7.1.2010 | 23:14
Ekki Indriða og Svavar 3x.
Það sýnir lítinn dug forystumanna þjóðarinnar að erlendur ráðgjafi sem fenginn var hingað skuli vera ötulastur að tala máli okkar erlendis. Eva Joly stefnir hraðbyri í eitt stykki fálkaorðu með þessu áframhaldi.
Við höfum samt misst sjónar á því hver er megin ástæða þessara löngu deilna og að alþingismenn hafa másað sig hása um Icesave. Milliríkjasamnings sem Alþingi Íslendinga var sammála um að væri ekki viðunandi og var því leitað allra þverpólitískra leiða til að lagfæra hann sl. sumar og það tókst. Styrrinn á þinginu nú í vetur var síðan um útkomuna á Icesave 2.
Sendinefndin sem fór í upphafi var illa valin og rangt mönnuð. Og landaði óásættanlegum samningi. Af því súpum við seyðið nú.
Ég hef fyrir því heimildir að á einum tímapunkti við fyrstu samningaviðræður um Icesave hafi mótaðilar okkar staðið á fætur og ætlað að ganga á dyr. Þá hafi Svavar Gestsson komið hlaupandi á eftir þeim og lofað betrun. Hvort það var fyrir eða eftir ummæli þess efnis að hann "nennti ekki að hafa þetta hangandi yfir sér lengur", skal ósagt látið. Þetta sýnir fávisku í samningatækni. Auðvitað átti að leyfa Bretum og Hollendingum að ganga á dyr, fyrst að þetta var viðhorfið í upphafi. Láta einfaldlega viðræður fara stál í stál. Síðan átti í framhaldi af þessu að krefjast þess að fá sáttasemjara frá óháðu þjóðríki til að miðla málum enda málið af þeirri stærðargráðu.
Komi til þess að þjóðin hafni núverandi samningi get ég ekki með nokkru móti séð Indriða Þorláks og Svavar Gests reyna í þriðja skipti. Það væri út í hött. Hafni þjóðin þeim samningi er vart forsvaranlegt að sömu samningamenn haldi í þriðja sinn í víking til samningagerðar.
Hvor aðrir næðu síðan mun betri samningi er óvíst. En á það myndi þurfa að reyna. Sem fyrr segir er linkindin við hinn fyrsta samning rót vandans. "We made a deal" , myndi sennilega heyrast aftur frá tjallanum.
En leiðrétting á þessari gífurlegu vaxtabyrði væri bót.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.