22.4.2018 | 11:01
Íslenskan á útleið? Varla.
Áhyggjur koma reglulega um framtíð íslenskrar tungu, ágang enskunnar og að yngra fólkið sé að segja skilið við okkar ástkæra ylríka mál.
Íslenskan breytist likt og allt annað í heimi fljúgandi nýjunga í tækni og miðlum hvers kyns. En svo lengi sem við byrjum að kenna börnum okkar íslensku, svo lengi sem íslenskan er tjáningarmál leikskólanna, svo lengi sem íslenskan er kennslutungumál grunnskólanna, svo lengi sem kennt er beygingarkerfið og setningaskipan, svo lengi sem íslenskan er tungumál íslenskra fréttamiðla - verður töluð hér íslenska af ungum sem öldnum, að sjálfsögðu.
Sannanirnar eru fyrir augum og eyrum okkar. Við sjáum þetta kannski best á börnum fólks af erlendum uppruna. Á örfáum mánuðum ná þau fullkomnu valdi á íslensku máli bæði í leikskólum og grunnskólum. Ástæðan er einföld og nær eflaust aftur til frummannsins. - Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.
Áhyggjur margra af tvítyngi eða margtyngi ungs fólks skil ég hinsvegar ekki . Slíkt er þekkt meðal fjölda þjóða, hjá yngri og eldri. Þykir oft merki um gott menntunarstig. Á undraverðan hátt lærir ungt fólk strax að greina á milli tungumála.
En aftur að upphafinu. Þessa dagana er enskan ekki "kúl", heldur íslenskan !
Eins og fábjáni talar maður orðið við sjónvarpsfjarstýringuna ( svona er tæknin) og hún dúkkar í staðinn upp með það vinsælasta af " samfélagsmiðlum" í þessum heimshluta.
Þar er mjög heitt á " youtube" þessa dagana, ungt fólk, víða að, sem glímir við íslensk orð og setningar.
Hugsanlega er það bara stundarfrægðin okkar og túrisminn. En oft erum við Íslendingar líka sein að "fatta. " Tel hæpið að unga fólkið telji íslenskuna hallærislega þegar svona er. Frekar pínulítið stolt að tala hana, fremur en hitt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.