Fullorðna fólkið.

Þessi grein birtist í föstum dálki  Sunnlenska Fréttablaðsins 15 ágúst 2012. 

 

LEIÐARLJÓS OG FULLORÐIÐ FÓLK.

 

Þegar Leiðarljósið var slökkt endanlega í sjónvarpi allra landsmanna kristallaðist hve eldri þegnar þessa lands eru afllítill þrýstihópur.   Enda  yfirleitt ekki  fólk sem vælir og kvartar alla daga. 

Ég horfði aldrei á þennan endingarmikla framhaldsþátt.  Bara stöku ramma stundum þegar leitað var í textavarpið eftir nýjustu veðurspám eða fréttum.     Satt að segja höfðar efni þessa þáttar  jafn lítið til mín og endalausar morð og beinagátur  kvöldin út og inn.

  En ég kannast við hóp af  fólki sem fylgdist spennt með hverjum einasta þætti.  Sérstakleg var markhópurinn fólk í eldri kantinum  og þeir sem dveljast  á öldrunarstofnunum.     Aðdáendur þessa þáttar nema þúsundum  og það vita þeir á RÚV.  Ég er ekki í stöðu til að segja  þá sem fylgdust með kjána eða með lélegan smekk fyrir sjónvarpsefni.   Ekki frekar en Jón í næsta húsi ef hann velur að safna vasahnífum.       Stjórnendur RÚV finnst mér hins vegar taka  þann pól í hæðina.  Þeir orðuðu það beint út og sögðu komið nóg.  Sennilega hefur töffurunum sem stjórna Sjónvarpinu ekki þótt þetta efni lengur nógu töff.

Framleiðsla þessa þáttar er að vísu hætt í dag.    Samt á eftir að sýna hér á Íslandi efni sem endist heil 9 ár. Elsti hópurinn hefur greitt uppí topp fyrir  þjónustuna og afnotagjöldin allt sitt líf.  og á því alveg heimtingu á "sínu"   uppáhaldsefni.  Sem og aðrir. Margt misgáfulegt er framleitt og keypt erlendis frá í öllum miðlum undir formerkjunum afþreying.      Sjónvarpsþátturinn Leiðarljós  var ekki það versta.

 

Þetta dæmi sýnir okkur hve virðing fyrir sjónarmiðum og áhugamálum eldri borgara  er takmörkuð.  Íslensk löggjöf  stimplar hópinn út  67 til 70 ára gamlan.  Í sem stystu máli..,  “Verið þið sæl.    Þið megið fylgjast með því sem við  (á besta aldri)  gerum á hliðarlínunni ef þið endilega viljið.   En ykkur er harðbannað að vera með.”    

Það er engin tilviljun að víða á byggðu bóli njóta  hinir elstu mestrar virðingar. Þannig er það yfirleitt hjá fjölda ættbálka og þjóðflokka um allan heim. Þeir hafa safnað i reynslubankann og einstaklingar sem eru svo heppnir að halda heilsu geta miðlað visku til hinna yngri og þeirra sem ráða.

            Ég er ekki með þessum orðum að kasta rýrð á þá sem fara með málefni elstu borgara.   Sinna þeim í félagsstarfi,aðhlynningu og umönnun.  Þar gerum við Íslendingar betur en flestir og  unnið er frábært starf.  En hin alltof mikla “hólfun”  samfélagsins í aldurshópa  hefur að mínu mati gengið útí öfgar.

  

                                    Valdimar Guðjónsson

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband