31.3.2010 | 21:44
Yfir farinn veg.
Þessi grein birtist í Sunnlenska Fréttablaðin nú fyrir páskana.;
Að búa í Flóahreppi.
Með samstöðu íbúanna og vilja sveitarstjórna hefur vel gengið að sameina þrjá hreppa í einn sem heitir Flóahreppur. Þar skipti máli að byrjað var á réttum endum. Skólar voru sameinaðir í einn miðlægan Flóaskóla fyrir sameiningu. Skólamálin sem stundum verða snúin, voru því að baki þegar byrjað var að móta nýtt sveitarfélag fyrir fjórum árum. Einnig hjálpaði að hér voru líkir dreifbýlishreppar með sömu hagsmuni. Á sömu stöðum með samstarf og ekkert sveitarfélagið mjög skuldsett. Eini gallinn sem ég sé í dag, sem þó hefur ekki háð sameiningu, er að mínum dómi hve gömlu hrepparnir Gaulverjabæjar,Hraungerðis og Villingaholts eru félagslega aðgreindir. Það tekur tíma að breyta því og þýðir ekkert að gera með gassagangi. Verkefnin hafa því verið ærin síðasta kjörtímabil við að staðbinda í nýja einingu þau fjölbreyttu stjórnsýsluverkefni og skyldur sem einu sveitarfélagi ber að sinna lögum samkvæmt. Allir sjö fulltrúar af tveimur listum hafa á kjörtímabilinu unnið samstætt og saman að fjölbreyttum verkefnum með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi. Verið blessunarlega laus við karp og þann gagnslausa meting sem stundum fylgir tíkinni kenndri við póli. Af verkefnum má nefna skipan skólamála til framtíðar. Þar var niðurstaðan að taka unglingastigið inn í skólann frá 8.bekk. Er nú í framhaldi af því unnið að stækkun skólahúsnæðis Flóaskóla. Frumkvæði á landsvísu með Stykkishólmsbæ um fulla flokkun sorps. Flokkun sem fullnægir framtíðarmarkmiðum margra margra Evrópulanda, en er óviða komið til framkvæmda. Næst þar nú þegar spörun á rándýrum urðunarskostnaði. Hefur þátttaka íbúa verið framar öllum vonum.Skipulags og byggingarmál í samstarfi með öðrum dreifbýlissveitarfélögum í Árnessýslu og fagfólki. Ekkert er óumdeilt, en í heild hefur samtarfið gengið vel. Bæði sem faglegur bakhjarl og einnig kostnaðarlega að mestu. Einnig eru félags og velferðarmál í nefndum og samstarfi með uppsveitum. Fjárhagsstaða Flóahrepps er sterk. Eins og fyrr greinir var skuldastaða hreppanna fyrir sameiningu svipuð. Handbært fé Gaulverjabæjarhrepps var þó mest, sem náðst hefur að ávaxta án þess að tapa nokkru í bankahruninu. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins síðasta árs var jákvæð um 32.5 milljónir króna. Handbært fé í árslok var rúmar 170 milljónir. Fjármunatekjur voru umfram fjármagnsgjöld, sem er afar fágæt staða hjá sveitarfélagi í dag. Mest hefur þó verið í umræðunni aðalskipulag fyrrum Villingaholtshrepps síðasta kjörtímabil. Það skipulag, eftir gífurlega vinnu, er nú sagnfræði eftir synjun umhverfisráðherrra. Sveitarfélagið getur hinsvegar ekki verið án fulls aðalskipulags og er nýtt ferli í gangi frá núllreit. Á skipulagsferlinu hafa hafa andstæðingar Urriðafossvirkjunar getað komið sínum sjónarmiðum á framfæri með ýmsu móti og náð árangri. Til dæmis hafa lónstæði verið minnkuð og lækkuð um gríðarlegt vatnsmagn. Sem þýðir að Þjórsá í Flóahreppi verður nánast eingöngu í farvegi sínum. Þó hækkar aðeins uppistaða ofan við Þjótanda og Þjórsártún. Af skiljanlegum ástæðum því stórvirkjun er ekki hagkvæm nema násist fall og hraði á vatni. Mannvirki eru öll neðanjarðar . Mulið efni úr jarðgöngum nægir til efnisnotkunar. Einnig náðust samningar um að dýrmætt efnið verði nýtt til vegagerðar gjörónýtra vegkafla í sveitarfélaginu sem annars yrði haugssett eða jafnað út engum til gagns. Samið var einnig við Landsvirkjun um mótvægisaðgerðir vegna vatnsmála og óvissu um vatnsból sveitarfélagsins. Það var sérkennilegt að lesa í einni blaðagrein af mörgum beinlínis gagnrýni á þessa samninga yfirleitt og gjörðir sveitarstjórnar. Síðar í sömu grein vonbrigði með hve lítið fé fékkst frá Landsvirkjun vegna fórna! Hvernig á að taka mark á svona málflutningi? Það sitja í mér ummæli eins bónda sem hefur upplifað færslu bæjarstæðis á Þjórsárbökkum og þekkt sögu þess gegnum aldirnar.. Eingöngu sökum landbrots bakkanna og vegna ágangs íss og íshranna Þjórsár. Þær íshrannir munu verða úr sögunni með virkjun svo dæmi sé tekið og einnig aurfok eftir ís. Þessi maður spurði hvers vegna ætti ég að vera á móti þessu? Ég set þessa upprifjun hér til fróðleiks. Ég geri ekki lítið úr gagnrýni á framkvæmdina. En áróður hefur vægast sagt verið einhliða. Og ástæða þess að sveitarstjórnarmenn hafa ekki og geta ekki varið sig er sú að þeir sem taka lokaákvarðanir gera sjálfa sig vanhæfa með því. Ráðuneyti hefur hinsvegar úrskurðað að sveitarfélagið var í fullum rétti að gera þennan samning um mótvægisaðgerðir. Ég hef setið í Hreppsnefnd Gaulverjabæjarhrepps og síðar Flóahrepps í 20 ár. Það hefur verið lærdómsríkt starf í góðu samfélagi. Vegna ágæts samstarfs og lítils málefnaágreinings hafa fulltrúar og frambjóðendur á E og Þ listum ákveðið að bjóða fram sameiginlegan lista í sveitarstjórnarkosningunum nú í lok maí. Ég hyggst ekki gefa kost á mér til framboðs næsta kjörtímabil. Óska ég sveitarstjórnarmönnum í Flóahreppi velfarnaðar í störfum sínum.
Valdimar GuðjónssonGaulverjabæ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.