22.4.2012 | 12:01
Eru ný atvinnutækifæri?
HVERJIR SKYLDU LÁNA?
Mér heyrist að fleiri en ég hafi hugsað þegar sagt var frá áformum um nýja verslunar miðstöð við Biskupstungnaafleggjara undir Ingólfsfjalli. Er þetta virkilega það sem vantar?
Tek fram að ég þekki ekkert til þeirra sem standa fyrir þessum áformum. Eflaust allt hið mætasta fólk. Kannski eru þar stöndugir fjárfestar á bakvið allt saman. Sjálfur er ég bara venjulegur neytandi og ekkert alltaf neitandi, heldur bara frekar jákvæður ef eitthvað er.
En íbúar hér á svæðinu þekkja alla þá fermetra sem lagðir eru undir byggingavörverslanir Ekki sýnist manni fljótt álitið að bæta þurfi þar við. Né fleiri rúsínubúðum.
En burtséð frá því verður athyglisvert að fylgjast með hverjir endanlega fjármagna framkvæmdir sem þessar. Munu lífeyrissjóðir leggja þar til eða bankastofnanir?
Alveg er hollt að rifja upp að Húsasmiðjan fékk afskrifað í bönkum og víðar 10 milljarða króna og er þá víst ekki allt talið. Það jafngildir svona 450 íbúðum á meðalverði. Dágott hverfi það. Síðan má bæta við stærri kompum líkt og Smáralind, auk fjölda annara stærri verslana sem fóru yfirum eða á ystu brún.Má þar nefna N1 og fleiri. Og enginn borgar nema þú og ég.
Persónulega finnst mér við þurfa á öðru að halda nú. Við erum yfir okkur södd af fermetrum til verslunar í bili. Nú er rétti tíminn fyrir geymendum og veitendum lánsfjár og sparifjár okkar, að víkka sjóndeildarhringinn. Hugsa lengra fram í tímann , sýna þolinmæði og gera ítarleg plön. Við þurfum meiri breidd í atvinnulífið. Taka fleira inn í dæmið en verslana og skrifstofuhúsnæði .
Lífeyrissjóðir töpuðu 380 - 390 milljörðum króna eftir að efnahagshrunið brast á. Þetta eru miklir fjármunir og raunar tölur sem tilheyra meira sólkerfinu en nokkru öðru. Er hugsanlega til eitthvað sem getur kallast heilbrigðari áhætta? Einhverja agnarlitla prósentu af þessari stjarnfræðilegu tölu t.d. í hlutafé til nýsköpunar. Kannski hefði eftirá að hyggja verið hægt að láta brot af þessum peningum almennings vinna sér inn ávöxtun með skynsamari hætti og með þolinmæði. Vera opin fyrir vænlegum sprotaverkefnum. Nú ef ekki allt gengur þá tapa menn. Mér sýnist við nefnilega tapa samt.
Þónokkuð er í farvatninu um þessar mundir og frjótt hugvit sem betur fer ennþá til. Auk þess styður gengi krónunnar við allan útflutning í dag. Nefni hér til fróðleiks tvö dæmi. Annað úr nýliðinni fortíð sem kannski má læra af , og annað sem er í gangi. Fyrir nokkrum árum var í gangi þróunarverkefni í Þorlákshöfn. Þar var búið að reikna út ásættanlega arðsemi á útflutningi, jafnvel á bullgengi krónunnar sem þá var ekki vænlegt til útflutnings vegna þenslu innanlands.
Verkefnið fólst í vinnslu og feygingur á hör sem ræktað var um allt Suðurland. Þetta var komið vel af stað en það fólst í nýtingu heita vatnsins sem gnægð er af í Ölfusinu. Hinvegar þurfti meiri tíma til að þróa og fullreyna verkferla við vinnsluna. Til þess þurfti meira fjármagn. En nei. Því miður. Þið fáið ekki lán. Ekkert svoleiðis að hafa. Varð þvi ekkert meira úr þessum áætlunum þá. Tölur sem ég hef heyrt í því sambandi voru ekki háar. Á sama tíma voru stjórnendur þessara banka sem neituðu fyrirgreiðslu að ausa tugum milljarða í skúffufyrirtæki hvers annars sem ekkert voru nema nafnið. En sem dæmi um viðhorfið á þessum tíma þá má nefna sem dæmi að ef einverjum hefði dottið í hug að byggja fjölbýlishús í Þorlákshöfn á þessum tíma þá hefði verið spurt, Hvað viltu mikið ?
Annað dæmi úr nútímanum er verkefnið Fjölblendir sem maður úr Flóanum Kristján Björn Ómarsson hefur þróað síðustu árin og hefur verið í jákvæðum prófunum hjá stærstu bíla og vélaframleiðendum erlendis. . Þessi nýja gerð blöndungs sagði Kristján nýlega í blaðaviðtali að væri vel hægt að framleiða hérlendis en óvissa sé um lokafjármögnun verkefnisins. Semsagt fjármagni til að hefja framleiðslu. En líkt og við fyrrnefnt verkefni er fjármögnunarþörfin alls ekki há upphæð, jafnvel lág í samanburði við nýja stóra íslenska verslunarmiðstöð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.