Ógn og náð hjá Kötlu.

Eftirfarandi skrif mín voru send í Morgunblaðið og birt  29. ágúst 2023.
Eiga sér stað örlagadag 1918. Eru um góð og slæm tíðindi. Íslenska þrjósku og vinnusemi. Hamfarir, en æðruleysi náð og miskunn. Að mestu byggt á heimildum. 
………………….

 

Það er haustdagur þann 12. október árið 1918.
Kona ein í Álftaveri undirbýr sláturgerð . Smaladagur og féð væntanlegt ofan úr afrétti yfir Sand seinnipart dags. Fylgifiskur þess, að enginn vel tamdur vinnuhestur er tilkippilegur heima á bænum. Hana vantar nefnilega tunnu. Hún leggur því reiðing á sæmilega bandvant tryppi fjögurra vetra, annað ekki að hafa á smaladegi. Hesturinn sá er ýmist staður í taumi eða pínulítið rokgjarn,svo ferðin niður í fjöru sækist frekar seint. Á förnum vegi hitti hún Gísla hreppsstjóra í Norðurhjáleigu. Sá flytur henni tíðindi í óspurðum fréttum;
„ Heimstyrjöldinni er lokið, þeir hafa samið um vopnahlé !“ sagði Gísli brosleitur á svip.
„Of góð tíðindi boða ekki gott. Jafnvel heimsendi mælti móðir mín stundum !”svaraði konan sveitungi hans og hélt síðan för sinni áfram.


….
Katla tók að gjósa og hófust lætin um klukkan þrjú þennan dag. Sögur um byrjun eldgosa er samofin sögu þjóðarinnar í kornungu landi – jarðfræðilega séð. Engum óróamælum Veðurstofunnar var til að dreifa í þá daga, og fyrirvarinn lítill sem enginn. Þó voru jarðskjálftar tveimur tímum áður í nágrenni. En slíkt gerist, alloft. Á stórum svæðum landsins kippum við okkur ekki sérstaklega upp við slíkt.
Við slíkar aðstæður eru sögur af fólki – í þessu tilviki Skaftfellinga mjög fróðlegar. Eftirfarandi gerðist daginn sem Katla tók að ausa úr iðrum sínum og bræða kringum sig. Án efa eru fleiri sögur geymdar víða.


….
Jóhann Pálsson í Hrísnesi stikaði stórum skrefum yfir Hólmsárbrú. –. Leið hans lá suður í Álftaver . Hann var kominn nokkuð lengra, þegar hann heyrði aukinn hvin í ánni. Hann lýsti aldraður í viðtali við Ríkisútvarpið að móða hafi verið á Kötlu og skyggni takmarkað á fjallið um þetta leyti. Hann heyrði til viðbótar drunur og grunaði fljótt hlaup í ánni, snéri við á punktinum og þaut beinustu leið til baka.
„Ég var aðeins 32 ára og gat því hlaupið sæmilega hratt“.
Hann slapp yfir brúna til baka og aðspurður hvort hann hefði séð hana fara niður - svaraði hann; „nei, ég sá hana bara hverfa undir strauminn“, það segir hvað gekk á og hvað þetta stóð tæpt. Orðatiltækið . „að sleppa með skrekkinn“ fær satt að segja æðri merkingu sbr. lýsingar Jóhanns.

Sagnir voru strax um að hann hefði sloppið, en hundurinn á hælum hans drepist í flaumnum. Jóhann sagði það ekki rétt. Hann greyið hefði komið fram á nágrannabæ daginn eftir. Mælti síðan með skaftfellskri hægð og hógværð ; „ En það var svo skrítið að hann jafnaði sig aldrei á atvikinu.“ Í viðtalinu við Stefán Jónsson var líkt og Jóhann væri að lýsa skrámu eða minniháttar atviki. Virtist í engu hafa bugast yfir minningunni, sem engum hefði þótt mikið eftir slíka reynslu.
….
Tveir vinnumenn Sveins Sveinssonar í Ásum voru í verslunarferð út yfir Sand með vagnalest. Þeir fóru yfir Múlakvísl nokkrum mínútum fyrir hlaupið og höfðu ekki grænan grun um hvað gekk á, og í vændum var. Þar fyllti farveginn af vatni og aur, á augabragði nánast á hæla þeirra.


….

Sláturtíð stóð yfir líkt og dagsetningin í október segir til um. Fjárrekstrar voru því á Mýrdalssandi
hægri / vinstri þessir dægrin. Bílaflutningar ekki hafnir og féð því rekið til slátrunar í Vík.
Enn var forsjón guðanna - eða hvers sem réði, með í för. Það varð tunnuskortur í Víkinni gosdaginn mikla.
Án þeirra var engin slátrun. Allt saltað í tunnur. Aðrar heimildir segja að saltskortur hafi bjargað mannslífum, trúlega var það skortur á hvorttveggja. Frysting i stórum stíl ekki komin til sögunnar á þessum tíma. Boð voru því látin berast frá sláturhúsinu í Vík að ekkert væri hægt að reka þennan dag fé til slátrunar. Á meðal degi hefðu margir rekstrar og lestir verið á Sandinum. Til viðbótar fóru síðustu til baka austur sandinn til síns heima sólarhring fyrir hamfaradaginn mikla. Þeir sluppu því líka sem var hreint ótrúlegt happ fyrir marga.

….
Þá víkur sögunni aftur niður í Álftaver.
Bændur þaðan voru á afrétti gosdaginn mikla. Þeir voru dreifðir um austurhluta Mýrdalssands. Líkt og fleiri Skaftfellingar sluppu þeir með naumindum undan hlaupinu með féð heim. Rekstur aðeins klukkustund eða tveimur síðar fram sandinn - hefði að líkindum þýtt ógn og stórhættu.

 

Loks fann konan tunnu í fjörunni sem hentaði. Kom á hana böndum. „Gerir sila og hefur til klakks, en á móti hengir hún viðardrumb“ (til jafnvægis). En hún fór illa á klakk og seinlega gekk ferðalagið heim. Tosaðist samt áfram, en þá tók hún að heyra ógnvænlegan nið úr norðurátt. Fóru þá einnig að sjást mikil ský yfir Mýrdalsjökli austanverðum. Til viðbótar var vatn var orðið á vegi hennar þar sem hún átti síst von, og byrjaði að tefja för.
Leiðina til baka um sína heimaslóð - leist henni alls ekki á blikuna. Sveitungar hennar í Álftaveri, aðallega konur, yngra fólk, og börn – (aðrir voru við smölun eða að taka á móti safninu) höfðu hópast upp á hæstu hóla og hæðir í túnum. Konan varð satt að segja felmtri slegin og datt fyrrnefndur heimsendir helst í hug. Blessaði sig í bak og fyrir.
Hún heyrir hróp og köll , og fólkið skipaði ;
„Hentu frá þér bannsettri tunnunni og flýttu þér sem mest !“
Því hlýddi hún hinsvegar ekki. Tryppið, tunnan og hún sjálf- skyldu saman heim á þrjóskunni.

Er hún náði loks til fólksins voru henni sögð tíðindin. Katla var farin að gjósa. Hún sýndi lítil svipbrigði. Það var engu líkara en axlir hennar sigju slakar niður. Virtist sem smá feginleiki á ógnartíma.

 

„Nú já Katla. Ekki annað ! „

Heimildir,: Byggt á frásögn Þórarins Helgasonar og öðru efni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband