11.8.2015 | 13:34
Alvöru miðbær Selfoss.
Það komu margar greinar í héraðsblöðin fyrst eftir að hugmyndir um nýjan miðbæ
í hjarta Selfoss voru kynntar snemma í vor. Sitt sýndist hverjum og
flestar voru þær frekar á neikvæðu nótunum fannst mér.
Þarna voru djarfar áætlanir og sumum þótti full mikið háflug í útfærslum
og frumdrögum uppdrátta og teikninga.
Í mínum huga er eftirfarandi aðalatriði. Þegar komið er norðanmegin
yfir Ölfusárbrú í suðurátt blasir við stórt óbyggt svæði, staðsett
algjörleg í miðju og hjarta bæjarins. Bæði alvöru miðbæjarsvæði útfrá
deginum í dag og líka frá því þegar Selfoss byrjaði að byggjast upp og fyrstu
húsin risu. Við erum að tala um nokkur skref frá Tryggvaskála sjálfum.
Þetta er án nokkurs vafa algjörlega einstakt tækifæri á landsvísu fyrir
eitt bæjarfélag. Ekki síst vegna þess að þó Selfoss teljist ungur bær
þá eru nú samt liðin nokkuð á annað hundrað ár frá byggingu og vígslu
Ölfusárbrúar.
Ég átta mig ekki alveg á almannaróm þó sumir þessara greinastúfa í
héraðsblöðunum hafi verið frekar neikvæðir. Í sumum þeirra glitti í
bæja togstreitu í Árborg tengdri nýjustu gullkálfum Íslendinga. Sem þessa dagana
verða að teljast erlendir ferðamenn.
Sjálfur hafði ég sem nágranni og Sunnlendingur séð fyrir mér á þessum nú
óbyggða reit, hlýlegan miðbæjarkjarna með frekar lágreistri byggð og
húsum í íslenskum stíl. Svæði sem einnig héldi vel utan um þokkalega
fjölbreytt mannlif . Hvort sem það væri við uppákomur í bæjarfélaginu, á ósköp venulegum degi eða á mesta og ( nú) vaxandi túristatíma.
Ég segi ekki að teikningar og drög hafi verið eins og maður hugsaði. Sum hús komu greinilega inn kópi peist annarsstaðar frá. Með skringilega háum kjallar sem þó var á yfirborðinu. Á svona stað hlýtur að þurfa þægilegt aðgengi fyrir alla í góðri göngu hæð. Kannski hefði mátt vera samkeppni útfrá þessari hugmynd og þeim byggingar stíl sem í tillögunum sjást. Persónulega þætti mér ekki mishár flatþekju Funkis- húsastíll með risa gluggum og ómældri steinsteypu, hvorki hlýlegur né heillandi á þessu afmarkaða svæði. En þarna má líka hugsa sér sambland af nýjum og gömlum stíl, en byggingar í kjarnanum samt með áþekku sniði.
Þessum
málum svona skátengt má segja, minnist ég deilna í menntaskóla í borginni fyrir nokkru áratugum. Þá lenti maður sveitastrákur inní
heitum umræðum ungra Reykvíkinga um Bernhöftstorfuna og framtíð hennar.
Það skal fúslega viðurkennt að þar í Hamrahlíðinni forðum skipaði ég mér
í rangt lið. Enda sá ég fljótt að mér þegar endurbygging hófst. Allt fylltist strax lífi þó byggingar væru ekki "modern".
Birt í Sunnlenska Fréttablaðinu, júlí 2015
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.