29.4.2011 | 21:32
Verksmiðjubú.
Það er misskilningur og oftúlkun að halda því fram að hér á Íslandi séu orðin til svokölluð verksmiðjubú hægri vinstri.
Ef svo er, vantar illilega hástigs lýsingarorð sem lýsa stórbúum víða erlendis sem eiga lítið skylt við hefðbundinn landbúnað líkt og stundaður er hér á Íslandi.
Vissulega hafa búin stækkað og þeim fækkað á síðustu árum. Hér eru orðin til nokkur bú í stærri kantinum, svona á norrænan mælikvarða, en ekki lengra.
Ég sá eitt sinn nákvæma sýningu í máli og myndum frá heimsókn í nautaeldis fjós eitt í Bandaríkjunum. Veit ekki hvort ég hefði lyst á nautasteik þar í landi eftir þá heimsókn. Gripirnir skiptu þúsundum. Hvorki gras né hey fór í þeirra kjaft. En vörubílar sturtuðu kornmeti reglulega í átplássið. Af ýktu útliti gripanna að dæma fannst manni ekki ólíklegt að hormónar hefðu laumast með í fóðrið eða eftir öðrum leiðum. Mykjan hlóðst upp og var viðvarandi vandamál í stórum opnum þróm. Enginn hvati var til að nýta hana almennilega, né vilji til að keyra hana langar leiðir sem áburð á akra.
Íslensk fjárbú eru lítil. Miðað við áströlsk og nýsjálensk bú eru þau agnarsmá. Þar er raunverulega lausaganga búfjár ef hægt er að kalla slíkt. Burðarhjálp er ekki stunduð á stærstu búum í þeim löndum. Ástæðan er sú að bóndinn kæmist aldrei yfir slíkt vegna víðfemis og búfjárfjölda. Þannig er ýmsu fórnað á altari stærðarinnar miðað við það sem gengur og gerist hérlendis við allar venjulegar aðstæður.
Íslenskum svínum hentar ekki útivera í stórum stíl vegna hnattstöðu okkar. Þeir sem kynna sér hárafar þeirra skilja hvers vegna. Slíkt getur varla talist dýravelferð. Fóðrun þeirra á íslensku byggi er þó góð framför. Ekki síst vegna vegna gæða og hreinleka íslenska kornsins. En hér eru yfirleitt engin eiturefni notuð á akra
Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Krafan um lægra verð afurðanna verður ekki fengin með sjálfboðavinnu bóndans. Þeir þurfa laun fyrir sína vinnu líkt og annað fólk. Af sömu ástæðu eru egg úr "frjálsum" hænum dýrari. Hvort okkar ör-markaður bæri í stórum mæli mun hærra verð fyrir lífrænar vörur útúr búð hef ég efasemdir um. En öllum bændum er frjálst að markaðssetja sig á þann máta með uppfylltum nokkrum skilyrðum. Það er vel og þetta gengur alveg upp hjá nokkrum aðilum. Þá að líkindum með viðskiptavini sem hafa greiðslugetu yfir meðaltalinu. En sá hópur sem telur þetta skipta máli er takmarkaður.
Þá kem ég aftur að upphafinu. Íslenskar landbúnaðarvörur ná hæstu gæðum m.a. vegna þess að hér eru ekki verksmiðjubú í venjulegri neikvæðri merkingu. Það vita neytendur.
Athugasemdir
Tek undir orð þín P. Valdimar, Ísland er lítill markaður miðað við nálæg lönd, og í raun öll lönd, og allur samanburður fáráðnlegur, sú umræða um dýrslegt ofbeldi í svína og kjúklingarækt er algerlega út í hött, og lýsir fáfræði þeirra er það um ræðir. Ég vitna í orð ofanritaðs og fleiri sem um þetta fjalla af ábyrgð.
Ég efa líka að neytendur vilji fara út í fræmkvæmdir þær sem þessir dýraverndunarsinnar, Greenpeace fólk vill að farið verði út í , það myndi þýða gríðarlegar hækkanir á þessum afurðum, eru þær ekki nógu dýrar þegar?
Guðmundur Júlíusson, 29.4.2011 kl. 23:47
Það er rétt Guðmundur. Krafan er um sífellt lægra verð og hagræðingu.
Verðsamanburður við önnur lönd verður þó sífellt hagstæðari íslenskum vörum í hag.
En snar snúningu aftur til baka þýðir hærra verð, þó ekki allir vilji viðurkenna það. Hitt er svo umhugsunarefni og annað mál hvað við viljum stefna stórt og fækka bændum mikið, frá því sem nú er.
P.Valdimar Guðjónsson, 30.4.2011 kl. 00:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.