Eigið fé og annara fé.

Stundum læðast að manni efasemdir um að við höfum nokkuð lært  af fjármálahamförum fyrir rúmum fjórum árum.  Vandræðagangur  með eigið fé og fé okkar hinna virðist endalaust.    Nú síðast í fréttum hvernig  tölvukerfið hjá hinu opinbera  varð dýrara og dýrara.  Kostnaður óx ár frá ári líkt og njóli á hól.     Síðan eru eftirlitsstofnanir  (eftir fjögurra vetra samfellda hneykslunarbylgju almennings)  líkt og ríkisendurskoðun  fráleitt að sinna sínu starfi almennilega.  Og þetta er að gerast núna.   Fyrir þónokkru hélt maður að botninum væri náð.

            Sumt er sýnilegra.   Sukk Orkuveitunnar til dæmis.    Það blasti við mörgum, en stjórnendur héldu       purrkunarlaust að peningarnir  kæmu jafn fyrirhafnarlítið og heita vatnið uppúr jörðinni.  Kannski voru þar  á ferðinni nokkurskonar “samlegðaráhrif”.   Þó í annari merkingu en það fína orð er yfirleitt notað.   Samlegðin þar féllst í  stöðugri innkomu sem tikkar sífellt inn.  Allir þurfa jú hita og rafmagn.    En ofan í kaupið fékkst þarna fyrir nokkrum árum lánsfé sem hægt var að grípa hvar sem var.   Og það nýttu menn sér.    Jafnt Orkuveitan sem  Bónusfeðgar.   Fasta innkoman var þar líka á móti bankasjódælingunni.  Allir þurfa jú sitt daglega brauð og nauðþurftir.      Það merkilega er að Jón Ágeir heldur  sinni stöðugu innkomu eftir allt sem á undan er gengið.    Það er núna frá Stöð 2  sem skráð er á frúna.

            Fræðimenn fundu upp orðið “fjármálalæsi”.   Stór hópur var  ólæs.   Þjáðist jafnvel af fjármálalesblindu.    Sú blinda var öðruvísi að því leyti að hún er í fæstum tilvikum meðfædd.  Hún mótast að hluta til af gildum samfélagsins og  opinberra stofnana.   En einnig uppeldi.   Eftir höfðinu dansa limirnir.  Ef við yfirfærum þann sannleik alla leið geta fyrrgreind mál hjá æðstu stofnunum ríkis og einstakra sveitarfélaga ekki talist kollur í lagi eða allavega ekki góð fyrirmynd.

            Þegar kemur að verkalýð á lægstu töxtum   getur hann sjaldnast spilað rass úr buxum.  Grandvart fólk í þeim hópi á flestum tilvikum nóg með að púsla sinni innkomu í að lifa frá degi til dags.      Það var  meira í einhverjum lögum samfélagsins þar fyrir ofan sem hlutirnir fóru úr böndunum.

 

(Birt í Sunnlenska Fréttablaðinu 24.okt.2012)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband