorlákshafnar) Það var lengi ( nokkur hundruð ár) talið vera umrætt hraun sem rann árið 1000. Ummerkin og staðsetning myndu smellpassa. En seinni tíma rannsóknir hafa sýnt að þetta hraun rann nokkru fyrir landnám. Þetta stemmdi því ekki, en var samt ekki endilega rangt hjá sendiboðanum á Þingvöllum. (þó það færi ekki alla leið) Hraunið flæddi í suðvesturátt með látum. Enginn vissi hvar það myndi enda. Ekki frekar en fyrir stuttu síðan í okkar nútíma þegar hraunið úr Meradölum nálgaðist Suðurstrandarveginn. Enginn gat sagt með vissu var það myndi stöðvast.

Á leið til Reykjavíkur sést hvar svokallaður Svínahraunsbruni (þe. Hraunið) hefur stöðvast til austurs allavega. Vantar lítið uppá að það hafi runnið hafi alla leið að hlíðinni fyrir neðan Hveradalabrekkuna á sínum tíma. Virkjunin er þar í óvarinni hvilft. Ég var alltaf hissa að mannvirkin væru ekki staðsett ofar í hlíðinni uppá hugsanlegt hraunrennsli.

En gleymum okkur ekki í kvíða og svartnætti. Við búum á eldfjallaeyju. Ég hef alltaf dáðst að hve sumum þessum hamförum og eldvirkni við höfum getað snúið til góðs . Þó auðvitað ekki öllum.
Dæmin eru mörg. Hiti nýja hraunins í Eyjum var nýttur til húshitunar í nokkra áratugi. Höfnin í Vestmannaeyjum varð betri eftir gos. Gosið í Eyjafjallajökli var start túristasprengjunnar í Íslandi og sér ekki fyrir endann á . Eldvirknin er undirstaða heitavatns gullnámunnar við Svartsengi. Staðan þar er tvísýn nú, en þar er áhætta sem var tekin við byggingu þess mannvirkis. Þannig má áfram telja.

´Ég tók saman grein um upphaf síðasta Kötlugoss árið 1918 sem birtist í Morgunblaðinu sl. sumar. Fyrirvarinn fyrir íbúa í nágrenni var enginn. Þá varð manni betur ljóst hversu gífurlegar framfarir hafa orðið í vöktun og óróamælingum helstu eldstöðva hérlendis. Ég dáist alla daga af mikilli færni og þekkingu okkar helstu sérfræðinga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband