5.8.2015 | 12:54
Strandir
Keyrðum í flaumi og stórfljóti ferðamanna á öllum farartækjum norður á bóginn á föstudegi fyrir tveim vikum. Í Staðarskála á karlaklósettinu átti maður eiginlega absúrd móment. Tvístígandi, bíðandi eftir no. 1 og 2, uppá endann þétt á meðal Kinverja, Araba, þeldökkra blökkumanna ( veit ekki hvort má segja blökkumaður í dag) og Þjóðverja, varð mér eiginlega ekki mál lengur og snéri aftur út. Hafði samt ekkert beinlínis með ferðamenn að gera. Snyrtingin var eflaust talin nógu stór þegar nýtt hús var byggt fyrir örfáum árum. En ekki lengur. Þessi alþjóðlega kallaflóra gekk heldur ekki nógu snyrtilega um svo það gerði nú útslagið. Að taka upp setuna áður en pissað er. Algjört grundvallaratriði.
Við fórum ekki áfram norður í iðu og straum umferðar. Beygðum til vinstri í vesturátt. Allt féll eiginlega í dúnalogn. Dóluðum okkur í sól og blíðu framhjá Borðeyri og áfram, mættum varla farartæki né túrista. Svona finnast enn "róleg" svæði.
Drangsnes er með minni sjávarþorpum landsins. Einn af þessum stöðum sem leynir a sér. Amerískur ferðamaður fullyrti við vertann er hann gerði upp fyrir brottför, að þar inni á látlausum veitingastaðnum hjá gistiheimilinu, hefði hann smakkað þann besta fisk (þorsk) sem hann hefði bragðað á æfi sinni. Við hittum þannig á að loksins var að hlýna sögðu heimamenn eftir kalt vor og sumar. Það væri dramb að segja okkur Sunnlendingana hafa komið með sumarið. En ef svo, var það velkomið. Eitt sérkennilegasta dæmið um hitastig á sumum landsvæðum þetta sumarið er að heitasti dagur ársins til þessa var í febrúar! Fór þá í 15 gráður. Man ekki hvar þetta var.
Gistum og sváfum vel á Drangsnesi, en staddur þar í heiminum er hreinlega ekki hægt að sleppa heimsókn að Djúpuvík.
Vegurinn um Strandir var fínn. Kom mér á óvart reyndar. Sléttur og mjúkur malarvegur ( betri en Hamarsvegur hér í sveit) en eðlilega aðeins bugðóttur og á stöku stað halli og krappar beygjur. Rekaviður í ómældu magni, en virtist nokkuð veðraður. Trúlega samt ekki í líkingu við á árum áður , (Sovét-tíma). Eftir beygju fyrir eitt nesið blasir allt í einu við Djúpavík og gamla verksmiðjan í fjarska. Merkilegt hvaða sumu fólki, frumlegu í hugsun, getur dottið í hug. Að festa kaup á þessu öllu, eyðistað i niðurníðslu hefur varla þótt gáfulegt. En eigendur hafa ekkert anað að neinu. Taka endurbyggingu í áföngum. Heillandi staður og súpan í hádeginu var fín. Mjög temmilegt rennerí af gestum. Hár foss ofan við húsin sem breiðir úr sér á niðurleið gefur umverfinu sérstakan svip.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.