24.5.2015 | 14:04
Af slæmum spádómsgáfum.
Svartsýnisspár ganga sjaldan eftir. Íslendingar er er klaufar við
slíkt. Erum trúlega seigari en við sjálf höldum. Hin hliðin er
líka að við vanmetum oft eigin hæfni og getu. Einnig samfélagið og landið sjálft. Tölum flest niður í útbreiddum svartsýnisköstum, en stundum vill það þróast útí óraunsæi.
Aftur að fullyrðingunni um svartsýnisspárnar. Spáð var að varla nokkur
túristi myndi heimsækja landið ef hvalveiðar hæfust á ný.
Stærsta hvalaskoðunar miðstöð landsins er í nágrenni aðal hvalveiðsvæðin
hérlendis. Hér er mesta fjölgun ferðamanna á Vesturlöndum . Vinsælasti
réttur hins vinsæla veitingastaðar "þrír Frakkar í Reykjavík af erlendum ferðamönnum ku vera hvalkjöt.
Einnig voru (og enn í dag) ótt og títt, virkjanir taldar skerða
ferðamannastrauminn. Þversögn þess er trúlega sú að mest sótti
ferðamannastaður landsins er klesstur upp við virkjun. Og Bláa Lónið stækkar enn. Ég nefni þetta
sem dæmi um lélega spádómsgáfu margra sjálfskipaðra beturvitringa.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur mjög gaman af upprifjunum. Mættu til fróðleiks
rifja upp allar svartsýnisraddirnar. Þar féllu stór orð. Nú er meira
rætt um átroðslu af völdum ferðamanna. Jafnvel líka eftir umdeilda
Kárahnjúkavirkjun.
Ég nefni þetta sem dæmi um lélegar spár sem í þessum tilfellum sýna hve
sterkar skoðanir geta skert raunsæi hugsandi fólks. Skal samt alveg
taka fram að frá mínum sjónarhól eru hvalveiðar í dag einungis
gæluverkefni Kristjáns Loftssonar, þó fjölmargir hafi reyndar af því
atvinnu. Einnig tel ég það galið að virkja með látum allt mögulegt
hér einungis til að selja einni meðalstórri borg á Bretlanseyjum hluta
síns rafmagns, gegnum ævintýrlega rándýran sæstreng. Nær væri að
viðhalda og lækka enn frekar verð raforku til almennings og innlendra
fyrirtækja. Slíkt, með skynsamlegri, áframhaldandi vistvænni orkunýtingu gerir
landið bara enn byggilegra.
Verra var þegar við vorum beinlínis plötuð. Fram að miðju ári 2008 var ástand bankastofnana falsað og þjóðin
vísvitandi blekkt af stjórnendum þeirra og þáverandi eigendum, innan stórra gæsalappa. Galin bjartsýni , ofmat og
háflug þeirra ára telst því ekki marktækt sem lýsandi ástand og mat á
eðlilegri getu þessarar þjóðar á ólikum sviðum. Þá sveifluðust nú fyrrgreindar framtíðarspár útí heiftarlegt ofmat á okkur sjálfum og peningaviti.
Gallinn er hinsvegar hve við glimum mörg enn við afleiðingarnar. Hluti af því endurspeglast nú í kjarabaráttu og að vinna til baka það sem skekktist og skældist í kjörum fólks við magalendinguna.
Þar ofbýður fólki ofsagróði sumra fyrirtækja og einstaklinga ásamt ógnvænlegegri sjálftöku fjár líkt og ekkert sé sjálfsagðara. Það veldur undirliggjandi mesta kraumi kjarabaráttunnar. Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur stundum nefnt að þegar farið sé að deila um margföldunartöfluna séum við í slæmum málum. Á þar við hið augljósa og margsannaða í sumum málum. Víxlverkun kaupgjalds og verðlags gæti því miður fallið vel inní þessa skilgreiningu.
Birt í Sunnlenska Fréttablaðinu maí 2015.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.