31.5.2011 | 20:17
Gísli á Uppsölum.
Fullorðnu fólki er enn í ferskum minni heimsókn Ómars Ragnarssonar árið 1981 til einbúans Gísla á Uppsölum í Selárdal.
Gísli var alls ótengdur við nútímann og hjólið ekki einu sinni tekið í notkun við búskapinn. Þjóðin horfði forvitin og hissa þegar Ómar hóf spjall við þennan mann. Hann hafði ekki hugmynd um hvaða sköllótti strákur Ómar sjálfur var og er. Þessi þáttur sló í gegn. Síðan vatt þetta uppá sig. Ég man að Jón Páll Sigmarsson kraftajötunn fór eitt sinn með Ómari að færa Gísla sjónvarpstæki að gjöf og annað í þeim dúr. Kannski leið Gísla betur eftir þetta. Sem betur fer sýndi hann þessu vissan áhuga.
EN.
Þeir sem sáu kvikmyndina Fílamanninn sáu að sumu leyti líkar aðstæður. Þá meina ég að þvi leyti að þeir sem ýttu honum fram fyrir ásjónu almennings böðuðu sig að sumu leyti sjálfir í frægðinni með honum. Ekki illa meinandi, en samt.
Viðtalsþáttur Ómars,Stiklur, sló í gegn. Almenningur hafði mikinn áhuga á að sjá inn í heim einbúans og fylgjast með nánast algjörum "steinaldarmanni".
Hin hliðin á þessu er hin skakka sýn á fortíðina, og jafnvel líf fólks í dreifbýlinu, sem fylgdi í kjölfarið. Þeir sem ekki þekktu betur til héldu að Gísli sýndi hvernig fólk lifði á öldum áður. Margt var þar fjarri sanni.
Þorbjörn Broddason prófessor í félagsfræði kemur einnig með annan vinkil í Sunnudags Mogganum 22.maí sl.;..."Þarna er maður sem hreinlega er fatlaður, utanveltu og veit ekkert hvaðan hvaðan á sig stendur veðrið. Þá kemur allt í einu einhver maður að sunnan með græjur og eltir hann um túnið og hann hrökklast undan honum eins og sært dýr. Mér fannst þetta óskaplega sorglegt, var misboðið og var alveg gáttaður þegar ég sá undirtektir fólks...
Ég get á vissan hátt tekið undir með Þorbirni. Þessi minni hafa verið tekin fyrir bæði i bíómyndum og bókum.
Auðvitað var samt mjög sérstakt "að finna" svona einstakan mann þegar jafn langt var liðið á síðustu öld.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.