28.12.2010 | 23:07
Kostakýrin Grána.
Grána 181 er öll. Átti 9 kálfa og mjólkaði milli.60 og 70 þúsund lítra. Hún var mikill fyrirmyndargripur. Bæði afurðarmikil, fallega grá á litinn,vel byggð,með gott júgur,hraust, greind, þæg og afskaplega skapgóð. Algjör draumagripur. Bjó yfir því samblandi af þeirri greind og næmni sem nokkur nautgripur getur náð.
Faðir Gránu var Rosi fæddur 1997. Hún var sú langelsta í hjörðinni og því efst í virðingarstiganum.Bæði gagnvart aðgangi að heyi,kjarnfóðri og öllu sem kýr fær notið. En þetta notfærði hún sér aldrei.Þvísíður hnubbaði hún nokkru sinni nýjar og óreyndar kvígur í hjörðinni sem stundum þvælast fyrir. Eitt var hennar sérkenni. Hún var afskaplega mikil móðir og átti nánast skuldlaust alla kálfa sem fæddust. Fylgdist með öllu í ungkálfastíunni, en samt ekki með hávaða og látum.
Alltaf vissi hún á sumrin hvaða blett skyldi beita þann dag. Hafði þar næmni mikla,eða vissi nákvæmlega hvað sá sem beitti hafði í huga þann daginn.
Hún hefði getað átt fleiri kálfa,en frumutal var orðið nokkuð hátt. Einnig var stirðleiki og trúlega gigt undir það síðasta, byrjað að há henni. En doða varð varla vart öll þessi ár.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.