Af stuttum kveikiþráðum og stjórnlausu tuði

Sennilega fékk all stórt hlutfall þjóðarinnar vægt taugaáfall 2008.   Það
var nógu slæmt.    Verra er hinsvegar að í dag þegar fólki er boðin
áfallahjálp við flest slys og misfarir (góðu heilli),    þá burðast
greinilega fjöldi fólks enn með örin síðan fyrir tæpum sex árum síðan. 
Óbætt.  Ólæknuð.
Ekki verður annað ráðið af orðfæri og meiningum margra sem sturta
reglulega út úr skjóðum hugarfylgsna sinna með misgóðum hug og aðgát á
samskipamiðlum Netsins.
En, kannski sem betur fer,  kann fjöldi fólks ráð við þessu.  Það les
lítið blogg um Hrunmálefni, takmarkar fésbókina við fjölskylduna og nánustu vini, sleppir athugasemdakerfunum  og
síðast en ekki síst hefur slökkt á opnum línum hjá Útvarpi Sögu.
Aðrir ( og þeir eru alltaf til)   Eru lúmskt forvitnir að eðlisfari
og fylgjast með þessu öllu.  Hafa jafnvel húmor fyrir æsingnum.    En sem
betur fer láta  ekki  orðaskylmingar koma sjálfum sér úr jafnvægi nema
síður sé.
Fjölmennasta hópnum má ekki gleyma. Stór meirihluti þjóðarinnar hefur nefnilega ekki hinn
minnsta áhuga á að velta sér uppúr þessum efnahagsóförum endalaust.  Það
er utan hinna áþreyfanlegu afleiðinga sem því miður við  mörg þurfum að glíma
við enn í dag. Sem eru t.d.  stökkbreytt lán og aðrir illir fylgifiskar.
Það sem lá að baki fyrirsagnar hér að ofan er hinsvegar orðbragð sumra
og atburðir úr fortíðinni sem virðast hreinlega með þetta klesst í sálarlífið.  Mörgum ofbýður.       En Íslendingar hafa innbyggða aðlögunarhæfni eftir tólf alda vist á harðbýlu hamfara landi. Við skulum vona að slíkt gagnist okkur.  Einnig að stýrimenn skútunnar séu starfi sínu vaxnir.

            Að allt öðru og mun meira spennandi.  Hina öra þróun í smíði rafbíla er ótrúleg tæknibylting.  Að geta knúið öflug ökutæki orðið með mengunarlausri orku alla leið á enda er í raun orðin mesta tæknibylting þessarar aldar þó skammt sé liðið.  Tæknin er að vísu ekki ný. En þróun ökutækjanna og sérstaklega rafgeyma er hröð þessi árin.   Kannski er maður að nafni Elon Musk hinn “nýi “ Henry Ford  bílaiðnaðarins.  Hann hagnaðist stórt í tölvugeiranum  og hefur síðustu árin lagt milljarða króna í þróun Tesla rafbílsins.   Niðurstaðan er öflugur sportbíll og heimilisbílar  sem standast bensín bílum snúning og síðast en ekki síst  draga  bílar frá Tesla orðið 480 km .  á einni hleðslu!     Gömlu bílafyrirtækin eru farin að sækjast eftir þessum byltingar rafhlöðum  og öðrum lausnum  í sína framleiðslu.   Maður spyr sjálfan sig hvort ekki dragi úr endingu hleðslu  í íslensku  norðanbáli og vindkælingu.     Hugsanlega,  en jafnvel þó svo væri  þá er bara að gera pissustopp t.d. í Borgarnesi eða Staðarskála  og  fá sér hraðhleðslu   á meðan.

            (Birt í Sunnlenska Fréttablaðinu september 2013)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband