Aðal og aukafréttir RÚV.

 


Fréttastofa RÚV gerir stundum fína hluti. Broddi er góður og fleiri. En.
Þegar stórviðri hefur geysað á Íslandi, tjón er á eignum fólks af völdum þess, viðvaranir almannavarna eru í gildi og yfirvofandi enn verri veðurspá - myndu flestir telja það fyrstu frétt í almannaútvarpi sama lands. Ónei ekki aldeilis. Á undan í fréttaröð sjónvarpsfrétta RÚV þann 28. desember taldist merkilegra; a) pælingar og álit einhverra á eftirlaunum slökkviliðsmanna, b) vangaveltur einhverra (kannski bloggara veit ekki) um helgidagafrí verslunarfólks,c) innanlandsmál (reyndar vatns flóð) á Bretlandseyjum!
Þá loks töldu háæruverðugir stjórnendur Fréttastofu RÚV, tilhlýðilegt að bregða sér meðhálfgerðum semingi til Íslands og hamfara á Austurlandi af völdum óveðurs. Þar tók m.a. járnplötur af húsum í heilu lagi og vatnstjón af þeim völdum. Leysingavatn flæddi inn í íbúðir víða á héraði og fjörðum. Dúandi vatnssósa umflotin parketgólf víða, rétt eins og hjá hinum stórmerku Bretum. Snjó og krapaflóð stórskemmdi íbúðar hús á öðrum stað. Á það var vart minnst og engar myndir af því í frettunum.

Þá er komið að leiðinlegu fullyrðingunni þessu tengdu. Ég gengst við tuði. Hefði þetta verið aðalfréttin með sambærileg tjón á höfuðborgarsvæðinu? Uuuu, já.

Nei þarna er einhver skringileg röðun og firring í gangi gagnvart íbúum. Í ætt við fótboltaleikinn sem ekki var rofinn á RÚV þegar suðurlandsskjálftinn gekk yfir. Framangreint dæmi er ekki alvarlegt, tek það fram. En mjög lýsandi samt. Nýlegt dæmi er verra. Útvarpsstjóri lýsti því sjálfur nýlega í myndarlegri fundarröð hans um RÚV þar sem hann heimsótti alla landshluta. Sagði þar klárlega hafa átt sér stað mistök fréttastofunnar. Þá geysaði illviðri á Vestfjörðum fyrir um tveimur árum síðan. Í aftaka veðri urðu rafmagnstruflanir og tók af straum snemma morguns á nokkru svæði. Íbúi í dreyfbýli gat notast við gamalt batterís-viðtæki og hlustað á langbylgju. Þetta var vitað, en rataði ekki í fréttatímana (sem eru hvorki meira né minna en á klukkutíma fresti) fyrr en seinnipart dags. Ekkert ferðaveður var og símasambandslaust. Þessi íbúi hafði lýst ástandinu skilmerkilega fyrir útvarpsstjóranum. Hann vissi allan daginn ekki baun í viðbót við rafmagnsleysi og það allsleysi sem því fylgir í dag á venjulegu heimili. Var hugsanlega bara rafmagnslaust hjá honum og vissi enginn af því? Gæti verið fróðlegt fyrir grúskara að kanna hvaða smáfréttir töldust fréttnæmari þennan dag.

Stöð 2 og Bylgjan gera stundum ágæta hluti í sjónvarps og útvarps fréttum. En samanburðurinn stöðvast fljótt við ósambærilega þjónustu enda þar aðeins örfáir starfsmenn.

Í könnunum nýtur Fréttastofan trausts. Það er yfirleitt svar yfirmanna þegar hún er gagnrýnd. En þú verður eiginlega að treysta því sem þú hefur, þegar þú hefur ekkert annað. Trúlega er það skýringin.

(Birt í Sunnlenska Fréttablaðinu janúar 2016) 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband