28.10.2024 | 22:14
Næsti forseti Alþingis.
Að líkindum er Dagur á leið að verða forseti Alþingis, ef ráðherrastóll er ekki í boði.
Hvort Kristrún hefur gaukað því að honum skal ósagt látið, en ef himinskaut Samfylkingar í fylgi halda í næstu kosningum verður flokkurinn í stöðu til að ráðstafa embættinu.
Dagur fengi ráðherralaun, en þó ekki ráðuneyti. Semsagt öll hæfilega ósátt, eins og stundum gerist í pólitík. En Kristrún virðist enn einbeitt um væntanlega titla Dags. Verður þó trúlega beitt ákveðnum þrýstingi af sumum flokksfélögum að gera hæfilega vel við fyrrum stjóra.
Degi var brugðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2024 | 12:08
Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri.
Í Kastljósi kvöldsins 3.október 2024, var umfjöllun um Elliðaárnar og þekktur amerískur sjávarlíffræðingur og þáttagerðarmaður fullyrti að hvergi finndist tær laxveiðiá í miðri borg með villtan orginal stofn af norður Atlantshafslaxi.
Steingrímur Jónsson hét maður og fæddist í Gaulverjabæ árið 1890 (alls óskyldur mér). Faðir hans Jón Steingrímsson sem var prestur hér á bæ, lést ungur af berklum ári síðar og flutti ekkja hans til Reykjavíkur. Hún giftist síðar útgerðarmanni á Vestfjörðum og ólst sonurinn þar upp.
Frændi Steingríms hafði flutt vestur um haf og hét Hjörtur. Kallaði sig Chester Thordarson. Hann varð náinn samstarfsmaður Edison um árabil og einn af kunnustu rafmagnsverkfræðingum við þróun rafmagnsins í USA.
Móðir Steingríms sendi soninn til mennta og afrek frænda þar ytra voru honum eflaust hvatning, því hann varð einn af fyrstu Íslendingum til að nema rafmagnsverkfræði. Árið 1919 hafði hann unnið tvö ár í Svíþjóð en hugðist flytja til Bandaríkjanna með Láru konu sinni, gott atvinnutilboð var í vasanum. Þar var allt að gerast.
Þá barst þeim símskeyti sem eiginkonan sagði síðar þá bestu jólagjöf sem þau höfðu fengið. Honum var boðin staða rafmagnsstjóra í Reykjavík sem hann þáði strax frá Knud Zimsen borgarstjóra.
Fyrstu verkefni Steingríms voru tengd virkjun Elliðaáa og uppbyggingu rafveitu. En hann sá ekki bara kærkomið rafmagnið sem veitti ljós og yl með tækniundrum. Honum er þakkað af samtímamönnum að tókst að bjarga og halda laxastofninum þrátt fyrir virkjun og stækkun hennar síðar í tveimur áföngum. Auk þessa lét hann fljótt hefjast handa að planta trjám á svæðinu, sem leynir sér ekki í dag rúmri öld síðar.
Afrekalistinn var langur og karlinn greinilega sívinnandi. Hann kom að Sogsvirkjunum öllum, auk annara virkjana víða um land. Steingrímsstöð er kennd við hann.
Heimilið var erilsamt og á fyrstu árunum varð rafmagnið auðvitað ómissandi um leið og það var komið og tengt.
Kona ein hafði samband og kvartaði sáran yfir rafmagnssleysi í bænum, en þá varð einhver bilun. Hún sagðist rétt nýbyrjuð að elda matinn. Eiginkonan Lára bauð henni og eiginmanni þegar heim til sín í mat og reyddi fram dýrindis kalt hlaðborð , segir sagan. Kvörtuðu þau ekki meir.
Steingrímur hafði taugar hingað að Gaulverjabæ þar sem faðir hans var vinsæll og vel liðinn prestur. Hann færði Gaulverjabæjarkirkju rausnarlega gjöf fyrir tæpum 70 árum. Það var rafmagnskynding og ofnar sem leystu af hólmi stóra kaminu og kolaofn.
Hann lést árið 1975.
Dægurmál | Breytt 25.10.2024 kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)