Fíkniefnafjandinn

                                


Ég vil kalla hlutina réttum nöfnum.   Bara ef einhverjum finnst fyrirsögn
pistilsins of sterkt orðuð.
Síðustu daga hefur skapast  heilmikil umræða um fíkniefnapróf sem
Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum lét taka á starfsmönnum sínum.  Ólögleg vímuefni
greindust í  nokkrum sjómönnum sem misstu starfið. 

 

 En ég fyllist allt að því óhug yfir umræðunni um
fíkniefnin og viðleitni vinnuveitenda til að halda starfsmönnum allsgáðum í hættulegum störfum..
Fyllist óhug vegna þess hve margir telja þetta óréttlæti og lítið
vandamál.  En segir mér reyndar í leiðinni hve efnin eru útbreidd.  Það
skín alltof áberandi gegnum allt saman. Að Vinnslustöðin sé tilbúin að gefa þeim tækifæri sem sjálfir óska aðstoðar eru hinsvegar góðar fréttir.


Það að útskolunn kannabis úr þvagi taki langan tíma, er engin afsökun.  . 
Sýnir þvert á móti lymsku og hægbrenglandi áhrif þessara efna á
einstaklinginn.   Í raun má engu muna að snobbað sé fyrir grasinu hjá
mörgum sem eiga að vita betur.  Sem skilar sér síðan lóðbeint til
þónokkurs hóps yngra fólks  og fiktið byrjar. Með alltof alvarlegum
afleiðingum fyrir marga.

Einhversstaðar byrjar viðbjóðurinn og mjög oft á hassi og marejúana
reykingum.  Virkar saklaust og auðvelt í byrjun en leiðir alltof oft til
kæruleysis, sinnuleysis og slaka. Svo seinna  til áframhaldandi
tilraunastarfsemi er manni sagt.    Þá er tekið til við "prófa"  harðari
efnin
 
Eiturlyfja vandinn birtist okkur í sívaxandi glæpum.  Fréttum af  ránum og
ofbeldisverkum.Sjálfsvígum eða hvað þetta er nú allt saman sem fylgir..Ég undrast hve fjölmiðlar hafa lítinn áhuga á að ræða
afleiðingar þessarar  eiturneyslu þess utan. Í því fellst forvörn án efa.   Nánast eingöngu er  minnst á
miðlun efnanna (þ.e. dómar kringum smygl og innflutning)  eða “fjármögnunar”glæpina ..Hvað með einstaklingana sem eru í þessu rugli?    Hvernig
líða dagarnir.  Hversu margir eru á vinnumarkaðnum og  kannski ekki búnir
að hrynja niður í neðstu þrepin ?Hversu margir þvælast á milli vinnustaða
og tolla illa í vinnu?Hvernig vegnar þeim sem þó fara í meðferð.    Hversu
hátt hlutfall nær hreinsun í hálft ár, eitt  ár, fimm ár eða tekst þetta
alveg?


Það situr alltaf í mér saga af ungum  efnilegum pilti. Hann villtist af
réttu brautinni um tíma.  Prófaði pillu í áfengisvímu.  Trúlega fór
eitthvað hvítt í nös líka.    Varð fíkill. Með hjálp fjölskyldu fór hann
hinsvegar í meðferð.  Náði að hreinsa út úr líkamanum og komst aftur út í
hið daglega líf.Þessi drengur var vel gefinn og  hafði metnað.  Draumur
hans var alltaf að læra flug.  Hann hóf því flugnám og gekk það vel til að
byrja með.  Stefndi hann markvisst að atvinnuflugmannsprófinu.Einn daginn
var hann alveg tekinn við stjórnun vélarinnar  en hafði ekki tekið
sólópróf og flugkennarinn var því með honum.     Allt í einu öskrar hann
upp og missir stjórn á vélinni.   Skelfur sem hrísla, svitnar og er alls ófær um tíma að stjórna vélinni
svo að flugkennarinn tekur við.Skýringin sem hann gaf var sú að honum
fannst fíll sitja klofvega framan á vélinni rétt framan við skrúfuna!
Óþarft er að taka fram að draumar þessa pilts voru úr sögunni.   Alþekkt
er að ofskynjanir geta komið fram í sködduðum einstaklingum  löngu seinna
eftir að harðri neyslu er lokið.

 Ég er ekki viss um að allir "vilji vita" eða geri sér grein fyrir
hrikalegum afleiðingum þessa.  Sem ég vel að merkja þekki aðeins af
afspurn. Unga fólkið er hinsvegar áhættuhópurinn. Það þarf að vita og
fá markvissa fræðslu um hvílíkt rugl getur verið að byrja þessa helreið.

  

(Birt í Sunnlenska Fréttablaðinu 13. febrúar 2013.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband