15.11.2015 | 21:52
Skamm! En hvað svo?
Reglulega fáum við fréttir af hlýnun jarðar og bráðnun íss. Inn á milli aðeins fréttir um kuldatíð, en hugsanlega sjaldnar. Oftar en ekki eru þessar frásagnir með brodd, meiningu, jafnvel fréttaskýringar í ásökunartón. Allt þér að kenna ! , er í sem stystu máli tóninn hjá mörgu gáfuðu og vísu fólki.
Málið er þó varla svona einfalt. Síðustu 200 árin hafa verið margvíslegar framfarir. Aukin lífsþægindi og nýjungar. Hraðari ferðalög, betur kynt hús, auknir vöruflutningar, þægilegri bílar, fjölbreytt matvæli, fólksfjölgun og svo má endalaust telja. Afleiðing alls þessa er hlýnun jarðar segir okkur stórgáfað fólk. En í raun er haldið að okkur klingjandi vekjaraklukkum með ærandi hávaða en samt haldið áfram að sofa. Enda hvað geta Jón og Gunna gert? Svar, lítið sem ekkert. Hver hefur bakkað um 200 ár? Hver vill bakka um 200 ár ? Enginn af öllum þessum milljörðum. En að vísu lifa nokkrir milljarðar fólks líkt og við Íslendingar gerðum fyrir öld. Þessum fátækustu íbúum dreymir samt flestum um annað og betra.
Samviska Íslendinga má vera býsna góð í þessu stóra samhengi. Við framleiðum okkar eigin orku á mengunarlausan hátt. Við framleiðum ál sem m.a. léttir bíla og dregur úr hefðbundinni eldsneytiseiðslu. Sem liðsmenn um hreina jörð tókum við í Flóahreppi upp fulla flokkun sorps fyrir tæpum níu árum síðan. Það tók hálfan mánuð. Enn eru samt stjórnendur sveitarfélaga að vorkenna íbúm sínum þetta verk sem er gert í allskonar stigs- áföngum. Er á örfáum stöðum komið í fulla framkvæmd með þrem aðskildum tunnum. Verkefni sem ESB setti íbúm sínum kringum árið 2020 tók semsagt tvær vikur fyrir tæpum áratug.
Það stendur uppá æðstu ráðamenn stærstu iðnvelda en ekki okkur. Kína, Bandaríkin, Rússland,Indland og fleiri. Við komust þó uppað þeim fyrir ári síðan. En útblástur úr litlum götum í Holuhrauni setti Ísland allt í einu á par með öllum ríkjum ESB á einu augabragði hvað spúandi mengun snerti. En vonandi var það ekki okkur að kenna. Jarðeldar hafa ekki enn verið skilgreindir af völdum manna.
Hitastig á jörðinni hefur alltaf farið hækkandi eða lækkandi. Jarðsagan og hitastig í gufuhvolfi er alltaf í sveiflum. Upp eða niður . Það er ekki nýtt.
En að gera hreint eða hreinna í hinum víðasta skilning er þó varla umdeilt.
(Birt í Sunnlenska Fréttablaðinu nóv. 2015)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.